Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:44:05 (2210)


[22:44]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég hef nú fallist á að flytja mína ræðu, seinni ræðu í þessari umræðu, sem verður ekki ýkjalöng, þó svo að sá ráðherra sem ég beindi spurningum til fyrr í dag einkum og sér í lagi, sé farinn úr húsi, hafi tjáð mér að hann þyrfti að hverfa héðan og hafi að sögn ekki enn kvatt sér hljóðs. Að vísu veitt einhverjar tilteknar upplýsingar í stuttu andsvari, en þrátt fyrir mýmargar spurningar hér í umræðunum fyrr í dag hefur hæstv. sjútvrh. ekki séð ástæðu til að biðja um orðið. Þetta er auðvitað að verða plagsiður hér, sem er afar hvimleiður, að ráðherrar tíðka það að láta heita svo að þeir hafi gert skyldu sína og verið við umræðu og svarað með því að hlaupa upp í eitt eða tvö andsvör og eru svo roknir burt.
    Ég féllst eingöngu á að ljúka, fyrir mitt leyti, þessari umræðu um málið með því fororði að hæstv. sjútvrh. verði viðstaddur 3. umr. málsins. Þá ætla ég að bera á nýjan leik upp spurningar mínar og skal þá hundur heita, með leyfi forseta, ef ég sé ekki til þess að sjútvrh. svari þeim. Það er auðvitað alveg á hreinu að ég ætla ekki að láta misnota það að maður, með þessum hætti, er í raun að greiða fyrir umræðunni og leyfa hæstv. sjútvrh. að hverfa af vettvangi í trausti þess að hann bregðist þá vel við og svari í næstu umferð.
    Ég mun engu að síður víkja fáeinum orðum að þessu umfangsefni svona til að undirbúa umræðuna í þriðja og síðasta sinn. Mig langar til að víkja fáeinum orðum að heilbrigðismálunum sem hér hafa orðið talsvert umræðuefni. Er það að vonum, því útgjaldaauki til heilbrigðismála er stór hluti af þessu fjáraukalagafrv. og svo ber það einnig við að hæstv. heilbrrh. hefur sýnt umræðunni þann skilning að vera hér viðstaddur og taka þátt í henni og veita svör og það met ég að sönnu.
    Því miður er það svo, hæstv. forseti, að þessi niðurstaða hér, varðandi fjárlögin á yfirstandandi ári, er okkur í raun og veru sönnun þess að vinnubrögð í heilbrrn. á undanförnu ári hafa ekki verið með þeim hætti að þar hafi náðst betri tök á útgjöldum eða sá sparnaður orðið sem ætlað var. Það ber að vísu að taka fram og það þekkja menn, að stór hluti af þessum mikla útgjaldaauka til heilbr.- og trmrn. er vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs, eða rúmur milljarður kr. En það eru hér engu að síður nokkur hundruð millj. í aðra þætti, eins og Tryggingastofnun ríkisins, stærstu sjúkrahúsin o.fl. Og eru þó sjálfsagt ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum, því miður. Þannig hefur þetta orðið þegar upp er staðið, bæði á síðasta ári og aftur núna, að þrátt fyrir öll rassaköstin í hæstv. fyrrv. heilbrrh. þá hefur þegar upp er staðið sáralítill sparnaður orðið á útgjöldum, þrátt fyrir að ástæða sé til að ætla og fullkomlega það, það liggur reyndar fyrir, að þjónustan hefur í ýmsum tilvikum verið skert. Biðlistarnir hafa t.d. lengst í mörgum greinum og það eru að myndast biðlistar gagnvart ýmsum smærri aðgerðum sem ekki voru fyrir hendi áður.
