Ofbeldi í myndmiðlum

50. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:50:44 (2240)


[15:50]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Þál. sem vísað er til í fsp. hefur verið lesin hér af hv. fyrirspyrjanda og síðan er spurt á hvern hátt ályktun Alþingis frá 26. apríl 1990 um að draga úr ofbeldi í myndmiðlum hafi verið framfylgt.
    Mikilvægasta aðgerðin sem tengist efni þál. er endurskoðun laga nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum. Að þeirri endurskoðun hefur verið unnið um alllangt skeið og verkið er nú á lokastigi. Drög að frv. og greinargerð liggja fyrir og ég vænti þess að unnt verði að leggja málið fyrir Alþingi fljótlega eftir áramót. Nefndin sem vann að endurskoðun laganna hafði í starfi sínu m.a. hliðsjón af þál. þeirri sem hér var nefnd. Það er ekki tímabært að rekja efnisatriði væntanlegs frv. en það er stefnt að því að ný löggjöf verði heildstæður og traustur starfsgrundvöllur fyrir kvikmyndaeftirlitið.
    Það er að sjálfsögðu öllum ljóst að þótt sett séu skýr ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum og þótt bærilega takist að framfylgja slíku banni, sem er þó engan veginn vandkvæðalaust, er ekki þar með búið að reisa skorður við birtingu hvers konar ofbeldis í myndmiðlum og þá sérstaklega í sjónvarpi. Fáum mun koma til hugar að unnt sé að setja með stjórnvaldsboði þess háttar fyrirmæli um inntak frétta og fræðsluefnis í sjónvarpi að ofbeldi beri þar ekki fyrir augu áhorfenda. Sjálfsagt er þó að draga úr ofbeldi í myndmiðlum en því má ekki gleyma að til þess að draga úr ofbeldi þarf að vinna á mörgum vígstöðum samtímis. Þar fléttast margir þættir saman, svo sem aðbúnaður barna og uppeldishættir.
    Í greinargerð frá menntmrn. haustið 1990 var skýrt frá því að ráðuneytið hefði í tilefni af umræddri þál. leitað til Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um tillögugerð og kostnaðaráætlun um víðtæka könnun á útbreiðslu ofbeldis í myndmiðlum. Í slíka könnun hefur ekki enn verið ráðist á vegum ráðuneytisins en ég tel fulla ástæðu til að athuga að nýju möguleika á að til hennar verði efnt, ekki síst væri mikilsvert að fá trausta athugun á því hver þróunin er á þessu sviði, bæði að því er varðar eðli og umfang þess ofbeldisefnis sem sýnt er í helstu myndmiðlum.
    Það málefni sem við erum hér að ræða, ofbeldi í myndmiðlum og áhrif þess, ekki síst á unga áhorfendur, er svo sem kunnugt er ofarlega á baugi víða um lönd um þessar mundir eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi. Þannig hefur töluverð umræða átt sér stað í Bandaríkjunum auk þess sem talsvert hefur verið rannsakað þar í þeim efnum. Nýlega ákvað fjölmiðlaráðherra Frakklands að beita sér fyrir alþjóðlegum reglum til þess að stemma stigu við ofbeldi í sjónvarpi. Á fundi norrænna menningarmálaráðherra í Stokkhólmi í vikunni sem leið kom fram að þessi vandamál og viðbrögð við þeim eru til umfjöllunar með ýmsum hætti á Norðurlöndum. Í niðurstöðum athugunar sem nýlega fór fram á vegum norrænu forsætisráðherranna á hindrunum í vegi greiðra samskipta Norðurlandabúa er bent á að mismunandi aldursmörk sem gilda um aðgang barna að kvikmyndum í kvikmyndahúsum á Norðurlöndum torveldi dreifingu barna- og unglingamyndanna milli landanna. Það er lagt til að reglur um þessi efni verði samræmdar og komið á gagnkvæmri viðurkenningu á skoðunarniðurstöðu milli landanna. Þessar tillögur verða nú athugaðar á vegum menningamrálaráðherranna og teknar fyrir á næsta fundi þeirra. Ráðherrarnir létu í ljós áhyggjur á því ofbeldi sem birst hefur í fréttum af raunverulegum atburðum.
    Þá vil ég geta þess að viðræður eiga sér nú stað milli menntmrn. og könnunarfyrirtækisins Viðhorfs hf. um athugun á ofbeldi í myndmiðlum. Ákvörðun um hversu nákvæma innihalds- og tíðnigreiningu yrði að ræða mun liggja fyrir að þeim viðræðum loknum nú á allra næstu dögum væntanlega. Greining á fréttaflutningi með tilliti til ofbeldis yrði væntanlega einn þáttur í slíkri innihaldsgreiningu.