Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:27:46 (2169)


[18:27]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er satt að segja heldur raunalegt að vera viðstaddur þá umræðu sem hér fer fram og kannski skiljanlegt að hv. þm. stjórnarflokkanna hafi á þessu máli lítinn áhuga, þó að svo sé nú almennt álitið að árangur í stjórnmálum mælist í því hvernig fer um fólkið í landinu. Hér hefur hins vegar verið talað í allan dag um halla upp á svo og svo marga milljarða án þess að nokkur geri minnstu tilraun til að skilgreina í hverju þessi halli er fólginn. Og það er illt í ári ef stjórnmálamenn eru búnir að gleyma því til hvers þeir eru að forvalta þessa peninga.
    Ég ætla ekki að endurtaka það sem ýmsir ágætir hv. þm. hafa sagt hér í dag og leyfi mér að vitna m.a. í ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. og hv. 2. þm. Austurl., þar sem við eigum öll sæti í hv. fjárln. En ég ætla þó aðeins, vegna þess að hæstv. heilbrrh. er hér staddur, að benda honum á nokkrar staðreyndir sem mér sýnast blasa við.
    Þegar verið er að umbylta grónu kerfi eins og heilbrigðiskerfinu í landinu og ekki síst hér í höfuðborginni, þá hljóta að verða að liggja þar að baki umfangsmiklar rannsóknir og samvinna við alla þá sem að þeim málum vinna. Það hefur um langt skeið verið í okkar þjóðfélagi sátt um heilbrigðiskerfið. Við höfum verið stolt af því, hreykin af því að eiga hér heilbrigðiskerfi sem hefur á að skipa ágætustu læknum og hjúkrunarliði og öllum þeim sem að þeim málum þurfa að starfa. Þess vegna blasir það ekki við að einmitt þar skyldi þurfa að ráðast til atlögu. Þvert ofan í álit nefndar sem beðin var að líta ofan í þessi mál voru ákvarðanir teknar sem nú sýna sig auðvitað að hafa verið alrangar. Og svo er komið að jafnvel þeir sem ákafast vörðu þessar aðgerðir innan heilbrigðiskerfisins eru hættir því, eins og við komumst að raun um í fjárln. Alþingis í morgun, þar sem einróma var lýst yfir frá öllum þremur sjúkrahúsunum í Reykjavík að það æðiskast sem menn fengu þegar þessi hæstv. ríkisstjórn tók við, hefði svo sem engan árangur borið.
    Okkur var tjáð að þarna væri um að ræða, og það var einhvern tíma fyrr á árinu, a.m.k. 500 millj. kr. sparnað. Hvernig lítur svo dæmið út? Framúrakstur Borgarspítalans á þessu ári verður ekki undir 116 millj. Það er ekkert á fjáraukalögum til að bæta þeim það upp. Landakot þarfnast 100 millj. og fær þær. Ríkisspítalarnir þarfnast 103 millj. og 30 millj. betur sem stendur til að bæta þeim vegna Þvottahúss Ríkisspítalanna, sem átti að selja en ekki var selt. Að vísu þyrftu þeir að fá 60 millj. en þeir fá 30. Nú eru þetta bara tölur. Þetta eru liðlega 300 millj., 350 millj. Þannig að af hinum frægu 500 millj. eru nú farnar 350.
    En það er auðvitað farið miklu meira, vegna þess að þjónustan hefur versnað og það er alvara málsins. Svo er nú komið og hef ég þar fyrir mér hjúkrunarforstjóra eins sjúkrahússins, og raunar hafa fleiri tekið undir það, að það starfsfólk orðar það þannig að því finnist skelfilegt, og það orð var notað, hvernig fólk er sent heim eftir aðgerðir löngu áður en það er fært um það. Síðan koma menn og segja einmitt á þessu tungumáli sem enginn á að skilja: Sértekjur sjúkrahúsanna hafa minnkað. Mig langar að spyrja þá sem á mig hlýða: Vita allir hvaða sértekjur þetta eru? Jú, þetta er það sem fólk þarf að greiða sjálft fyrir þjónustu. Og af hverju skyldu þær nú hafa minnkað? Það er vegna þess að um leið og ráðist inn í stærstu sjúkrahús landsins, þá var jafnframt dregið úr þátttöku ríkisins í greiðslum á göngudeildum og svo er nú komið að fólk veigrar sér við að leita bóta á meinum sínum vegna þess að það hefur ekki efni á því.
