Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:02:01 (2264)


[15:02]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann hefur veitt. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að hann hafi kannski látið það eiga sig að reyna að svara sumu af því sem hér kom fram og afgreiddi það með býsna einföldum hætti með því að segja að eitthvað væri strákslegt sem hér hefði verið sagt um tiltekin mál, m.a. af mér.
    Ég vil víkja aðeins að því sem fram hefur komið síðan ég talaði áðan, m.a. frá hæstv. ráðherra, en þó sérstaklega og fyrst kannski frá hæstv. forseta Alþingis. Ég er þeirrar skoðunar að um Þingvöll eigi að gilda sérstök regla. Ég er þeirrar skoðunar að íbúð þjóðgarðsvarðar á Þinvöllum sé ekki eins og hver annar embættisbústaður prests. Ég er þeirrar skoðunar að Þingvellir séu ekki eins og hvert annað svæði á Íslandi heldur skipi sérstöðu. Það eru fleiri þessarar skoðunar. Það er Alþingi líka með því að sett hafa verið sérstök lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum, skipuð hefur verið sérstök nefnd um hann, yfirstjórn hans og staðarins, og ég tel því að eðlilegt sé að gera kröfur til þess að um fundahöld á Þingvöllum, einnig í embættisbústað þjóðgarðsvarðar, gildi sérstakar reglur. Ég tel að það sé vanræksla okkar sem hér erum að hafa ekki stuðlað að því að þær reglur hafi verið settar fyrir löngu. Það að málið kemur hér til umræðu á Alþingi bendir til þess að a.m.k. eins og sakir standa sé engin sátt um þá skipan mála sem þar virðist vera í gildi að því er varðar fundahöld í Þingvallabænum.
    Í öðru lagi, virðulegi forseti, hljóta menn síðan að velta því fyrir sér hvort það eigi að gilda aðrar reglur um Þingvelli en aðra bústaði presta. Mér skildist það á hv. 1. þm. Norðurl. v. að hann teldi að það væri svo og ég get út af fyrir sig tekið undir það. En í þeim efnum verða menn einnig að lúta tilteknum reglum þar sem þeir eru þarna ekki í eigin húsnæði heldur í leiguhúsnæði á viðkomandi prestssetursjörðum eða prestssetrum sem þjóðin á. Þess vegna finnst mér að viðkvæmni forseta Alþingis við ummælum mínum hér áðan séu hin furðulegustu. Þar sem hún er ekki lengur í stól eða í salnum þá ætla ég ekki að segja mikið meira um það að sinni annað en þetta: Ég skora á hana og aðra þingmenn sem hafa hér um þetta mál að véla með einhverjum hætti, að beita sér fyrir því að það verði til reglur um það hvernig Þingvallabærinn er notaður, m.a. með tilliti til almennra fundahalda. Það dugar ekki að bera við skorti á samkomuhúsum í Þingvallasveit til þess að fullnægja þeim kröfum sem ég vil gera í þessu efni. Það er auðvitað víða skortur á samkomuhúsum og ef menn ætla að þræða þá röksemd upp á enda, þá eru menn komnir býsna langt frá hinu alvarlega efni og þeim kjarna málsins sem við erum hér að tala um. Þess vegna vísa ég gagnrýni hæstv. forseta Alþingis á mig í sambandi við þetta mál á bug og vænti þess að því verði komið til forsetans. Verði það ekki gert af neinum öðrum, þá mun ég gera það sjálfur.
    Í öðru lagi vek ég athygli á því sem fram kom í máli hv. 4. þm. Norðurl. v. að í frv. er gert ráð fyrir því að það verði samþykkt núna á þeim dögum sem eftir lifa fram að jólum, verði að lögum og taki gildi frá og með 1. jan. 1994. Ég endurtek spurninguna til hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra sem hann má út af fyrir sig, mín vegna, svara undir næsta dagskrárlið: Stenst þetta? Ég held að það standist ekki að hægt verði að afgreiða þetta sem lög.
