Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 21:46:08 (2192)


[21:46]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegur forseti. Til mín var beint fyrirspurn fyrr í dag af hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, sem er raunar ekki í salnum í andartakinu, en í trausti þess að hún heyri mál mitt þá vil ég taka á nokkrum þeim atriðum sem hún nefndi. Hún ræddi það og vísaði til orða landlæknis, Ólafs Ólafssonar, í þeim efnum að svo mætti ætla að sökum þess að ákveðnar hagræðingaraðgerðir, ákveðnar sparnaðaraðgerðir, ákveðin uppstokkun í heilbrigðiskerfi sjúkrahúsa í Reykjavík hefði leitt til þess að slysum við lækningu sjúkra hefði fjölgað og leiða mætti getum að því og renna mætti stoðum undir það að það mætti rekja beinlínis til þessara aðgerða. Ég ætla mér það ekki að reyna að finna orðum landlæknis stað í þessum efnum. Ég vil hins vegar segja það eitt að það er þannig því miður þegar mannanna verk eru annars vegar og ekki síst í þessum viðkvæma málaflokki, að það hefur verið þannig og verður því miður þannig um ókomna tíð að mistök af mannanna völdum verða á sjúkrahúsum. En það að leiða og gera beint orsakasamhengi milli þeirra skynsamlegu aðgerða sem gripið hefur verið til varðandi verkaskiptamál, varðandi þær umræður og aðgerðir sem gripið hefur verið til um ýmsa hagræðingu, ég tel það af og frá og segi það eitt að sá sem þetta fullyrðir verður að finna þeim orðum stað og tíunda það í dæmum.
    Annars vil ég segja það um þá umræðu sem hér hefur verið í dag og að vissu marki hefur lotið að heilbrigðismálum og að sönnu þeim tillögum hér í frv. til fjáraukalaga sem lúta að því ráðuneyti að það má segja í stuttu máli að flest allt það sem fyrri hv. þm. hafa drepið á í dag megi draga saman í einu málefni og það eru verkaskiptamál sjúkrahúsa í Reykjavík. Að sönnu er það auðvitað stórt mál. Það er ekki síst stórt mál vegna þess, eins og ég hygg að hv. þm. sem sitja einnig í hv. fjárln., heyrðu af vörum forsvarsmanna sjúkrahúsanna í Reykjavík í morgun sem margir ræðumenn vitnuðu til, þeir finna fyrir því í auknum mæli sem hin umdeilda sjúkrahúsaskýrsla um sjúkrahús í Reykjavík og á landinu öllu sagði til um, að í stríðum straumum kemur fólk hingað til Reykjavíkur fram hjá sínum heimasjúkrahúsum að sækja sér lækningu sem í sumum tilfellum og allt of mörgum er hægt að finna heima í héraði. Þetta er ein skýringin.
