Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:24:32 (2167)


[18:24]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er einmitt nákvæmlega það sem verið er að gera. Það fara fram núna mjög gagnmerkar, ítarlegar og efnislegar umræður einmitt um það sem hv. þm. nefndi. Ég hygg hins vegar að hann hafi kannski verið að lýsa sinni tíð í heilbrrn. hér á árum áður, þegar þróunin varð einmitt með þeim hætti að það þurfti á stundum ekki nema einn sérfræðing til, einn lækni til, að heil deild yrði stofnuð um viðkomandi einstakling. Það er akkúrat þetta, þessa tilviljanakenndu þróun mála, sem verið er að stöðva og hefur tekist áþreifanlegur árangur í þeim efnum. Þannig að ég hygg að efnislega séum við sammála um þá stefnumörkun sem lögð hefur verið og þá vinnu sem unnin hefur verið og í gangi er. En við erum hins vegar líka jafnsammála um það að þessari tilviljanakenndu þróun mála hér á stóru spítölunum í Reykjavík eins og
hún þróaðist í gegnum áranna rás verður að linna. Og senn munum við sjá að það náist um það tiltölulega góð sátt, almenn sátt, hér á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík einmitt um þessa verkaskiptingu, að hún verði fest í sessi varanlega og að menn geti gengið að því sem vísu hvernig skipulag þessara mála verði háttað.