Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:22:22 (2208)

[22:22]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég verð líklega að biðjast afsökunar á því að vera svo framhleypin að ætlast til þess að hæstv. heilbrrh. sé hér í kvöld. A.m.k. lá við að ég fengi ákúrur fyrir slíka framhleypni. En ég vil að eitt sé alveg ljóst sem mér sýnist að sé að verða alvarlegur misskilningur hér á hinu háa Alþingi. Þegar þingskapalögum var breytt og mönnum var gefinn kostur á því að veita andsvör, þá var það tvímælalaust hugsað í þá veru að hv. þm. gæfist kostur á að veita andsvör, oftast við meiri háttar framsögum og gjarnan ræðum ráðherra. Það er mikill misskilningur að ráðherrar eigi að nýta sér andsvaraformið til að komast hjá því að halda ræður. Það var aldrei meiningin og ég vara, hæstv. forseti, við að ráðherrar fari að nýta sér leyfi til andsvara til þess að komast hjá því að halda ræður sem skýra stefnumótun þeirra. Það var hreint ekki hugmyndin að andsvör yrðu nýtt á þennan hátt. (Gripið fram í.) Þetta vil ég að sé alveg ljóst. Og þess vegna nægja mér ekki . . .
    ( Forseti (PJ) : Forseti vill taka fram að hæstv. ráðherrar hafa eins og aðrir hv. þm. leyfi til að nýta sér ákvæði þingskapa um andsvör og þeir hafa fullt vald á því að nota þann tíma eins og þeim þóknast til þess að svara ræðum hv. ræðumanna og þarf ekki frekari athugasemdir við það.)
    Hæstv. forseti. Því sagði ég þetta að rök fyrir því að óþarfi væri að ónáða hæstv. heilbrrh. voru í samtali við mig í kvöld þau að hann hefði setið hér í allan dag og verið mjög iðinn við að veita andsvör. Það nægir þingmönnum engan veginn og því vil ég ítreka þá aðvörun mína, hæstv. forseti, um leið og ég geri mér fullkomlega ljóst að vitaskuld mega ráðherrar sem og aðrir veita andsvör, að þau andsvör mega ekki koma í staðinn fyrir að svara spurningum sem komið hafa fram í ræðum manna daglangt eins og nú á sér stað. En ég skal ljúka þessari umræðu.

    Ég held að það sé mikil fífldirfska hæstv. heilbrrh. að tala af allnokkurri léttúð um álit landlæknis sem síðast í fréttum í kvöld varar við ofkeyrslu á starfsfólki sjúkrahúsa og heldur því fram í skýrslum að til óhappa hafi komið, og ég þori ekki að hugsa til enda hvers konar óhappa, vegna þess að svo mjög hafi verið hert að sjúkrahúsunum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðherra og hv. þingheimur rifji upp hvert sé hlutverk landlæknis. Í lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983, með síðari breytingum, segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í 3. gr.:
    ,,Landlæknir er ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt er varðar heilbrigðismál og annast framkvæmd tiltekinna málaflokka f.h. ráðherra samkvæmt lögum, reglum og venjum, er þar um gilda. Hann hefur eftirlit með starfi og starfsaðstöðu heilbrigðisstétta. Aðstoðarlandlæknir skal vera landlækni til aðstoðar og staðgengill hans.
    Landlæknir skipuleggur skýrslugerð heilbrigðisstarfsfólks og heilbrigðisstofnana og innheimtir þær. Ráðuneytið og landlæknir annast útgáfu heilbrigðisskýrslna.
    Forseti skipar landlækni. Hann skal vera sérmenntaður embættislæknir eða hafa jafngilda menntun til starfsins. Ráðherra skipar aðstoðarlandlækni og skal gera sömu kröfur um menntun hans og starfsreynslu og gert er til landlæknis.
    Ráðherra setur reglugerð um starf og stöðu landlæknis og embættis hans að höfðu samráði við samtök heilbrigðisstétta, læknadeild Háskóla Íslands og Læknafélag Íslands. Í reglugerðinni skal kveða á um faglegt eftirlit landlæknis með heilbrigðisstofnunum, lyfjanotkun, heilbrigðiseftirliti og sóttvarnarráðstöfunum og einnig um sérhæft starfslið til þess að sinna þeim verkefnum.