    Jafnframt var þess látið getið á þessum umrædda fjárlaganefndarfundi í morgun og sumir höfðu það eftir ónefndum forsvarsmönnum sjúkrahúsa í Reykjavík að þeir bæðu um frið. Aðrir ræðumenn höfðu hins vegar á því orð að nú væri þannig komið að forsvarsmenn þessara spítala vildu fá umbun erfiðisins og vildu að þeir nytu þess árangurs sem þeir höfðu sýnt í hagræðingu og sparnaði. Svo kom þriðji flokkur ræðumanna og ræddi um að það væri alls enginn sparnaður. Allt þetta fimbulfamb væri ekki til neins, leiddi aðeins til aukins kostnaðar. Þannig að mér gengur satt að segja ákaflega erfiðlega að samsafna þessar þrjár gagnrýnisraddir sem hér hafa hljómað af vörum stjórnarandstæðinga í dag og vil því segja almennt um þetta mál að ég hygg að nú sé svo komið að allir séu um það sammála í þessum þremur spítölum og alls staðar þar sem menn þekkja til og koma nærri að þau skref, sem stigin hafa verið m.a. með því að fækka bráðaþjónustu á spítölum hér í Reykjavík úr þremur í tvo, hafi verið skynsamleg skref. Ég ætla mér ekki að fara í tölfræði og deilur um krónur og aura til eða frá en gæti það svo sannarlega. En ég hygg að hver maður sjái þetta. Er einhver vitglóra í að halda úti því sem næst í sumum tilfellum jafngildri þjónustu á þremur sjúkrahúsum á svæði sem telur 150.000 manns og byggja upp samsvarandi þjónustu á öllum þessum stöðum? Ég held að það svari því enginn játandi. Ekki forsvarsmenn þessara spítala og ekki nokkur maður sem nærri kemur. Þess vegna hafa menn tekið skref þótt í smáum stíl sé og eru að ræða næstu skref í þessa veru, spyrja sig gagnrýnna spurninga á borð við þær, eins og raunar hv. þm. Finnur Ingólfsson kom hér inn á, fyrrv. aðstoðarmaður fyrrv. heilbrrh. hér á árum áður, hvort einhver vildi til að mynda sjá háls-, nef- og eyrnadeildir á öllum þremur spítölunum? Hvort einhver vildi sjá glasafrjóvgunardeildir á öllum þremur spítölunum? Hvort einhver vildi sjá geislalækningadeildir á öllum þremur spítölunum? Nei, ég hygg að allir svari þessu neitandi. Og einmitt í því ljósi hafa verið í gangi mjög ítarlegar og ígrundaðar viðræður og umræður undir forsæti heilbrrn. með forsvarsmönnum þessara spítala þar sem þess hefur verið freistað að ná um það nokkuð skynsamlegri niðurstöðu hvernig þessari verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna yrði best háttað.
    Það er auðvitað ekkert launungarmál að menn eru ekki sammála um meginstef í því sambandi. Það þarf ekki að fara aftar í tíma en tæp tvö ár til að rifja það upp að forsvarsmenn Ríkisspítalanna hafa sagt og segja enn, og vísa til skýrslu Ernst & Young í því sambandi, ef ég man nafn þessarar útlendu endurskoðunar- og sérfræðiskrifstofu rétt, að hjá dvergríki á borð við okkur Íslendinga væri ekki vit í öðru en því að eitt hátæknisjúkrahús, eitt háskólasjúkrahús yrði til staðar hér í Reykjavík. Á hinn bóginn hefur því verið haldið fram, einkanlega af hálfu forsvarsmanna Borgarspítala, að það væri brýn nauðsyn á því að það yrði eitthvert val í mörgum tilfellum. Það yrði að vera hægt að bera saman fjárhagslega og faglega tvær tiltölulega sjálfstæðar stofnanir og því ætti að halda áfram úti tveimur tiltölulega jafnsterkum spítölum á borð við Borgarspítala og Landspítala og grundvalla framtíðina á þeim veruleika. Enginn, hygg ég --- ég hef a.m.k. ekki heyrt þann mann síðan ég settist í þetta ráðuneyti né áður en ég gerði það --- heldur því fram lengur að það þurfi að vera þríliðað í þessu. Að það þurfi að halda úti þremur jafngildum stofnunum, Borgarspítala, Ríkisspítölum og Landakoti. Það er ekki lengur til staðar. Nú vilja menn hins vegar reyna að ná um það samkomulagi hvaða verkefni, sértæk verkefni, verði á hverri stofnun fyrir sig --- sums staðar verði þau á báðum stofnununum, í sumum tilfellum aðeins á einni --- og reyna að ná um þetta nokkuð víðtækri samstöðu, að við komum á tiltölulega góðri, skýrri og skilvirkri verkaskiptingu því það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Finni Ingólfssyni að þróun mála fram undir þetta, og ég hygg að forveri minni hv. þm. Guðmundur Bjarnason geti tekið undir það, þróunin hefur kannski í allt of ríkum mæli verið sú að deildir hafa til orðið og ,,fæðst`` fyrir þann einn tilverknað að hæfur læknir hefur ráðist til einhvers þriggja spítalanna, safnað um sig traustu liði sérfræðinga, hjúkrunarfræðinga og annarra, og úr hefur orðið heil deild. Ég held að þannig getum við ekki staðið að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, hvorki í heild né í einstökum atriðum og því sé það mjög mikilvæg vinna sem menn hafa verið að sinna, og menn sjá kannski fyrir endann á fyrr en síðar, að koma nokkrum skikk á þetta.