    Ég held að það sé líka fullt tilefni til að ræða það hér, af því að t.d. málefni Landakots bar á góma, að menn reyni þá að læra af reynslunni og standa öðruvísi að málum í framhaldinu. Nógu bölvað er auðvitað að búa við svona niðurskurðarköst sem menn fá þegar að illa grunduðu máli er rokið til og skorið niður hér og skorið upp þar. Svo kemur auðvitað í ljós þegar frá líður að þessu fylgir enginn sparnaður, vegna þess að þörfin gufar ekki upp þó einhvers staðar rjúki menn til með niðurskurðarhnífinn og beiti honum. Menn hætta ekki að veikjast, því miður. Það er ekki svo, það er nú meinið. Og mjaðmarliðirnir í gamla fólkinu hætta ekki að slitna þó fjárveitingar séu skornar niður til bæklunardeilda. Þá er bara tvennt til, annaðhvort gengur þetta blessað gamla fólk áfram á ónýtum liðunum með miklum kvölum eða kostnaðurinn færist með einhverjum hætti til yfir í annað, yfir í heilsugæsluna, yfir í sérfræðingageirann

o.s.frv. Staðreyndin er auðvitað sú að hæstv. fyrrv. heilbrrh. mistókst algerlega, sem vel að merkja fleirum hefur mistekist, og það er að ná utan um dæmið. Það er augljóst þegar það er skoðað að þá hafa þetta oftast nær orðið algengustu mistökin og í raun og veru hin bitra niðurstaða tilrauna manna til að draga úr útgjöldum í heilbrigðiskerfinu, að um leið og menn hafa ætlað að spara inni á stofnununum og á spítölunum og skera þar niður, þá hefur kostnaðurinn einfaldlega flust annað, vegna þess að það er auðvitað alveg opin æð yfir í sérfræðingaþjónustuna, sérstofnanirnar þar og í gegnum reikningana sem sendir eru Tryggingastofnun.
    Hvað er að gerast á Landakoti, úr því að það er nefnt? Jú, það er einmitt það sem er að gerast. Þegar röntgendeildin þar var lögð niður þá tóku læknarnir sig saman, fóru inn í Domus Medica, keyptu sér röntgentæki og fjárfestu fyrir hátt í 100 millj. kr. og reka þar nú einkastofu, með einhverjum glæsilegasta tækjabúnaði sem röntgenlæknar hafa séð í landinu. Og hverjir haldið þið að prísarnir séu þá þar? Eitthvað þarf nú í budduna, kassann, til að borga niður þessa fjárfestingu. Er þetta sparnaður? Þetta er e.t.v. sparnaður fyrir dæmið, Landakot innan ársins, en ekki fyrir ríkissjóð í heild og þaðan af síður fyrir landið. Þetta er útgjaldaauki fyrir þjóðarbúið, því þetta er viðbótarfjárfesting sem ekki var þörf á. Það var enginn skortur á röntgentækjum í landinu áður en þessi einkaklínik bættist við.
     Þetta er auðvitað það sem hefur verið að gerast í stórum stíl á undanförnum árum. Og hæstv. fyrrv. heilbrrh., með öllum gauraganginum, var liðónýtur í því að taka á þessum enda málsins, því miður. Hann stóð í styrjöldum við nánast allar heilbrigðisstéttir í landinu, nema þær sem hann hefði þurft að slást við og þar sem mestu peningarnir eru á ferðinni og það er sérfræðingaendinn í málinu og það er lyfjaliðið. Hann var í bullandi orrustu við láglaunafólkið á sjúkrastofnununum og það stóð allt á haus hér inni á Alþingi og úti á þessum stofnunum, en því miður átti hann ekki í átökum við þá aðila innan þessa kerfis, sem að mínu mati hefði verið mest ástæða til. Ég held að það væri fróðlegt fyrir hæstv. núv. heilbrrh. að fara svolítið yfir þessi mál og reyna að læra af þeim mistökum sem þarna áttu sér stað.
