Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:11:52 (2266)


[15:11]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það kemur mér svo sem ekkert á óvart þó hv. 3. þm. Reykv. vilji ekki hafa opinberar reglur um Árna Johnsen, hv. 3. þm. Sunnl., enda yrði flókið að setja þær reglur. Það kemur mér ekkert á óvart þó hann lýsi þeim viðhorfum sem fram komu hjá honum áðan. Ég harma þau hins vegar þar sem hann er formaður Þingvallanefndar. Mér finnst það mjög slæmt að svona skuli vera haldið á málum af formanni Þingvallanefndar. En það er ekkert við því að gera á meðan hv. þm. gegnir því trúnaðarstarfi. En ég tel að það eigi að gilda um Þingvöll sérstakar reglur og það eigi ekki að halda þar fundi í húsnæði þjóðgarðsvarðar eftir geðþótta hver svo sem á þann geðþótta, einnig þó hann sé formaður Þingavallanefndar. Og ég bið menn um, sem gegna opinberum trúnaðarstörfum, að reyna stundum að skilja á milli þess að gegna pólitísku trúnaðarstarfi annars vegar og að vera í stjórnmálaflokki.