    Hæstv. forseti. Er þetta það sem Alþingi ákvað að skyldi gert? Vildum við stórminnka heilbrigðisþjónustuna? Ég er sannfærð um að þó að hv. þm. væru nú hér, sem þeir eru ekki, og ég bæði þá um að rétta upp höndina sem hefðu viljað gera þetta, ekki ein einasta manneskja mundi voga sér það. ( Gripið fram í: Gera hvað?) Að rétta upp höndina til samþykkis um að það hafi verið vilji Alþingis að draga úr heilbrigðisþjónustu. Það held ég að hafi ekki verið vilji nokkurs manns, ekki nokkurs manns. Það er nefnilega stundum þannig að þegar menn sem þekkja lítið til hluta fara að ráðskast með þá, þá verður úr því eintóm vitleysa. Auðvitað endar þetta ekki nema á einn veg: Að menn ná áttum og sjá að þetta gengur ekki.
    Hv. 2. þm. Austurl. benti hér í ræðu í gær eða í fyrradag á bréf sem okkur hefur borist frá landlæknisembættinu um svokallaðar smáaðgerðir sem greiddar eru af Tryggingastofnun ríkisins, fyrri hluta þriggja síðustu ára. Og hvað kemur í ljós? Hér er um að ræða smáaðgerðir eins og aðgerðir við kviðsliti og ég fer ekki að telja það upp hér. En á listanum er einn hættulegur sjúkdómur sem heitir ,,æxli fjarlægt úr brjósti``, enda er það eina aðgerðartegundin sem hefur aðeins aukist eða um 9%. Hinar aðgerðirnar hafa dregist saman um 23%, 10%, 19%, 28% og aðgerðir við algengum beinkvilla á fæti hafa dregist saman um 69%. Og af hverju skyldi þetta vera? Vegna þess að það kostar á milli 15 og 20 þús. kr. að fá þetta gert. Og þegar hv. 2. þm. Austurl. benti á þetta hér, hverju svaraði hæstv. heilbrrh.? Skýringin gæti alveg eins verið sú að það hefði verið gert allt of mikið af þessu.
    Ég býst við að það sé fullkomlega viðeigandi að nefna sjúkdóma, hæstv. forseti, hér úr ræðustól, sjúkdóma sem ærið margir landsmenn þurfa einhvern tíma á ævinni að glíma við, svo sem æðahnútaaðgerðir. Hefur Alþingi einhvern tíma ákveðið að fólk skuli bara sitja uppi með þann skafanka, þannig að þær aðgerðir hafa dregist saman um 23%? Ég held ekki. Og ég stórefast um að hæstv. heilbrrh. telji það nú æskilegt að fólk gangi með slíka kvilla, því ef þeir fá að þrífast nógu lengi og vel gæti svo farið að þeir yrðu ekki hættulausir þegar öllu er á botninn hvolft. Og þetta er auvitað mergurinn málsins. Hjúkrunarfólk er áhyggjufullt yfir því að þurfa að senda heim fárveikt fólk, oft fólk sem býr eitt og nýtur ekki aðhlynningar aðstandenda, löngu áður en hér á árum áður hefði verið talið sæmandi að slíkt fólk nyti ekki hjúkrunar. Og það sorglega er að þetta er dæmi um ákvarðanatöku sem er röng. Hún er ekki bara röng. Hún er röng af því að þeir sem taka hana eiga ekki að taka hana. Ekkert okkar hér inni er færara um að hagræða í heilbrigðiskerfinu heldur en það fólk sem í því starfar. Auðvitað eru allir tilbúnir til að leggja sitt af mörkum á erfiðum tímum --- og ég held að tímar nú séu ekki miklu erfiðari en þeir hafa verið síðan ég man eftir mér --- við búum í litlu samfélagi sem verður auðvitað að halda vel utan um það sem það þénar, en hvers vegna er það fólk sem best þekkir til ekki beðið um að leggja til og kanna hvar er e.t.v. hægt að draga úr kostnaði?