    Landlækni er skylt að sinna kvörtunum eða kærum er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar.`` --- Lýkur hér lestri, hæstv. forseti.
    Það ber því að taka það allalvarlega, og ég bið nú hæstv. ráðherra að hlýða á mál mitt. --- Hæstv. forseti. Ef hæstv. heilbrrh. telur ástæðu til að sitja í hliðarsölum og ræða við menn á meðan ég er að halda ræðu mína, þá get ég frestað henni. ( Gripið fram í: Við formann Alþb.) Það skiptir mig engu við hvern hæstv. ráðherra er að tala, ég vil að hann hlýði á mitt mál. Ég skal ekki leggja það á hv. þingheim að lesa aftur þau lagaákvæði sem varða embætti landlæknis, en hann er ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt það er varðar heilbrigðismál og annast framkvæmd þeirra þannig að það ber að taka það grafalvarlega ef landlæknir sjálfur varar ráðherra sinn við að svo sé komið fyrir sjúkrahúsum landsins að til óhappa komi vegna niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu. Þetta er ekkert gamanmál. Og það er auðvitað dæmalaus fífldirfska að segja eins og hæstv. ráðherra sagði hér í dag: ,,Við eigum nú eftir að tala um þetta, við Ólafur Ólafsson.`` Ég held að hæstv. ráðherra hafi skyldu samkvæmt lögum að hlýða á ráðleggingar umrædds landlæknis Ólafs Ólafssonar. ( GunnS: Ertu að banna þeim að tala saman?) Þannig að svona svör eru auðvitað gjörsamlega út í hött og bera þess vott að hæstv. ráðherra hafi ekki hugmynd um hvaða skyldur landlæknir hefur við ráðherra sinn.
    Ráðherra tók því léttilega hér í kvöld enn og aftur og sagði að öll mannanna verk væru eins og þau væru. Það væri óhjákvæmilegt að einhver mistök yrðu. Það kann að vera rétt. En málið hér snýst um það að tala þeirra hefur farið vaxandi og það er áhyggjuefni. Það er áhyggjuefni, hæstv. ráðherra og hæstv. forseti.
    Það hefur enginn neitt á móti hagræðingu nema síður sé. En sú hagræðing þarf að fara fram að kunnáttumanna ráðum. Þess vegna var fengið erlent fyrirtæki til að reyna að gera sér grein fyrir hvernig hagræða mætti í heilbrigðiskerfinu hér í Reykjavík og raunar í landinu öllu þar með, því auðvitað sinna spítalarnir í Reykjavík landinu öllu eins og allir ættu að vita. Það er auðvitað dæmigert fyrir Íslendinga að hlusta á það og lesa margar skýrslur og gera svo einmitt það sem ekki var ráðlagt. Það var nefnilega ekki niðurstaða þessara ráðgjafa að sameina Landakot og Borgarspítalann. Það var ekki niðurstaðan. Þess vegna var auðvitað alls ekki farið að þeirra ráðum.
    Ég held að hér hefði verið vænlegra að hlýða betur á mál þeirra sem til þekkja og það er auðvitað furðulegt að heyra hæstv. heilbrrh. tala um að menn hafi verið að breyta því að hér væru þrír jafngildir spítalar. Það hafa þeir auðvitað aldrei verið. Það hefur enginn haldið því fram að Landakotsspítalinn væri spítali á borð við Landspítalann, auðvitað ekki. Þannig að hér var aldrei um það að ræða að verið væri að breyta því að hér væru þrír jafngildir spítalar. Hins vegar var það auðvitað afar eðlileg niðurstaða umræddra ráðgjafa að í litlu samfélagi eins og okkar væri einn háskólaspítali, hátæknisjúkrahús, nóg, það þyrfti ekki tvö. Hver ákvað síðan að þau skyldu vera tvö er eitthvað sem mér hefur aldrei verið alveg ljóst, hvar sú ákvörðun var tekin. En síðan talar hæstv. ráðherra um að hér hafi sprottið upp deildir, meira og minna tilviljanakennt, einhverjir læknar hafi safnað um sig hirð sem allt í einu hafi orðið að deild. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. heilbrrh.: Hvað á hann við? Sem betur fer kom að því að við eignuðumst t.d. heilaskurðlækna. Telur hann að heimkoma Kristins Guðmundssonar og Bjarna Hannessonar til starfa í sínu heimalandi og að þeir fóru að vinna á Borgarspítalanum hafi verið einhver dyntur úr þeim? Ég vil upplýsa hæstv. heilbrrh. um að prófessor Bush er dáinn, það er ekki hægt að senda til hans lengur. Þess vegna var afskaplega gott að fá heilasérfræðinga til Íslands og ég held að það deili enginn um ágæti þeirrar deildar á Borgarspítala og margir eigi þeim ágætu læknum líf sitt að launa. Eða telur hæstv. ráðherra að sérfræðiþekking Íslendinga í meðferð brunasára, sem Landakotsspítali sérhæfði sig í, hafi verið einhverjir dyntir framagjarnra lækna sem bjuggu til hirð um sig? Það held ég ekki að þeim sem þeir

björguðu finnist.
