Fjáraukalög 1993

48. fundur
Föstudaginn 03. desember 1993, kl. 00:18:13 (2222)


[00:18]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa komið inn í umræðuna með þessum hætti og ég vænti þess að hann íhugi það að það er eðlilegur framgangur máls að hann komi hér á tiltölulega stuttum tíma, lýsi viðhorfum sínum með jafnskýrum hætti og hann gerði hér. Hæstv. forsrh. verður auðvitað að átta sig á því að hann er ráðherra efnahagsmála og þó að fjárlögin heyri formlega undir fjmrh. þá hefur það ávallt verið talið eðlilegur siður í þinginu að forsrh. tæki efnislegan þátt í þeirri umræðu svo nátengd sem fjárlögin eru allri stjórn efnahagsmála. Um það gilda ekki einhverjar almennar reglur um viðkomandi fagráðherra. Þess vegna er ekkert óeðlilegt þó við gerum kröfur til þess við þau tvö eða þrjú frv., sem eru hér árlega um fjárlög og fjáraukalög, að hæstv. forsrh. tali með myndugleika í þeirri umræðu.
    Ég tel líka það vera kost fyrir þjóðina og aðila í atvinnulífinu að hafa fengið að heyra og kynna sér þau rök sem hæstv. forsrh. flutti hér fyrir mati sínu og skoðunum. Ég tel að það væri hið eðlilega og rétta sem hann var að gera í sinni ræðu áðan að lýsa rökum sínum með þessum hætti. Þannig á umræðan að vera á þinginu og það er af hinu góða og hefði betur mátt gerast fyrr í dag.
    Ég fagna því einnig að hæstv. forsrh. hefur talað alveg skýrt um það að hann var aðeins að álykta almennt varðandi Kjaradóm. Ég dreg hins vegar í efa tiltrú hans á það að Kjaradómur muni láta hér staðar numið.
    Varðandi lausafjárhlutfallið og aðgerðir Seðlabankans í þeim efnum fyrir nokkrum vikum síðan þá virðist það ekki hafa dugað bönkunum enn sem komið er til að lækka vextina. (Forseti hringir.) Nú er það því miður þannig, hæstv. forsrh., að ég verð að ljúka andsvari mínu að sinni en hæstv. forsrh. getur gert mér vissan greiða með því að halda áfram að taka þátt í þessum andsvörum.