    Hvernig er þetta svo gert? Jú. Öldrunarálma á Borgarspítalanum sem var hönnuð sem slík, á að verða barnadeild. Hvert á gamla fólkið að fara? Það á að fara á barnadeildina sem var hönnuð sem slík á St. Jósefsspítala. Þetta hljómar fyrir mér, og ég vona, hæstv. forseti, að ég megi segja það, eins og vitlaust fólk sé að verki. Það er ekki hægt að nefna þetta neitt annað.
    Ég ætla ekki að halda því fram að hér sé á ferðinni illska í garð þjóðarinnar, illur vilji. Ég held að þetta sé kjánaskapur, vanþekking og hroðvirknisleg vinnubrögð. Og það er alveg skelfilegt ef það bitnar á viðkvæmasta þætti samfélagsþjónustunnar, samfélagsþjónustu sem oft varðar líf eða dauða. Menn eru auðvitað löngu búnir að sjá í heilbrigðiskerfinu að þetta gengur ekki. Landakotsspítalinn hefur tapað mestum sértekjum. Og ég er alveg sannfærð um að hæstv. ráðherra veit ekki af hverju það er, en ég skal segja honum það. Það er nefnilega þannig að Landakotsspítali hafði umtalsverðar tekjur af röntgenrannsóknum. Þegar allt fór í upplausn og allt átti að einkavæða og sumir ágætir læknar féllu í þá gryfju að það væri lausnin á heilbrigðisþjónustunni, til að spara, þá fluttu þeir sig út úr spítalanum og stofnuðu fyrirtæki um röntgenrannsóknir og nú fara þær þangað. En Landakotsspítali hefur tapað, mig minnir að þeir segðu, um

59 millj. í sértekjur, fyrir utan allar sértekjurnar sem hann missir af vegna þess vesalings fólks sem á ekki peninga til þess að láta rannsaka sig. Og ef menn vita ekki hvað er verið að ræða um, þá vil ég segja það, svo fólk skilji þetta. Ristilrannsókn er algeng rannsókn sem margt fólk á miðjum aldri þarf að fara í. Vita hv. þm. hvað slíkt kostar venjulegan borgara núna, sem menn fengu svo til ókeypis áður? Það kostar 17 þús. kr. Fyrir manneskju sem hefur kannski 60 þús. kr., eins og t.d. margar konur hafa í laun og jafnvel karlmenn, þá er þetta orðinn 1 / 3 af mánaðarlaunum. Í hvaða veruleika lifa menn? Hvernig má þetta ganga svona? Auðvitað getur þetta ekki gengið svona. Það er ekki hægt að bjóða upp á það í siðuðu þjóðfélagi að algeng rannsókn, sem í mörgum tilfellum getur verið lífsnauðsynleg, vegna þess að þó að oft, sem betur fer, komi í ljós að engin hætta sé á ferðum og um smávægilega kvilla sé að ræða, kemur það svo sannarlega fyrir að í ljós kemur lífshættulegur sjúkdómur sé fólki svo dýr. Og er það virkilega vilji hæstv. heilbrrh. að menn eigi það undir efnahag hvort lífi manna sé bjargað með því að sjúkdómar uppgötvist á réttum tíma? Þetta siðleysi má ekki ganga svona. Þetta bara getur ekki gengið og ég held að menn séu óðum að sjá þetta.