    Það er auðvitað ekki bara í röntgenþjónustu sem einkapraxísinn hefur þotið upp. Það hefur gerst í fjölmörgum fleiri tilvikum. Það eru í raun reknir nokkrir litlir spítalar í bænum, algerlega undir einkahatti. Þar eru meira að segja oft í samstarfi læknar á nokkrum mismunandi sérsviðum og rannsóknalæknar með, þannig að það er hægt að taka menn bara heilan hring á hæðinni. Og það gengur sú saga um bæinn að gömul kona hafi lent inn á einn af þessum einkaspítölum, inn á svona hæð. Hún ætlaði að láta taka af sér fæðingarblett, en þeir renndu henni í leiðinni einn hring á hæðinni, tóku úr henni blóð og þvag, mynduðu hana í bak og fyrir, ræktuðu úr henni þetta og hitt og hún kom voðalega ánægð heim, hafði farið í meiri háttar rannsókn, verið bara skoðuð í hólf og gólf og Tryggingastofnun fékk auðvitað reikninginn. Það er voðalega handhægt þegar hægt er að taka menn bara inn á einn enda og rúlla þeim í hring á hæðinni og taka úr þeim sýni hér og mynda þá þar og senda svo reikninginn til Tryggingastofnunar. Og halda menn að þetta sé nú endilega einhver sparnaður? Nei, ég er ekki viss um það. Ég held nefnilega að því miður sé það þannig að margt hafi farið alveg úr böndunum, vegna þess að orkan beindist að því að hamast á nokkrum stofnunum sem urðu sérstök fórnarlömb hæstv. fyrrv. heilbrrh., núv. hæstv. iðnrh., sem á auðvitað að vera hér og sinna þingskyldum sínum, þannig að ég hef ekkert samviskubit yfir því að segja þetta að honum fjarstöddum.
    Ég held að þarna hafi sem sagt ekki á nokkurn hátt náðst sá árangur sem að var stefnt. Það er líka alveg ljóst að aðgerðir af þessu tagi hafa því miður þá náttúru að þær vilja gjarnan skila, ef einhverjum árangri, þá mjög tímabundnum, vegna þess að þær mynda stíflu fyrir framan sig. Þær ýta á undan sér ákveðinni óleystri þörf, hún hleðst upp og þegar upp verður staðið verða útgjöldin meiri innan eins til tveggja ára. Hvað kostar það t.d. að fresta aðgerðum sem geta gert sjúkdóminn alvarlegri, veikindin erfiðari, gert viðkomandi einstakling jafnvel óvinnufæran? Kostað þjóðfélagið þannig vinnutap og ómælda peninga, svo að ekki sé nú minnst á þjáningarnar. Og þannig er það auðvitað viðurkennt að menn eiga að reyna að nálgast þessi vandamál alveg frá þveröfugum enda, þ.e. að reyna að beita fyrirbyggjandi ráðstöfunum, komast fyrr fyrir meinsemdirnar og leysa þær á lægra stigi í kostnaðarpíramítanum heldur en gert er. Ég held að aðgerðir t.d. fyrrv. hæstv. heilbrrh. hafi oft haft þveröfug áhrif, þær hafi ýtt vandamálunum upp á dýrari þrep í heilsugæslupíramítanum. Og ég held að það sé alveg stórkostlegt áhyggjuefni að sú áherslubreyting sem í reynd hefur orðið í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi á síðustu árum er fráhvarf frá þeirri skynsamlegu áherslu sem tekin var upp með heilbrigðislögunum á sínum tíma þegar heilsugæslustigið var byggt upp og er gáfulegasta og besta aðgerð sem gerð hefur verið í heilbrigðismálum á Íslandi um áratuga skeið, sennilega allt frá því að Vilmundur var á móti okkar áherslu hér fyrr á öldinni.
