Ofbeldi í myndmiðlum

50. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:56:28 (2242)



[15:56]
     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. greið svör og ég fagna því að nú er í farvatningu

frv. og ég vona að það verði lagt fram sem fyrst og hljóti hér greiða framgöngu. Ég hef vissulega ekki séð það efnislega en ég geri ráð fyrir því að það muni vera bæði skoðað hér með opnum hug eins og þessi tillaga á sínum tíma og að menn taki einnig tillit til þeirrar umræðu sem síðan hefur verið og þeirra óvefengjanlegu vísbendinga sem hafa komið fram um það að ofbeldi í myndmiðlum hafi veruleg áhrif. Ég tek hins vegar undir það með hæstv. ráðherra að það er ekki nóg að draga úr ofbeldi í myndmiðlum þó að gott sé því það verður að hyggja að öllum aðbúnaði barna. Það er að sjálfsögðu ekki einangrað mál en þarna hefur a.m.k. verið bent á svo miklar vísbendingar um að ofbeldi í myndmiðlum hafi sérstaklega slæm áhrif á ofbeldi í samfélaginu, einkum á meðal barna og unglinga. Þetta eru óharðnaðir einstaklingar sem eru áhrifagjarnir og hafa e.t.v. ekki að miklu að snúa sér öðru heldur en vídeókvikmyndum og þessum gerviheimi sem þar er boðið upp á. Ég held að það verði að hyggja sérstaklega að þessu án þess að gera minni kröfur um góðan aðbúnað barna og fjölskyldna þeirra almennt, bæði heimila og skóla. [Fundarhlé. --- 15:59]