    Það var satt að segja heldur dapurleg stemmning í hv. fjárln. Alþingis í morgun þegar forustumenn spítalanna í Reykjavík voru spurðir um árangur af sparnaðarbrölti hæstv. ríkisstjórnar. Það er nefnilega þannig að það verður að vera vit í hlutunum. Það er hægt að spara, mikil lifandis ósköp. Það er hægt að spara ýmislegt í þessu samfélagi. En í guðanna bænum, við skulum ekki fara mörg ár, jafnvel áratugi aftur á bak í heilbrigðisþjónustu sem hefur verið góð. Og eins og framkvæmdastjóri Ríkisspítalanna benti raunar á í morgun, mun hinn margumræddi og langþráði EES-samningur setja nýjar skyldur á herðar heilbrigðiskerfisins, vegna þess að nú verða menn einfaldlega að ná til staðla EES og Evrópubandalagsins. Menn kvíða því að þurfa að sýna hér sjúkrahús sem eru langt undir því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar og í löndum Evrópubandalagsins. Þetta eru mál sem er alveg óhjákvæmilegt að skoða og ég vildi nú ráðleggja hæstv. heilbrrh. að hlusta ekki á aðra hæstv. ráðherra í þessu efni og efna til málþings um þessi mál í alvöru, því þetta er að komast í mjög alvarleg þrot og þetta á einungis eftir að versna. Það er alveg nákvæmlega sama við hvern menn ræða í heilbrigðiskerfinu, menn hrista höfuðið og segja: Við vitum ekki hvernig þetta endar. Við erum komnir með samfélag þar sem fólk hefur ekki efni á að líta eftir heilsu sinni.
    Ég kom í apótek í fyrradag og ræddi þar við afgreiðslustúlku í heimabæ hæstv. heilbrrh. Hún sagði mér: Við getum ekkert annað gert en að skrifa hjá fólki. Við látum ekki, við gerum það a.m.k. ekki, fólk fara hér bónleitt til búðar vegna þess að það á ekki fyrir lyfjunum sínum. Það verður þá að hafa það þó að við fáum það ekki greitt. Þetta var eitt apótek. Ég veit ekki hvernig aðrir lyfsalar líta á þetta mál. En það var greinilegt og kom fram, að í æ meira mæli á fólk ekki fyrir lyfjunum sínum. Ég trúi því ekki eitt andartak að hæstv. heilbrrh. hafi yfirgefið minn fallega fæðingarbæ eftir farsæla --- já, þó það sé nú kannski umdeilt --- forustu í sex ár, til þess að leggja niður heilbrigðiskerfið og allt öryggi sjúklinga í landinu. Ég trúi því ekki augnablik. Ég bið því í mestu vinsemd um að þessi mál verði skoðuð, vegna þess að af 500 millj. kr. sparnaðinum --- og bið ég nú hv. formann fjárl. að vera ekki að trufla ráðherrann --- en hann getur verið vitni að því að af þessum 500 spöruðu millj. er nú verið að biðja um 350 til baka. Og það er leikur einn að finna afganginn. Þannig að allt er þetta brölt sem hefur ekkert haft upp á sig annað en að draga úr heilbrigðisþjónustu í landinu. Og það er sorglegt að heyra ábyrgan starfsmann sjúkrahúsanna í Reykjavík segja að því miður séu dæmi um slys vegna lélegrar þjónustu, dæmi um slys, og fór ekki á milli mála að konan var að segja: Menn hafa látist af þessum sökum. Þetta eru voðalegir hlutir að segja, en ég sel þá ekki dýrari en ég keypti. En eitt veit ég, þetta er ekki það heilbrigðiskerfi sem við alþýðubandalagsmenn viljum sjá og mætti nú vera kominn byltingamaðurinn í heilbrigðiskerfinu, hæstv. fyrrv. ráðherra Magnús Kjartansson, og taka þessa ungu drengi í bakaríið sem virðast ekki vita hvað er að gerast í landinu.
    Almennt um fjáraukalögin eru þau auðvitað eins og fjárlögin sem draumóramenn halda að verði rædd við 2. umr. á þriðjudaginn, þó að ekki sé einu sinni kominn fram bandormur sem á að gjörbreyta þeim. Það sýnir náttúrlega veruleikafirrð þessara hv. þm. að á sama tíma og við lesum í blöðunum að það standi til að fara að svipta stóran hóp fólks atvinnuleysisbótum, þá halda þeir að það sé hægt að keyra hér út fjárlög á þriðjudaginn kemur. Ég get alveg fullyrt að það er útilokað. En gallinn við að standa frammi fyrir þessum málum er sá að við fáum ekki að vinna þau af viti. Allir í hv. fjárln., eins og í öllum fjárlaganefndum allra þjóðþinga, eru viljugir og tilbúnir til að vinna saman að því að setja landinu fjárlög, auðvitað. Það er skylda okkar og við eigum meira að segja ekki að vera eins harðflokkspólitísk í fjárln. og við erum annars staðar. Þó að við leggjum auðvitað misjafnar áherslur, þá berum við sameiginlega ábyrgð á því að landið eignist fjárlög, annars er ekki hægt að reka það.