    Frá þessu hafa menn verið að hverfa að vissu leyti á undanförnum árum, m.a. vegna þess að menn hafa staðið í svona niðurskurðarfári af og til. Það er rokið í þetta. Það á bara allt í einu að loka fjárlögunum og það eru 2--3 vikur til stefnu til að spara einn eða tvo milljarða í heilbrrn. Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð frekar en í öðrum málaflokkum. Og við verðum að komast út úr því að vinna svona, við verðum að gera það. Það allra sorglegasta er auðvitað það, hæstv. forseti, að á meðan tími okkar fer í þetta, þá erum við ekki að ræða það sem mestu máli skiptir og við ættum að vera að tala um, þar sem verið er að ræða í sambandi við heilbrigðisáherslur og kostnað í heilbrigðisþjónustu í öðrum löndum þar sem þessi mál eru á almennilegu plani. Og það eru auðvitað þær siðferðislegu spurningar sem eru að rísa, þar sem mönnum er ljóst að tækniþróun og þróun í lyfjaframleiðslu í heiminum er örari heldur en greiðslugeta jafnvel mestu velmegunarþjóðanna ræður við. Það er auðvitað alveg ljóst að tækninni hefur fleygt þannig fram, lyfjaþróuninni og framleiðslunni líka, að við vitum að við verðum að fara að setja okkur ákveðin mörk í því. Við getum ekki gert allt, það er ljóst. Við getum ekki látið það eftir okkur, allra síst þessi litla þjóð, að kaupa t.d. öll þau dýru og fínu hátæknitæki sem nú eru að verða til í heilbrigðisþjónustu. Sum þeirra eru svo risavaxin að það mundi kosta næstum hálf og heil fjárlögin að setja þau stærstu og dýrustu upp sem eru að verða til. Auðvitað er það ekki á okkar færi og það ræður í sjálfu sér engin þjóð við það, ekki einu sinni Japanir, að láta allt eftir sér í heilbrigðismálum sem er orðið tæknilega mögulegt í dag. Þá rísa mjög mörg og áleitin siðferðileg álitamál. Hvernig eigum við að draga mörkin? Hvenær eigum við t.d. að hætta vegna kostnaðar að veita tiltekna þjónustu, gefa tiltekin lyf? En það er ekki verið að ræða þetta, því miður, eða ég heyri a.m.k. lítið um það í þessari endalausu umræðu hér og þvargi um niðurskurð á þessari stofnun og rústun á hinni. Það er búin að fara meiri orka í það, í þessum hamagangi úti á Landakoti eða Kristnesi eða St. Jósefsspítala, heldur en nokkurn tíma hefur farið í að ræða grundvallarmálin sem þarf að taka á í heilbrigðismálum til framtíðar litið. Eins og Landakot og rekstur þess hafi verið einhver grundvallarmeinsemd í íslenskum heilbrigðismálum. Það er þvættingur. Þetta var gróin stofnun og að mörgu leyti vel rekin. Það hefði verið út af fyrir sig allt í lagi að taka skipulag hennar og samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir hér til skoðunar, en það átti ekki að gera það með því að rústa stofnuninni á 1--2 árum. Það var stórkostlegt slys, að mínu mati, stórkostlegt slys. Það fara mikil verðmæti forgörðum þegar gróinni og skipulagðri stofnun í fullum rekstri er rústað þannig, eins og gert var þar. Það var ekki grundvallarmeinsemd í íslenskum heilbrigðismálum og mönnum hefði verið nær að reyna að stemma stigu við útgjaldavextinum á öðrum sviðum þar sem hann hefur verið nánast hömlulaus, t.d. bæði í sambandi við innkaup og notkun á ýmsum hátækniútbúnaði í læknisþjónustu og dýrustu sérlyfjunum. En þetta er ekki til umræðu heldur stendur allt á haus yfir því sem t.d. var verið að gera í sjúkrastofnunum á höfuðborgarsvæðinu eða nú er til umræðu vegna uppbyggingar heilsugæslunnar úti um landið. Eins og það væri framfaraskref fyrir þjóðina að verða að játa á sig þann aumingjaskap á 10. áratug aldarinnar að geta ekki einu sinni rekið þau heilbrigðismannvirki og þær stofnanir í landinu sem búið er að byggja upp. Þá finnst mér nú skörin vera farin að færast upp í bekkinn. Hitt er allt annað mál að endurskipuleggja nýtingu þeirra og er sjálfsagt mál að skoða og ræða það. En þegar t.d. svo langt var komið eins og í fyrra að það átti að leggja niður Kistnesspítala, þó að ástand í sambandi við hjúkrunarrými væri þannig í þeim landshluta að það var langt undir því sem talið er fullnægjandi t.d. miðað við staðla á Norðurlöndum, þá sést bara út í hvílíkar ógöngur menn eru komnir.
    Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að koma þessum hugleiðingum að í tengslum við þá ágætu umræðu sem hér varð um heilbrigðismálin. Mín hvatning til hæstv. heilbrrh., sem hefur lent í talsverðum barningi á fyrstu mánuðum í embætti, er sú að hann verði maður til þess að vinna öðruvísi að þessum málum heldur en forveri hans. Reyna frekar að fara svolítið yfirvegað og skipulega í þennan málaflokk, hann er viðkvæmur og vandasamur, og láta sér ekki detta það í hug að vaða þar um eins og fíll í glervörubúð eins og forveri hans gerði, því það skilar engum árangri og við erum m.a. með niðurstöðuna af því hér í höndunum. Þannig ná menn ekki árangri í þessum efnum. Menn geta hugsanlega sýnt á blaði tímabundið í eitt ár eitthvað lægri tölur, en það kemur beint í hnakkann á mönnum og er þá auðvitað ekki mælt það sem ekki er hægt að mæla sem eru þjáningar fólksins og jafnvel þaðan af verri hlutir.
    Hæstv. forseti. Ég hafði svo ætlað mér að ræða lítillega við hæstv. sjútvrh., eins og ég sagði, varðandi þessi dæmalausu mál sem lúta að Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins. En hæstv. sjútvrh. er nú þrotinn að kröftum og farinn til síns heima og mun ekki verða hér meira á meðal vor í kvöld og ég mun því ekki orðlengja mikið um það. Ég ítreka bara að það er auðvitað með öllu óásættanlegt, eins og er í tísku að segja í dag, með öllu óþolandi, að þetta gangi svona áfram, verði svona áfram afvelta hjá hæstv. ríkisstjórn, þessi hagræðingarsjóðsmál, þau eru orðin þvílík hneisa. Hæstv. forsrh., sem ber nú í raun og veru ábyrgð á þessu sulli öllu saman, sem höfuðið á ríkisstjórninni, verður auðvitað að fara að taka þetta á sína könnu ef þetta ætlar að ganga svona til. Við ræddum þessi mál 11. nóv. og þá sagði hæstv. sjútvrh., með leyfi forseta:
    ,,Ég get sagt það hér að ef dráttur verður á því að breytingar á lögum um stjórn fiskveiða komist til umfjöllunar í þinginu, þá tel ég að það komi til skoðunar alveg á næstu dögum að taka þetta mál út úr með sérstökum hætti og afgreiða það hér.``
    Alveg á næstu dögum, 11. nóv. Nú er kominn 2. des. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þessi tímatalsfræði ríkisstjórnarinnar undrar mig mjög. Þannig er það t.d. að hugtakið ,,í upphafi`` hefur alveg sérstaka merkingu hjá þessari ríkisstjórn, sem ég hef aldrei áður vitað um í íslensku máli. Það væri gaman að vita hvort hæstv. forseti vor hefur þennan sama skilning og ríkisstjórnin á því hvað það þýði að vera í upphafi einhvers. En þannig er það nefnilega. Lögin um Hagræðingarsjóð eru þannig að í 6. gr. þeirra segir:
    ,,Hagræðingarsjóður skal við upphaf hvers fiskveiðiárs . . .  `` Við upphaf. En ríkisstjórnin hefur túlkað þetta, við upphaf, þannig að það sé bara hægt að teygja það hugtak langt, langt inn á árið. Nú er fjórðungur af árinu liðinn, það er enn við upphaf á þessu fiskveiðiári, það er enn við upphaf samkvæmt skilningi ríkisstjórnarinnar. Og hæstv. sjútvrh. fór út í að reyna að túlka það að stjórn Hagræðingarsjóðs hefði út á þetta orðalag svona visst svigrúm. Og ég sé ekki betur en það svigrúm sé að teygja sig upp í að vera svona --- ja, á það að verða upp undir hálft ár eða eitthvað svoleiðis, þetta upphaf fiskveiðiársins. Það væri