    Varðandi stefnumörkunina í málinu, þá vil ég aðeins fara nokkrum orðum um hana. Ég er hlynntur því að kirkjan hafi sjálfstæði um sín mál. Ég var t.d. andvígur því í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar á sínum tíma að Alþingi ákveddi í einstökum atriðum hvernig ætti að koma fyrir námi og fræðslu í Skálholtsskóla. Mér fannst og finnst að það sé hlutverk kirkjunnar, svo lengi sem hún hefur með þann skóla að gera, að ráða því. Og það var hlustað á þessi sjónarmið. Niðurstaðan varð sú að þar er um að ræða núna opnari rammalöggjöf en upphaflega var áformað. Af þeim ástæðum er ég í grundvallaratriðum hlynntur því að yfirstjórn prestsbústaða t.d. og kirkjumálasjóðs, sem verður hér til umræðu á eftir, sé undir stjórn kirkjunnar í öllum meginatriðum. Auðvitað verður þar að fylgja reglum eins og gengur um opinbera sjóði, Ríkisendurskoðun endurskoði reglurnar eða sjóðinn, færslur o.s.frv. En ég er þeirrar skoðunar almennt að kirkjan eigi að fjalla um þessa hluti, hún eigi að ráða miklu um það. Þess vegna finnst mér sú prinsippumræða sem fór fram á kirkjuþingi síðast um stöðu ríkis og kirkju vera skynsamleg umræða og merkileg í raun og veru miðað við allar aðstæður.
    En hvað er þá kirkjan? Er hún biskupinn eða er hún söfnuðirnir eða er hún hvort tveggja? Og það sem hv. 2. þm. Vestf. var að finna að hér áðan var í raun og veru það að með þessum frumvörpum eins og þau líta út sé valdið að mjög litlu leyti flutt til yfirstjórnar þjóðkirkjunnar, þ.e. biskupsstofu. Hann taldi að þetta vald ætti að flytja til safnaðanna. Nú harma ég það að hv. þm. útfærði hugmyndir sínar ekki nákvæmlega í ræðu sinni, því að ég hefði haft gaman af því að heyra hvernig það er hægt í sambandi við mál eins og þau sem hér um ræðir og þó alveg sérstaklega í sambandi við frv. um kirkjumálasjóðina. Ég sé ekki það gangi almennilega upp að flytja það til safnaðanna í einstökum atriðum, en ég útiloka svo sem

ekkert í þeim efnum. Þannig að auðvitað er það alveg rétt hjá honum engu að síður að um leið og við tökum ákvörðun um að flytja þessi mál í vaxandi mæli yfir til kirkjunnar sjálfrar, þá hljótum við líka að spyrja þeirra spurninga: Hvað er kirkjan og hvernig er skipulagsmálum háttað innan hennar að því er varðar einstök efni?
    Ég vil að allra síðustu, virðulegi forseti, vekja athygli hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra og formanns allshn. á því að í þessu frv. segir hér í síðasta málslið 5. gr.:
    ,,Ákvæði húsaleigulaga og ábúðarlaga taka til réttarsambands aðila eftir því sem við getur átt.``
    Í lögum um húsaleigu, nr. 44/1979, og í síðari lagaákvæðum um húsaleigu, sem er í raun og veru vitnað til í þessari 5. gr., er alveg greinilega að finna ákvæði sem stangast á við þann skilning forseta Alþingis eða sumra annarra aðila sem hér hafa talað að það megi nota embættisbústaði af því tagi eins og mönnum sýnist. Þau ákvæði stangast á við ákvæði húsaleigulaga eins og þau eru í gildi í landinu. Þess vegna tel ég rangt ef menn ætla sér að viðhalda þessum skilningi sem uppi hefur verið að vitna til húsaleigulaga með þeim beina hætti sem hér er gert í 5. gr. þessa frv.