Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 17:56:09 (2157)


[17:56]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hérna fengu hv. þm. kennslu í kurteisi hjá fyrrv. háskólakennara, hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Og hvernig var sú kurteisi? Þetta er siðbótamaðurinn sem nýkominn er af þingi Alþb. og hann ætlar að kenna þeim úti í Rússlandi hvernig á að kjósa eða öllu fremur, maður mætti nú stundum halda að Jeltsín hefði hringt í hv. þm. til þess að spyrja að því hvernig ætti að komast hjá því að láta kjósa sig þegar hann frestaði kosningunum, því það er svipað og hv. þm. gerði þegar hann ákvað að haga kosningaundirbúningi alþýðubandalagsformannsins með þeim hætti að hann var sjálfkjörinn. (Gripið fram í.) Ekki vera svona viðkvæmur, hv. þm.
    En þegar litið er á þessa kurteisi þá er hún í því fólgin að benda á aðra hlið málsins. Svo kemur hann hér upp og segir: Það var kurteisi að ég nefndi það ekki að ég lagði 10 sinnum meiri skatta á í minni tíð, heldur en þið hafið gert núna. Ég verð að segja það, hv. þm., ef þetta er þín kurteisi, þá held ég að það ættu fáir að læra af slíku.