gaman að vita hvort hæstv. forseti hefur þennan sama skilning, t.d. hvort upphaf fengitíðar eru líka þrír mánuðir. Ég er hræddur um að það mundi þá bera seint á búinu það sem síðast fengi, ef upphafið t.d. á fengitímanum væri svona langt. Það væri ástæða til að fá svolítið betri skýringar á þessu hjá hæstv. ríkisstjórn og e.t.v. getur hæstv. forsrh., sem stundum hefur brugðið sér í hlutverk sjútvrh. eins og kunnugt er --- t.d. yfirtók hæstv. forsrh. að mestu leyti sjávarútvegsmálin í fyrra um skeið og sjútvrh. vísaði bara á forsrh. og sagði: Þetta er ekki á mínum höndum, þetta er hjá forsrh. Eins og ráðstafanir vegna þorskbrestsins, þær voru allt í einu orðnar byggðamál og þar með á verkahring forsrh. Og ef hæstv. forsrh. vildi endurtaka leikinn og bregða sér hér í gervi sjútvrh. um sinn, þá gæti hann e.t.v. gefið okkur einhverjar skýringar á þessari hugtakanotkun ríkisstjórnarinnar. ( Gripið fram í: ... leysa það með bráðabirgðalögum líka.) Já, þessum einstæða skilningi ríkisstjórnarinnar hvað það þýði, að vera við upphaf einhvers. Er t.d. hæstv. forsrh. við upphaf valdaferils síns núna eða ...? (Forsrh.: Ég býst við því.) Já, Það er nefnilega það. Reyndar hefur sú ágæta hugmynd skotið upp kollinum að ríkisstjórnin gæti e.t.v. leyst þetta með því að setja bráðabirgðalög á milli jóla og nýárs um Hagræðingarsjóð. Það væri mjög vel til fundin slaufa utan um pakkann, þessa frægu sögu sem orðin er af ráðstöfun ríkisstjórnarinnar á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs. Sennilega væri þó enn betra að setja bráðabirgðalögin eftir hádegi á Þorlák, eftir skötuna, ég hugsa að það væri albest. En þetta verðum við sem sagt að bíða með að ræða betur að öðru leyti en því sem forsrh. svarar okkur e.t.v. þangað til hæstv. sjútvrh. verður við hér við 3. umr. ( Gripið fram í: Í skötulíki þá.) Já, en það er náttúrlega viss hætta á því, eins og hér kemur fram í skynsamlegu framíkalli, að þetta geti átt eftir að verða í skötulíki hjá ríkisstjórninni.
    Þá að síðustu, hæstv. forseti, hafði ég hugsað mér að segja hér fáein orð um vaxtamál, af því að hæstv. forsrh. var hér nokkuð kokhraustur fyrr í dag og taldi árangur ríkisstjórnarinnar kraftaverki líkastan, ef ég má leyfa mér að túlka það svo, svona hátt í það, og ég vildi að satt væri. Ég verð að játa að ég hef heilmikið skoðað það og velt því fyrir mér, hversu traustar og varanlegar horfurnar séu varðandi þessa vaxtalækkun. Efh.- og viðskn. var m.a. í heimsókn í Seðlabankanum í fyrradag og þar ræddum við við seðlabankastjóra um líkurnar á því að þetta héldist og ég tala nú ekki um það sem best væri, að vaxtaþróunin gæti orðið áfram niður á við. Því staðreyndin er náttúrlega sú, því miður, að vaxtalækkunin er ekki nema að hluta til gengin í gegnum kerfið, eins og ég veit að hæstv. forsrh. er kunnugt. Þannig hafa til að mynda sumir útlánavextir bankanna nánast ekkert lækkað og hreyfðust ekki núna á síðasta vaxtabreytingadegi, sem er auðvitað algerlega ósættanlegt. Að vextir á ýmsum óverðtryggðum skammtímaútlánum bankanna skuli enn vera yfir 16% í vissum tilvikum og það eru hinir útgefnu vextir og er þá eftir áhættuþóknun ef hún kemur til, þ.e. ef viðkomandi lántaki er svo í áhættuflokki c eða d, þá geta hans lánskjör orðið enn óhagstæðari. Og að þessi vaxtakjör á óverðtryggðu lánunum skuli liggja á bilinu rúmlega 12 og upp í rúmlega 16%, það er auðvitað alveg ósásættanlegt. Þannig að veikleikinn er greinilega í fyrsta lagi í bankakerfinu og það er alveg ljóst að afkoma bankanna er mikið áhyggjuefni í þessu sambandi. Þeir viðurkenna það og Seðlabankinn viðurkennir það, að afkoma bankanna leyfi í raun og veru ekki að vaxtamunurinn minnki. Þó hefur hann gert það lítillega og það er þá með öðrum orðum sagt ávísun á tap bankanna, vegna þess að rekstur þeirra er ekki betri en þetta. Og þær ráðstafanir sem Seðlabankinn hefur gert eru samkvæmt þessu ekki nægjanlegar til þess að bankarnir geti tekið þátt í vaxtalækkuninni með almennilegum hætti og án þess að afkoma þeirra versni.