    Svona gáleysisleg orð á hinu háa Alþingi eiga ekki við og það verður að harma að umræða skuli fara niður á þetta stig. Annars staðar í máli sínu sagði hæstv. ráðherra að útgjaldavöxtur í heilbrigðiskerfinu hefði verið stöðvaður. Hvað er hæstv. ráðherrann að segja? Stöðvaður, síðan hvenær? Kannski hefðum við átt að stöðva alla þróun í heilbrigðismálum árið 1927 eða þegar við útrýmdum berklaveikinni eða einhvern tímann þá. Það hefði sparað mikla peninga. Það hefðu bara ansi margir dáið. Við skulum vona að það verði áfram þróun í heilbrigðiskerfinu. Það vill svo til að sumt ræður hæstv. ráðherra ekki við.
    Fyrir tíu árum --- ég hygg að ég ýki það ekki --- vissi enginn hvað sjúkdómurinn eyðni var. Eru það dyntir í Haraldi Briem ( Gripið fram í: Sigurði Guðmundssyni.) og Sigurði Guðmundssyni að það er komin eyðnideild á Borgarspítalann? Ætli það sé ekki til þess gert að reyna að bjarga mannslífum enn og aftur? Nú berast fréttir af ýmsum sjúkdómum sem mönnum stendur ógn af, sem enn eru ekki þekkt lyf við. Svo leyfir hæstv. ráðherra sér að tilkynna hér: Útgjaldavöxtur er stöðvaður um aldur og eilífð. Má nú hvert fár yfir okkur ganga, útgjöldin hækka ekki. Þvílík vanþekking, hæstv. forseti. Það er satt að segja dálítið erfitt að halda uppi samræðum um jafnviðkvæman og nauðsynlegan málaflokk og heilbrigðiskerfið þegar svona er talað.
    Það hefur margsinnis verið tekið fram í dag að beiðnir um framlög á fjáraukalögum gera auðvitað ekkert annað en að sanna það að sparnaðurinn af þessu brambolti hefur enginn orðið. Ég skal ekkert vera að endurtaka það. En fáránleikinn í því að barnadeildin flytjist á öldrunardeild Borgarspítalans, en gamla fólkið yfir á barnadeild Landakots, segir manni náttúrlega bara að gamall málsháttur á rétt á sér, tvisvar verður gamall maður barn. Það er kannski alveg sama hvar þetta fólk er, það þarf líklega sömu hönnun fyrir báða aðila. Þó er nú farið fram á 10 millj. til að breyta barnadeildinni í öldrunardeild, eða hvort það var öfugt, það man ég ekki. En að þessi vinnubrögð borgi sig er auðvitað fráleitt.
    Það er huggun harmi gegn að enginn hefur sýnt sérstakan áhuga á að kaupa Þvottahús Ríkisspítalanna. Spítalinn hefur hins vegar tapað 30 millj. á þessu brambolti, því ekki stendur til að bæta nema 30 millj. af 60 millj. En við skulum vona að það fái að vera í friði, eins og menn báðu lengstra orða um í morgun í fjárln.: Látið þið okkur nú í friði svo við getum farið að vinna vinnuna okkar.
