Meðferð og eftirlit sjávarafurða

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 16:31:41 (2284)


[16:31]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vona að það flokkist undir það að veita andsvar að vera sammála síðasta ræðumanni, en það er ég að því leyti til að ég tel að það væri æskilegt að kveða skýrar á um að það væri ekki verið að veita almenna undanþágu í 1. gr. heldur að skilgreina sérstaklega bræðslufiskinn þar sem hann er kveikjan að því að þeir eru að taka upp þessa grein á annað borð. En ég vil líka benda á að það þarf að fara fram meiri umræða almennt um það. Það er sí og æ verið að réttlæta slíkar breytingar með því að það geti komið fleiri tilvik. Það vantar hreinlega að fá dæmi til þess að réttlæta það að hafa þessa reglugerðarheimild svona opna. Ég hef ekki fengið skýr svör um það heldur bara gefið í skyn að þetta gæti verið gagnlegt og nýtilegt. Og ég vil fá að bæta þessu við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði en ég tek undir að það þyrfti að kveða þarna mun skýrar á og ekki hafa reglugerðarheimildina svona opna.