Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:08:26 (2195)


[22:08]

     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi fagna ég viðbrögðum af þeim toga sem hv. þm. sýndi varðandi sjúkrahússkýrsluna umræddu. Nú loksins heyri ég efnislega umræðu í þessa veru. Þetta er eitt af þeim atriðum sem eru til skoðunar, að auka verkefni sjúkrahúsa úti á landi þar sem tæki og tól eru til staðar og mannvirki og oft og tíðum mjög hæft og gott starfsfólk. Þetta er eitt af því sem við hljótum að skoða í kjölfar staðreynda sem birtast í þessari umdeildu sjúkrahússkýrslu.
    Í annan stað varðandi álag á starfsfólk heilbrigðisstofnana. Ég get auðvitað ekki neitt um það fullyrt frekar en landlæknir hvað rétt er í þessu sambandi. Ég sagði það áðan og segi það aftur að því miður er það þannig og sem betur fer er það þannig líka að læknayfirvöld hafa tekið mun vasklegar nú (Forseti hringir.) og myndarlegar á þeim athugasemdum réttum eða röngum sem frá sjúklingum hafa komið og kannski er það ein skýringin að þarna hefur orðið aukning á þó að ég geti ekki fullyrt um það frekar en neinn annar.