Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:20:53 (2165)


[18:20]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Finnur Ingólfsson hélt því fram í ræðu sinni hér áðan að sú umræða, þær aðgerðir og þau skref sem tekin hafa verið með glöggvun og breytingum á verkaskiptum stóru sjúkrahúsanna hér í Reykjavík hafi leitt og muni til lengri tíma leiða til stórkostlegrar útgjaldaaukningar. Hér talar þingmaðurinn annaðhvort þvert um hug sér ellegar að hann vill ekki vita betur. Auðvitað sýna tölur að það hefur verulegur árangur náðst vegna fækkunar bráðavakta frá þremur í tvær með tilflutningi bráðavakta af Landakoti yfir á Borgarspítala og Landspítala. Og það mun líka koma í ljós í þeim umræðum sem tiltölulega góð sátt er um og víðtæk sátt meðal starfsmanna heilbrigðisþjónustu hér í Reykjavík, á þessum viðkomandi spítölum, að þær viðræður sem nú eru í gangi og þær ákvarðanir sem teknar verða á grundvelli þeirra um enn frekari, skýrari og skilmerkilegri verkaskiptingu milli þessara þriggja sjúkrahúsa, muni ekki einasta leiða til þess að það mun verða peningalegur sparnaður, heldur er ég líka sannfærður um það að þjónustan mun þegar til lengri tíma er litið batna og verða betri fyrir þá sem hennar eiga að njóta.