    En hvernig er þessi vinna svo unnin? Eitthvert heilagt batterí sem heitir meiri hlutinn þingar og þingar og verður heldur geðvondur ef minni hlutinn, óæðri hluti fjárln., vogar sér að reyna að ræða málin. Og þessi vinnubrögð gera ekkert annað en að hefna sín á hæstv. ríkisstjórn, því auðvitað væri það styrkur hennar að fjárlagagerðin gengi létt og vel. Við gerum okkur grein fyrir að á endanum ræður meiri hluti hverju sinni. En við gætum heilmikið hjálpað til og eru fyllilega fús til þess. En af þröngsýni, smásmygli og þekkingarleysi er þessi vinna afþökkuð. Hún er einfaldlega afþökkuð.
    Ég varð samferða einum hv. fjárlaganefndarmanni út til þings í morgun eftir fundinn okkar og spurði hann hvort hann tryði því virkilega að við gætum látið 2. umr. fara fram á þriðjudaginn. Hann hélt

nú það, það væri verið að hnýta þetta saman. Og þar sem erindaskráin hefur ekki enn þá verið borin undir minni hlutann, þá spurði ég: Hvenær á að gera það? Honum fannst það ekki skipta miklu máli. Við ráðum þessu. Hvernig halda menn að fjárlagagerð geti farið fram með þessu móti? Það er svo gjörsamlega útilokað og sorglegt fyrst og fremst, vegna þess að þetta sýnir auðvitað svo hroðalega vankunnáttu og vanþekkingu. Það er nefnilega enginn að huga að þörfum þjóðfélagsins.
    Ég gæti svo sem talað hér í allt kvöld þess vegna, hv. þm. til yndis og ánægju. Gallinn er bara sá að ég er að tala við þá menn sem skilja þetta og vita þetta og eru sammála mér. Ég mundi kannski tala lengur yfir hausamótunum á þeim sem ekki eru hér, en það er nefnilega vitað, hvers vegna þeir eru ekki hér, vegna þess að það þarf að flýta umræðunni.
    Við getum eins farið yfir í skólakerfið. Við megum lúta því að yfir okkur er hellt alþjóðlegri skýrslu um læsi. Þessi þjóð sem hefur verið að montrassast af menningu sinni um árabil og árhundruð, bókmenntaþjóðin, það kemur í ljós að hún er verr læs en flestar þjóðir í Evrópu. Hvernig er brugðist við því? Jú, jú, það eru sett fleiri og fleiri börn í hendur færri og færri kennara. Laun kennara eru með því móti að það er öllu venjulegu fólki óskiljanlegt hvaða guðlegar hugsjónir valda því að þeir stunda barnakennslu því svo langt er frá að þeir séu matvinnungar af því starfi. Atgervisflótti blasir við úr háskólanum því að launakjörin eru söm við sig þar. Það er alveg sama hvert litið er, sérkennsla er dregin saman þó að æ fleiri börn þarfnist sérkennslu af því að æ færri foreldrar hafa tíma til að sinna börnunum sínum. Hefur enginn áhyggjur af þessu? Er þetta sú framtíð sem við sjáum? Heilsulaust, illa menntað fólk? Og þetta er fólkið sem hæstv. menntmrh. segir svo að eigi að ganga inn í nýja öld með megináherslu á vísindi og rannsóknir. Ég held að þetta sé ekki góður grunnur undir það sem stefna þessarar hæstv. ríkisstjórnar boðar.