    Í þessu sambandi get ég ekki hlaupið fram hjá þeirri lykilspurningu sem e.t.v. er næst í tíma og menn hafa kannski hvað ólíkust viðhorf til og það er hvernig skipa skuli þjónustu við sjúk börn á spítölum í Reykjavík. Það liggur í hlutarins eðli, og af því að hv. þm. Guðrún Helgadóttir kom inn á það að henni þætti þessi vistaskipti ærið kúnstug, þá hygg ég að það sé nauðsynlegt að líta til þeirrar staðreyndar sem er lykilatriði þessa máls, því allt þetta fimbulfamb og allar þessar vangaveltur byggja á því markmiði einu að gera vel við þau börn sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Staðreyndin er sú að á Landakoti þarfnast sú deild sem þar er annaðhvort umtalsverðra betrumbóta og lagfæringa ellegar flutnings því að viðhorf til þessara mála hafa gjörbreyst á ekkert allt of löngum tíma. Nú er það ekki lengur litið óhýru auga heldur þvert á móti talið nánast nauðsynlegt að foreldri, annað eða bæði, séu með barni sínu á meðan það liggur sína sjúkrahúsdvöl. Það er hins vegar ekkert ráð fyrir því gert á þeim barnadeildum sem eru að sönnu að sumu leyti barn síns tíma hvað aðstöðu varðar. Og foreldrar sem hafa fylgt börnum sínum í sjúkrahúslegu hafa búið við mjög þröngan kost, þurft að sofa þar í stólum eða á göngum og þar er auðvitað þörf á að taka á. Ég hygg að við eigum að nýta það lag sem nú er varðandi þær breytingar sem í aðsigi eru til þess einmitt að leggja megináhersluna á það að við notum tækifærið og gerum betur við þau börn sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Látum kannski koma í annað sætið þessar stóru spurningar sem við þurfum að svara, hvar þetta allt eigi að byggjast upp, hversu mörg pláss, ef um fleiri en einn stað er að ræða, skuli vera hérna megin eða hinum, skal þetta allt vera á einum stað, heldur hitt sem er auðvitað lykilatriði og ég hygg að ágætur sveitungi minn, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, sé mér sammála um að við notum ferðina til þess að gera betur við þau börn sem í neyð þurfa að leggjast inn á sjúkrahús.
    Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort það er ástæða til að orðlengja þetta frekar á þessu stigi máls, ég vil þó aðeins segja það eitt til þess að halda því til haga í þessari umræðu að vangaveltur fyrri hv. ræðumanna um að meintur sparnaður af þessum tilfærslum meðal sjúkrahúsa í Reykjavík, meintur áformaður sparnaður í sjúkrahúsrekstri yfirleitt hefði með öllu misheppnast. Það er litið til talna í þessu frv. til fjáraukalaga. Menn verða hins vegar að skoða þann efnislega bakgrunn sem þar er að finna. Í fyrsta lagi að horfa til þess að 100 millj. vegna Landakots stafa ekki af árinu í ár, þær stafa af erfiðum rekstri síðasta ár. Ég hygg að hv. þm. Guðmundur Bjarnason hafi einmitt hitt alveg á réttan punkt í sínum vangaveltum þegar hann rifjaði það upp að það er því miður ekkert ný saga að Landakot hafi átt í rekstrarerfiðleikum og staðið uppi í árslok með mikinn halla og það án þess að umdeild verkaskiptamál hafi verið svo mjög uppi á borðum, og það án þess að menn væru að fara fram með stórar kerfisbreytingar á því sjúkrahúsi. Ég skal fyrstur manna viðurkenna það, eins og hv. þm. Guðmundur Bjarnason nefndi, að árangri var náð

í þeim efnum, en það segir okkur það eitt að það er ekki nýtt undir sólinni að þetta ágæta sjúkrahús hafi lent í rekstrarörðugleikum áður. Ég hygg hins vegar að það sé fagnaðarefni öllum hv. þm. að mun betur hefur gengið á þessu ári og það standa vonir til þess að þetta sjúkrahús verði innan þess ramma sem fjárlög mörkuðu.
