Fjáraukalög 1993

49. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:09:53 (2227)

[15:09]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins gera stuttlega grein fyrir þessari brtt. af því að hún er brtt. við brtt. meiri hluta fjárln. sem við höfum þó setið hjá við atkvæðagreiðslu á, svo og við frv. í heild sinni eins og fram kemur í nál. minni hlutans. Hér er um það að ræða að leiðrétta fjárveitingu til Ríkisspítala sem nemur sértekjum vegna fyrirhugaðrar sölu á Þvottahúsi Ríkisspítalanna sem ekki varð af á þessu ári. Hæstv. ríkisstjórn hefur nú tekið þá skynsamlegu ákvörðun að hætta þessari vitleysu og hefur ekki uppi hugmyndir um að einkavæða þvottahúsið á næsta ári svo að eftir situr það að leiðrétta sértekjur fyrir það ár sem er að líða um það sem áætlað var að Ríkisspítalar hefðu tekjur af sölunni eða hlutabréfum af þessari stofnun spítalanna. Það er gerð tillaga um það hjá meiri hlutanum að leiðrétta þetta að hálfu leyti um 30 millj. kr. af þeim 60 sem áætlaðar voru. Við gerum tillögu um að það verði leiðrétt að fullu og þess vegna komi hér 30 millj. til viðbótar þannig að heildarleiðréttingin verði sem nemur 60 millj. kr.