    En eins og ég sagði í ræðu minni í dag þá er auðvitað aðalatriði þessa máls að þjóðin er sá aðili sem hefur tapað mestu í þessu brambolti. Og eins og hefur verið ítrekað hefur dregið úr aðgerðum sem fólk telur sig lifa af að vera án. Fólk verður að þola alls kyns skafanka af því að það hefur ekki efni á því að leita sér lækninga. Og það var þetta sem ég innti hæstv. ráðherra eftir í dag: Hver ákvað og hvenær þá stefnu hæstv. ríkisstjórnar að það skyldi draga úr heilbrigðisþjónustu í þessu landi? Því það hefur gerst og það vita allir og meira að segja svo að sérstakur ráðunautur, samkvæmt lögum, hæstv. heilbrrh., varar við. Og ég geri ráð fyrir að það þurfi töluvert til að landlæknir gangi fram fyrir skjöldu og segi: Hingað og ekki lengra. Það eru að verða óhöpp og slys á sjúkrahúsunum ofan á allt of mikla vinnu hjúkrunarfræðinga og lækna. Og það vill til að það eru konur líka í læknastétt, enda börmuðu menn sér yfir því að allt í einu væri farið að greiða barnsburðarleyfi til lækna og þótti nú hálf óanstöndugt heyrðist mér. Ofan á streituna sem fylgir þessu mjög svo erfiða starfi eiga svo að koma áhyggjur af börnunum. Þetta höfðu sjúkrahúsin skilning á, að vinnutíma þessa fólks væri öðruvísi háttað en flestra annarra og það ætti síst af öllu að vera haldið taugaveiklun og áhyggjum af ungum börnum sínum. Þess vegna voru leikskólar spítalanna stofnaðir. En vitaskuld þarf einnig að leggja þá í rúst. Öllu skal eytt sem hægt er að eyða. Síðan er þetta kallað sparnaður.
    Og það nær auðvitað engri átt, hæstv. forseti, að fólk skuli þurfa að hugsa sig um áður en það leitar læknis. Það nær engri átt. Ég talaði um það hér í dag, til að reyna að koma með einhverjar upplýsingar um hvað er hér á ferðinni, að ósköp venjuleg ristilskoðun, sem mjög margt miðaldra fólk þarf að gangast undir, skoðun sem sem betur fer sýnir kannski oftast að hægt er að lækna meinið, stundum því miður ekki, slík skoðun kostar 17.000 kr. Láglaunakona með 60.000 kr. á mánuði verður að greiða fyrir slíka skoðun u.þ.b. þriðjung mánaðarlauna sinna. Gæti ekki verið, virðulegur forseti, að slík kona mundi bara hugsa sig um og fresta málinu? En það vill svo til að það gæti reynst afdrifaríkt. Það er þess vegna sem ég er að spyrja hæstv. heilbrrh.: Getum við ekki verið sammála um að svona viljum við ekki hafa þetta? Við viljum ekki svona samfélag. Það eiga ekki að vera forréttindi hinna ríku að ganga úr skugga um að allt sé með felldu varðandi heilbrigði þeirra. Og ég voga mér ekki að halda því fram að hæstv. ráðherra sé þeirrar skoðunar að svona eigi þetta að vera. Ég held að hér sé um vanþekkingu að ræða sem honum ber að komast til botns í. Ég vildi kannski ráðleggja honum að gera meira af því að ræða við þann mann sem hann á að ræða við og ráðgast við, landlækni, og aðra þá sem í heilbrigðiskerfinu vinna. Ég held að embættismenn í ráðuneytunum séu ekki góðir ráðgjafar í svo margslungnum málaflokki og væri affarasælla að tala við það fólk sem þar kann til verka.
    Það er grátbroslegt að einkavæðingaráhuginn hefur leitt til þess að sértekjur Landakotsspítalans hafa lækkað um 59 millj. Og af hverju lækkuðu þær? Það var af því að læknarnir á Landakoti, sem höfðu röntgenmyndað fólk inni á sjúkrahúsinu, inni á Landakoti, fluttu sig út í bæ og einkavæddu sig og stofnuðu fyrirtæki. Og nú stelur þetta fyrirtæki öllum ,,bissnesnum`` frá Landakoti. Svo er nú komið að einkavæðingin er að eta sjálfa sig.
    Hæstv. forseti. Mér er ljóst að nú líður mjög á kvöld. Ég á mér eiginlega aðeins eina ósk um

einkavæðingu og hún er sú að ríkisstjórnin verði einkavædd sem allra fyrst.