Kirkjumálasjóður

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 15:43:06 (2277)

[15:43]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um kirkjumálasjóð en það er samtengt því frv. sem kom hér til umrræðu sem fyrsta mál á dagskrá um prestssetur en hvor tveggja frumvörpin fela í sér aukið sjálfstæði þjóðkirkjunnar á sviði stjórnsýslu og fjármála með því að yfirstjórn málaflokka þeirra sem frumvörpin taka til er færð frá stjórnarstofnunum ríkisins, svo og fjárveitingavaldi, til þjóðkirkjunnar. Jafnframt er fest í sessi sú lækkun ríkisútgjalda á sviði kirkjumála sem lögfest var á síðasta ári með setningu laga nr. 115/1992, um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Þeim lögum var aldrei ætlað að gilda nema til eins árs og þau fólu ekki neina breytingu á stjórnsýslu þjóðkirkjunnar í sér. Þessar breytingar raska hins vegar í engu þjóðkirkjufyrirkomulaginu sjálfu eins og áður hefur komið fram í umræðu um fyrsta dagskrármálið.
    Bæði frv. til laga um kirkjumálasjóð svo og frv. til laga um prestssetur byggjast á ákveðnum forsendum. Stjórnkerfi það sem frumvörpin mæla fyrir um er sniðið að núverandi stjórnkerfi þjóðkirkjunnar eins og við getur átt. Frumvörpunum er ætlað að vera rammalöggjöf. Einungis er tekið á helstu grundvallaratriðum en þjóðkirkjunni að öðru leyti veitt fullt sjálfstæði um stjórn málaflokkanna í öllum aðalatriðum. Þjóðkirkjan mun hafa sömu fjárhagslegu forsendur til að sinna málaflokkunum sem ríkið hafði. Höfð er hliðsjón af því að viðræður ríkis og kirkju standa yfir um framtíðarskipan kirkjueignar landsins.
    Ég skal þá víkja að einstökum ákvæðum þessa frv. en í 1. gr. er mælt fyrir um stofnun sérstaks sjóðs sem lagt er til að nefnist kirkjumálasjóður. Þá er mælt fyrir um tekjustofn sjóðsins í 2. gr. Tekjustofn kirkjumálasjóðs verður sambærilegur tekjustofn Jöfnunarsjóðs sókna. Unnt var að fara nokkrar leiðir til að mæla fyrir um tekjur sjóðsins. Sú leið sem farin er í frv. þessu er talin sú hentugasta fyrir alla aðila, m.a. vegna tiltölulega einfaldrar framkvæmdar og samsvörunar við tekjuöflun Jöfnunarsjóðs sókna.
    Í 3. gr. er mælt fyrir um að kirkjumálasjóður skuli skila prestssetrasjóði árlega fjárhæð sem ákveðin er með fastri krónutölu. Þetta er lágmarksfjárhæð sem tekur árlegum breytingum í samræmi við byggingarvísitölu. Stjórn kirkjumálasjóðs gæti hins vegar ákveðið að auka framlög til prestssetrasjóðs kysi hún svo. Ástæður þess að mælt er fyrir um fasta lágmarksfjárhæð eru einkum þær að öll áætlunargerð er auðveldari sem er mikilvægt atriði við umsýslu svona margra fasteigna en jafnframt er tryggt að framlag til eignanna rýrni ekki, a.m.k. ekki meðan formlegu eignarhaldi á þeim hefur ekki verið skipað til frambúðar.
    Þá eru talin upp viðfangsefni sjóðsins. Þau eru hin sömu og tiltekin eru í lögum um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins með þeirri viðbót að kirkjumálasjóður yfirtekur biskupsgarð. Ástæðan er m.a. sú að óeðlilegt þykir að undanskilja eina fasteign ef stefnt er að því að kirkjan yfirtaki stjórnsýslu annarra fasteigna.
    Þá er fjallað um stjórn sjóðsins og eftirlit með honum. Eins og áður hefur verið sagt er stefnt að því að stjórnkerfi frv. þessa og frv. til laga um prestssetur sé í samræmi við stjórnkerfi það sem fyrir er innan kirkjunnar. Ákvæði þetta á sér því samsvörun í lögum um sóknargjöld og Kristnisjóð.
    6. gr. mælir fyrir um hver fjárhæð kirkjugarðsgjalds verður að teknu tilliti til kostnaðar við málaflokka þá sem kirkjumálasjóður sinnir. Má vísa til athugasemda með lagafrv. að öðru leyti til nánari skýringa þar um. Þá er lagt til að lögum um kirkjuþing og kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju sé breytt á þann veg er greinir í ákvæðinu. Ástæður breytinganna eru þær að með því að kirkjumálasjóði ber að greiða kostnaðinn við kirkjuþing telst eðlilegt að kirkjuþing hafi meira um skipulag og starfshætti að segja. Þetta eru þó einungis minni háttar breytingar.
    Þá er lagt til að kirkjuþing geti sjálft gert aðra skipan á tíðni og lengd þinghalda. Áhersla skal lögð á að óbreytt skipan mála helst nema til komi sérstök breyting sem kirkjuþing gerir. Breyting þessi felur einungis í sér að vald kirkjuþings er aukið frá því sem nú er.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir breytingum á 14. gr. laganna á þann veg að fellt er brott ákvæði um hlutdeild ríkissjóðs og atbeina kirkjumálaráðherra við ákvörðun um greiðslu dagpeninga og ferðakostnaðar. Þess í stað er gert ráð fyrir að sérstök þingfararkaupsnefnd ákvarði þetta.
    Í þriðja lagi er lagt til að felldur verði brott 2. málsl. 17. gr. laga sem mælir fyrir um að kirkjumálaráðuneytið úrskurði reikninga kirkjuráðs sem greiddir eru úr ríkissjóði, þar á meðal framlagðan kostnað og dagpeninga.
    Ákvæði til bráðabirgða er sett til að tryggja með sanngjörnum hætti hagsmuni nemenda og starfsfólks söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar. Sama á við um fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Þá er mælt fyrir um að húseignin á Bergstaðastræti 75 í Reykjavík verði eign kirkjumálasjóðs við gildistöku laganna, sbr. 4. gr.
    Frú forseti. Ég hef þá í aðalatriðum gert grein fyrir efnisatriðum frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.