    Varðandi Ríkisspítalana eru þar ytri aðstæður sem ráða, ekki það að forsvarsmönnum sjúkrahússins hafi mistekist í rekstri þess. Þvert á móti held ég að með fullri sanngirni sé hægt að segja að forsvarsmenn Ríkisspítalanna hafi haldið allvel á spilum og hafi tekist að ná þeim árangri í sparnaði og hagræðingu sem að var stefnt og það fer auðvitað að sönnu eftir þeim ummælum sem þeir ku hafa látið falla í hv. fjárln. í morgun að þeir vildu frá umbun erfiðisins, vildu fá að njóta þess árangurs sem þeir höfðu áður náð. En helstu ástæður þessarar viðbótar sem hér er farið fram á liggja í kjarasamningi við hjúkrunarfræðinga og það var yfirlýst við gerð þeirra kjarasamninga að fjmrn. og heilbrrn. mundu freista þess að koma til móts við sjúkrahúsið varðandi þann útgjaldaauka sem þeim var samfara en jafnframt var það skilningur beggja að á komandi ári, fjárlagaárinu og árinu 1994, yrði það verkefni Ríkisspítalanna að leysa þennan útgjaldavanda innan síns ramma.
    Þá hafa menn staldrað við Þvottahús Ríkisspítalanna og er það út af fyrir sig ekki óeðlilegt. Í fyrsta lagi hefur því verið velt hér upp hvernig á því standi. Í annan stað að Ríkisspítölum sé eingöngu bættur skaðinn að hálfu en ekki að öllu leyti. Ég tel raunar að hv. formaður fjárln., hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson, hafi svarað því mjög skilmerkilega í sinni inngangsræðu í morgun. Staðreyndin er einfaldlega sú að um mitt árið lá það ljóst fyrir að um þessar tekjur yrði ekki að ræða og upplýsingar liggja fyrir um það að sjúkrahúsinu var gert viðvart um það. Ég skil það hins vegar ákaflega vel að forsvarsmenn sjúkrahússins séu ekkert allt of glaðir og kátir með það að þurfa að bera þennan skaða sjálfir og fannst satt að segja ákaflega skemmtilegt og listavel gert hjá hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni hvernig hann lagði út af því öllu saman og lagði líkum að því að nú væru Ríkisspítalarnir búnir að kaupa þetta hlutafélag, eða meinta hlutafélag sem ekki er orðið og kannski verður aldrei, einu sinni og jafnvel tvisvar og væri orðinn margfaldur eigandi að því. En svo því gríni sé sleppt þá er þetta skýringin á þessum 30 millj. sem þarna eru. (Gripið fram í.) Ég sagði: Verður aldrei, því það er ekkert launungarmál að heilbrrn. er núna fyrir 2. umr. fjárlaga að skoða þessa hluti mjög grannt því það er því keppikefli að það upplegg sem er í fjárlögum fyrir einstakar stofnanir í heilbrigðiskerfinu í heild sé grundvallað á hinu mögulega og vissulega horfum við til þeirra afdrifa sem frv. fékk á yfirstandandi ári og ég hygg að nánar geti ég um það fjallað við 2. umr. fjárlaga.