Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 14:52:13 (2262)


[14:52]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég hygg að það megi um það deila hvort ég hafi kveðið of fast að orði þegar ég taldi að hætta væri á að undirmálsmenn mundu vígjast til vissra starfa hjá þjóðkirkjunni í suma söfnuði ef prestssetursjarðirnar yrðu þar teknar burtu og seldar. Nú er það svo að það er setning sem er ekki uppfundin af mér ,,allan skrattann vígja þeir``. Þetta veit jafnvel hæstv. forseti að hefur verið notað sem málsháttur á Íslandi. Ég játa það að e.t.v. er það vegna minna kynna af einum ágætum sóknarpresti sem var afbragð annarra manna, bar þar ægishjálm yfir að mínu viti, að ég hef alltaf verið gagnrýninn á presta og staðið viss stuggur af því hve mikil gengisfelling hefur orðið í stéttinni. Gengisfellingin hefur orðið óhugnanleg. Sem betur fer, segi ég, voru launakjör presta leiðrétt með seinasta kjaradómi og vonandi verður það til þess að aðsókn manna í að sinna þessu verki muni aukast, þannig að ekki þurfi að taka hvern sem er og gera hann að sálnahirði, því sumir sem vígðir eru hafa ekki reynst menn til að sinna því starfi. Það er mitt mat.