Viðhorf ríkisstjórnarinnar til veiða Íslendinga í Smugunni og við Svalbarða

49. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:26:05 (2231)


[15:26]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Að því er varðar fyrri spurningu hv. þm. er það að segja að eins og kunnugt er úr fréttum þá lagði hæstv. utanrrh. fyrir skömmu fyrir ríkisstjórnina tillögu þess efnis að Íslendingar gerðust aðilar að Svalbarða-samkomulaginu að undangengnum kynningarviðræðum við Norðmenn. Þetta mál er nú til athugunar í ríkisstjórninni. Það hefur verið til umræðu á sameiginlegum fundum hv. sjútvn. og hv. utanrmn. í tvígang.
    Það hefur komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún telur mikilvægt að leita eftir sem fyllstu samráði og fyllsta samstarfi allra flokka í þinginu og því hafa þessir samráðsfundir farið fram og ljóst að frekari ákvarðanir verða ekki teknar nema að höfðu samráði annaðhvort á þeim vettvangi eða með öðrum hætti sem þingflokkarnir koma sér saman um en enn hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um hvernig skipa skuli.
    Að því er síðara atriðið varðar þá er ljóst að það hefur ýmislegt það verið að gerast sem hefur breytt aðstöðu okkar Íslendinga, bæði áhugi á samstarfsverkefnum erlendis, áhugi á veiðum á fjarlægari miðum og ný þróun í hafréttarmálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Því var skipuð í haust nefnd með fulltrúum allra flokka hér í þinginu og fulltrúum allra helstu hagsmunasamtaka til þess að endurskoða lög um veiðar íslenskra skipa utan landhelgi og í því endurskoðunarstarfi að móta afstöðu okkar til veiða á fjarlægum miðum og til stefnumótunar og kröfugerðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Þetta mikilvæga starf fer nú fram og af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið leitast við með þessum hætti að tryggja sem fyllst samráð og samstarf allra flokka í þinginu og helstu samtaka atvinnurekenda og sjómanna í landinu. Ég legg á það mikla áherslu í þessu efni að freista þess að viðhalda því samstarfi og veit að sú nefnd sem með þessi mál fer og fjallar mun komast að góðir og skynsamlegri niðurstöðu sem samstaða getur tekist um hér á hinu háa Alþingi og meðal þjóðarinnar.