Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 21:14:49 (2183)


[21:14]
     Guðrún Helgadóttir (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Þessi umræða er að taka undarlega stefnu. Hér rétt fyrir kvöldverðarhlé beindi ég fjölmörgum spurningum til hæstv. heilbrrh. Ég hélt því fram að það væru að gerast óhöpp á sjúkrahúsunum vegna niðurskurðar á fjármagni til þjónustu. Borgarspítalinn hefur beðið um 116 millj. á þessu ári vegna þess sem þeir hafa farið fram úr fjárlögum. Í kvöldfréttum í kvöld staðfesti landlæknir þessar ásakanir mínar að þess væru dæmi að slys yrðu á sjúkrahúsunum vegna skorts á fjármagni og síðan leyfir hæstv. heilbrrh. sér, sem talaði út í hött um þessi mál, að vera fjarverandi þegar dregur að lokum þessarar umræðu. Ég vil fá svör frá honum hvort það standi til að Borgarspítalinn fái það fé sem hann vantar til að geta haldið uppi sæmilegri þjónustu. Ég á allan rétt á því svo og allur þingheimur að heyra hvað menn eru að hugsa þar á bæ og ég vil biðja hæstv. forseta að skerast í leikinn og kalla hæstv. heilbrrh. til þannig að þessari umræðu geti lokið. Við erum ekkert að leika okkur. Það er ástæða fyrir því að við stöndum hér klukkan hálftíu að kvöldi. Við erum að bíða eftir að fá niðurstöðu og svör við því sem við höfum verið að ræða í dag.