    Í öðru lagi þá hlýtur maður að nefna fjármögnun húsnæðislánakerfisins í þessu sambandi. Ég veit ekki hvort menn hafa áttað sig á því að í raun og veru hefur ekki reynt að neinu marki á það enn þá hvort aðrir en ríkissjóður geta fengið þau ávöxtunarkjör sem ríkið hefur sett sér, af þeirri einföldu ástæðu að Húsnæðisstofnun vék af markaðinum fyrst eftir að ráðstafanirnar voru kynntar 29. okt., tók ekki þátt í fyrsta útboðinu eftir þá breytingu og gat svo aðeins tekið 1 / 3 af tilboðunum í næstu umferð, þ.e. núna fyrir um hálfum mánuði síðan. Þannig að í raun og veru hefur Húsnæðisstofnun ekki getað aflað sér nema lítils brots af því fjármagni sem hún hefði gert að óbreyttu eða ætlaði sér að óbreyttu, þ.e. hún vék alveg á fyrra útboðsdegi eftir breytinguna og gat aðeins selt 1 / 3 af því sem í boði var í næstu umferð. Og það er auðvitað alveg augljóst mál að þar hljóta menn að fara að velta því fyrir sér, ef svo heldur sem horfir og stofnunin nær ekki nema einhverjum litlum hluta af því sem hún ætlar sér í hverju tilviki á innanlandsmarkaði undir þessu vaxtaþaki sem sett hefur verið, að hún verði einnig að leita á erlendan lánamarkað. Því auðvitað er ekki hægt að halda henni í klemmu, jafnfyrirferðarmiklum aðila á þessum markaði og raun ber vitni.
    Í þriðja lagi er rétt að nefna að það hafa auðvitað miklir peningar verið settir í umferð núna í tengslum við þessar ráðstafanir. Út af fyrir sig er ég ekki að leggjast gegn því, en við hljótum að velta því fyrir okkur og taka það inn í okkar mat á því hvernig horfurnar eru. Það er til að mynda alveg ljóst að Seðlabankinn hefur keypt óhemju af ríkisskuldabréfum. Hann á núna líklega meira í langtímapappírum ríkissjóðs heldur en nokkurn tíma fyrr eða milli 7 og 9 milljarða kr. Það er auðvitað mikil summa og spurning hversu lengi bankinn getur haldið á slíkum eignum. Það er e.t.v. hægt að réttlæta það á meðan engin merki eru um þenslu og bankinn segir þetta vera í langi eins og stendur, en hversu tryggt er það til frambúðar? Þannig að ég held, hæstv. forsrh., að við ættum að fagna fullum sigri a.m.k. varlega í þessum efnum.
    Auðvitað binda allir vonir við að þetta haldist og auðvitað þarf að gera meira en það vegna þess

að sú aðgerð sem gripið var til 29. okt. gerir í raun og veru, a.m.k. ekki enn sem komið er af því að bankarnir hafa bara að litlu leyti fylgt eftir, ekki betur en halda í við vaxtaþróunina eins og hún hefur verið í nágrannalöndunum niður á við. Við erum því miður enn nokkurn veginn jafnlangt fyrir ofan. Það sjáum við t.d. á ríkisskuldabréfunum, en þau eru að meðaltali á vöxtum núna milli 3 og 4,5% í OECD, þannig að þar er verulegur munur upp í það vaxtaþak sem menn hafa sett sér hér.