    Það væri freistandi að ræða ofurlítið um sjávarútveginn okkar. Það virðist vera nákvæmlega sama hvað veiðist, það er aldrei nokkur peningur til. Það tapa allir á útgerð. Þetta þykir okkur kyndugt, hæstv. heilbrrh. og mér sem ólumst upp í útgerðarbænum Hafnarfirði. Þar nefnilega græddu menn svo mikið að þeir eru enn að rífast um hvort þeir eigi að fá 16 millj. eða 116 millj. fyrir reitinn sem ég breiddi saltfiskinn á í gamla daga. Þeir áttu hann nefnilega, þeir eiga hraunið. Þeir voru svo ríkir að þeir áttu hraunið undir fótunum á okkur. Ég vissi það ekki þá. Ég hefði kannski ekki leyft mér að tína upp eitt og eitt ber eða stela ofurlitlum mosa í búið mitt, en ég gerði það nú víst. Nú kemur í ljós að hv. fyrrv. 1. þm. Reykn. og afkomendur hans á þingi og í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eru ólmir að fá 100 millj. kr. meira fyrir reitinn sem við breiddum saltfiskinn á þegar vimplað var í gamla daga. Menn áttu sko fyrir hinu og þessu af því að veiða fisk í gamla daga. Og ég er ekki 100 ára.
    Sannleikurinn er sá að það er alveg sama ástandið í sjávarútveginum, það er ekkert vit í neinu. Menn hugsa ekki um neitt annað en að græða og af því að þeir héldu í áratugi að það eina sem hægt væri að græða á væri steinsteypa þá steyptu þeir og steyptu án þess að hafa hugmynd um hvað þeir ætluðu að gera við allan þennan húsakost. Það má gefa þessum gömlu kapítalistum eins og Einari Þorgilssyni og Einari Guðfinnssyni að þeir höfðu svolítið peningavit. Þeir lögðu bara fyrir og urðu ríkir af, þangað til vargurinn komst í véin og allt fór í hundana.
    Ég held, hæstv. forseti, að það verði að grípa til einhverra ráða. Ég veit ekki hvaða ráða á að grípa til. Ég gæti lagt til að okkur konum á Alþingi yrði falið að stofna ríkisstjórn og reyna að bjarga þessu því það er hægt. Við höfum rekið heimili, við vitum hver er munurinn á tekjum og gjöldum. Og við vitum líka hvað kemur fólki best vegna þess að það erum við sem höfum hugsað um þetta fólk. Börnin okkar, sjúklingana okkar. Við þurfum ekkert að láta segja okkur það frá Þjóðhagsstofu hvað sé hagræðing í kerfinu. Við vitum það eitt að við viljum láta lækna fólk, við viljum ala börnin okkar upp sem hrausta og heilbrigða og vel menntaða einstaklinga. Við þurfum engar tölur ofan úr ráðuneytum til að segja okkur það. Við viljum nefnilega gera það, hæstv. heilbrrh. --- sem hér er eini maðurinn sem virðist hafa þrek til þess að sitja á þingfundum að einhverju ráði --- við viljum nefnilega gera þetta hvað sem það kostar. En við erum tilbúin til þess að gera það svo skynsamlega að það verði viðráðanlegt. En við vitum að þetta skiptir öllu máli. Það er nefnilega engin hagsæld til og enginn hagvöxtur nema þjóðin sé fær um að forvalta þann hagvöxt og að við eigum heilbrigða einstaklinga, vel menntað fólk, hugsandi fólk sem skilur og hefur eitthvert gildismat til þess að miða líf sitt við. Tölur á blaði eru einskis virði, alveg nákvæmlega eins og kapítal er einskis virði nema því fylgi fólkið sem notar það.
    Það skelfilegasta sem getur komið fyrir nokkra þjóð er að tína sjálfri sér og væri kannski veglegt að minnast þess í tilefni dagsins í gær. Það tekur nefnilega ekkert óskaplegan langan tíma að missa sjálfsvitund sína og þar með sjálfsvitund þjóðarinnar. Og þegar svo er er komið getur ekkert kapítal, ekkert fjármagn bjargað henni, vegna þess að fjármagn hefur enga sjálfsvitund. Það getur hins vegar verið harla gagnlegt ef það er notað á skynsamlegan hátt. Það á að vera verkefni hv. fjárln., ekki bara meiri hlutans því það er vonlaust, heldur allrar nefndarinnar. Ég vona, herra forseti, að hv. formaður fjárln. taki upp betri siðu og þiggi það góða boð minni hluta fjárln. að vinna með honum að því að lagfæra það sem búið er að eyðileggja eða menn eru á góðri leið með að eyðileggja í þessu samfélagi áður en verra hlýst af.