Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:41:14 (2275)


[15:41]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er ekki sammála hv. 5. þm. Suðurl. að öllu leyti. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga á því að frumvarpshöfundar hafa viljað styrkja kirkjuna og sú stefna held ég að sé af hinu góða. En það verður náttúrlega að gera það með lögum, það verður að gerast með eðlilegum hætti. 4. gr. þessa frv. eins og hún hljóðar, lagatextinn, stangast á við stjórnarskrá Íslands og 4. gr. samræmist ekki jarðarlögum. Það er ekki lagt til að breyta þeim í þessu frv. Hæstv. dóms- og kirkjumrh. hefur látið hafa sig til þess að flytja frv. sem hann hefur kannski ekki lesið. Þetta er stórgallað frv. og ég trúi því varla að hann hafi lesið það gaumgæfilega, en það hefði hann átt að gera áður en hann lagði það fram. Að selja þýðir það að láta af hendi eignarrétt gegn gjaldi.