    Þegar farið er yfir í raunvexti bankanna þá er staðan enn verri, því þeir eru óumdeilanlega þeir langhæstu hér í öllum OECD-ríkjunum, langhæstu. Þeir voru rétt í 10% að meðaltali, vegið raunvaxtastig bankanna, fyrir breytinguna 29. okt. og hafa sáralítið lækkað. Þannig að ég held því miður að það séu ýmsir veikleikar í stöðunni. Það sem ég bind nú mest vonir við er í sjálfu sér kannski ekki, þegar upp er staðið, nema að litlu leyti þær ráðstafanir sem gerðar voru 29. okt., þó ég taki það skýrt fram að ég tel að í raun og veru hafi þær að langmestu leyti verið eðlilegar og hefði þurft að vera búið að gera margt af því fyrir löngu, að vísu með öðrum hætti heldur en gert var. Nei, það sem ég bind mestar vonir við er það að kannski hafi vaxtastiginu hérna verið haldið uppi með vissu handafli og við getum gert okkur vonir um að bara sú breyting sem varð á andrúmsloftinu geri það a.m.k. að verkum að menn haldi þó ekki vaxtastiginu hærra heldur en efni standa til eftir þetta, en það hafi jafnvel verið gert áður. Og ég er þeirrar skoðunar að ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar hafi að nokkru leyti haldið vaxtastiginu uppi allt frá því í maí 1991, að nokkru leyti haldið því hærra uppi en það hefði þurft að vera, með sinni þrengslapólitík í þessum efnum sem var umfram efni, að mínu mati. En vonandi gengur þetta vel og vonandi nást vextirnir hér varanlega niður og þá ekki síst vextirnir í bankakerfinu og endavextirnir, sem þrátt fyrir allt eru nú sá vaxtakostnaður sem mest þörf er á að ná niður og þá á ég við þann vaxtakostnað sem lakar settu fyrirtækin og skuldugari heimilin bera. Það eru nefnilega, þegar upp er staðið, kannski ekki vextirnir á langtímalánunum og föstu lánsviðskiptunum, sem eru í góðum farvegi og eru í skilum og borgað er af reglulega, sem mestu máli skipta þrátt fyrir allt, vegna þess að þar eru ekki mestu erfiðleikarnir, augljóslega ekki úr því að þau lán eru í horfinu. Erfiðleikarnir sem menn eru að berjast við blóðugastri baráttu eru auðvitað hjá þeim sem eru skuldugastir, eru að berjast við vanskil, eru í útlánaáhættuflokkum c og d í bankakerfinu. Þar eru hinir raunverulegu erfiðleikar. Þar eru fyrirtækin sem eru að fara á hausinn vegna þess að þau ráða ekki við fjármagnskostnaðinn og þar eru heimilin sem eru að missa ofan af sér o.s.frv.
    Fleira ætla ég ekki að segja um þetta að sinni, hæstv. forseti, en ég leyfði mér að koma með þessar hugleiðingar hér í framhaldi af m.a. orðum hæstv. forsrh. Ég held því miður að við ættum að stíga varlega til jarðar og fara varlega í það að hrósa einhverjum endanlegum og miklum sigri í vaxtamálum. Að sjálfsögðu fagnar maður þeim árangri sem náðst hefur og þó fyrr hefði verið og vonar að það verði unnt að halda áfram á þessari braut. En það væri mikill barnaskapur að gera sér ekki grein fyrir því að það eru ýmis hættumerki í stöðunni og á margan hátt verkar það þannig á mig að það megi lítið út af bera til þess að þetta jafnvægi raskist aftur, ef jafnvægi er þá hægt að kalla það, af því að ég vil gefa mér það í lengstu lög að ríkisstjórnin ætli ekki að fara út í botnlausar erlendar lántökur bara sí svona. Það sé þrátt fyrir allt ætlunin að reyna að beita því fyrst og fremst sem hótun, en gera ekki alvöru úr því. Því það væri auðvitað annað og alvarlegra mál, ef menn ætluðu að ganga þá braut í alvöru í umtalsverðum mæli, að hella sér út í milljarða erlendar lántökur eingöngu til þess að ná e.t.v. tímabundnum árangri hér í vaxtamálum. Ég vil gefa mér að svo sé ekki, að menn hafi fyrst og fremst ætlað að beita þessum yfirlýsingum um erlendar lántökur sem hótun og ætlunin sé að reyna að fara þar eins varlega og nokkur kostur er.