Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 16:55:05 (2287)


[16:55]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er greinilegt að í sjávarútvegsmálum er fleira en Fiskistofa undir steini. Hér er á ferðinni kunningi frá síðasta þingi og óbreyttur og þar af leiðandi hefur hann ekkert skánað.
    Það sem hér er í rauninni að koma í ljós er enn ein sönnunin um það að í orði a.m.k. töldu menn að það væri hægt að draga mörkin býsna skýrt inn á Evrópska efnahagssvæðinu á milli þess sem Íslendingar hafa kosið að halda utan samningssviðsins og þess sem samningssviðið nær til. M.a. hefur almenningi og þar með töldum þingmönnum jafnan verið talin trú um það að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið kæmi afskaplega lítið við sjávarútveg vegna okkar fyrirvara. En þetta frv. er lýsandi dæmi um að þetta er einfaldlega ekki rétt. Þetta stenst ekki, þar sem verslun með fisk er hluti af viðskiptum en ekki hluti af sjávarútvegi samkvæmt þessum skilgreiningum og þar af leiðandi er ekkert því til fyrirstöðu að erlendir aðilar komi með þessum hætti í okkar sjávarútveg. Þetta er að sjálfsögðu bara fullkomlega í takt við þær skuldbindingar sem við undirgengumst með samþykkt Evrópska efnahagssvæðisins á Alþingi. Það er út af fyrir sig ekkert við það að athuga vilji menn á annað borð fara inn á þetta svæði og hlíta þeim leikreglum sem þar eru. Það sem mér finnst fyrst og fremst ámælisvert er að það er sífellt verið að reyna að láta í veðri vaka að til séu ýmsar girðingar og ýmis mörk sem síðan eru að sjálfsögðu ekki til staðar.
    Í umræðunni á sl. ári reyndi hæstv. sjútvrh. sitt besta til þess að sýna okkur þingmönnum fram á það að þetta frv. væri ekki á nokkurn hátt til þess fallið að opna sjávarútveginn fyrir erlendum aðilum og til að mynda þá hefðum við möguleika á að halda óbreyttu álagi sem lagt er á útflutning á ferskum fiski og kemur til skerðingar á kvóta þeirra skipa sem flytja út.
    Ég á eftir að sjá það ef erlendir aðilar eru orðnir beinir aðilar að okkar verslun með fisk og uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla að þeir t.d. neyti ekki þess afls sem þeir hafa og þess svigrúms og möguleika sem þeir hafa til þess að fá þessu breytt. Þeir hafa jafnvel möguleika á að vísa á að þetta sé ekki í takt við leikreglur Evrópska efnahagssvæðisins. Það gengur illa að fá svör um nákvæmlega hversu mikil þessi áhætta er en ég held að hún sé til staðar og þar af leiðandi sé sí og æ verið að veita mönnum falskt öryggi sem mér finnst hreinlega ekki réttlætanlegt.
    Ég vil líka vekja athygli á því að flestir Íslendingar sem hafa á annað borð eitthvað fylgst með því hvernig mál ganga fyrir sig í íslenskum sjávarútvegi vita að þar hefur það fyrst og fremst gilt að vera í nógu öflugum þrýstihópi. Ég vil varpa þeirri spurningu fram hvort menn séu reiðubúnir til þess að takast á við þann þrýstihóp sem hugsanlega hefur margfalt afl á við fyrri þrýstihópa þegar erlendir aðilar koma inn. Það er mögulegt að sterkir erlendir aðilar hafi áhuga á okkar fiski, þetta er jú sú auðlind sem við höfum helst upp á að bjóða, það er sjávarútvegurinn, og það er mjög líklegt að erlendir aðilar sjái sér hag í að fara inn í þessa verslun og nýta þann farveg til þess að hafa áhrif í sjávarútvegsmálum almennt. Mér finnst það afskaplega skiljanlegt frá sjónarmiðum þeirra sem á annað borð vilja komast nálægt þessari verslun okkar og þessari auðlind okkar, því vissulega er þetta okkur dýrmæt auðlind.
    Þetta frv. er aðeins ein af mörgum sönnunum fyrir því hversu stórgötótt sú röksemdafærsla er og hefur alltaf verið sem segir að Íslendingar geti nánast sett allar þær hindranir og alla þá fyrirvara sem þeir sjálfir kjósa í sína eigin löggjöf. Það er annað vígi á málasviði hæstv. ráðherra að falla núna í nefndarstarfi þessa dagana og það eru hindranir sem til stóð að setja fyrir atvinnuréttindum manna með því að krefjast þess að menn í ýmsum störfum t.d. niðurlagningarmenn sjótjóna þyrftu að eiga lögheimili á Íslandi. Auðvitað stenst þetta ekki. Þetta er ein af þessum ýmiss konar lágu girðingum sem þó hefur verið talið að stætt væri á að setja. Það er það ekki. Það þýðir ekkert að vera að bera það á borð fyrir þá aðila sem gæta hagsmuna t.d. launþega hreyfingarinnar hér á landi að slíkar girðingar haldi. Það hefur aldrei verið raunhæft, er ekki raunhæft og mun ekki verða það. Ef við gerumst aðilar að ákveðnum samningi þá verðum við að sjálfsögðu að haga okkur í takt við það og ekki lifa í einhverjum óraunsæjum heimi um að við munum samt eftir sem áður stjórna öllu. Þannig ganga hlutirnir einfaldlega ekki fyrir sig en því miður tókst að slá ryki í augu einhverra aðila, ég veit ekki hversu margra, með alls konar þess háttar yfirlýsingum. Ég hygg að þingmenn hafi almennt haft aðstöðu til að kynna sér málin nógu vel til þess að vera ekki í þeirra hópi, en úti í samfélaginu hefur með röngum og villandi upplýsingum og kannski oftrú á einhverjar slíkar girðingar verið varpað ryki í augu ýmissa sem hafa verið að fylgjast með málinu og mér finnst það hreinlega mjög athugunarvert og afskaplega vont.
    Við sjáum það með þessu frv. að nú þarf að fara að krukka í lög sem áður hafa verið talin halda og hafa haldið vegna þess að við erum að fara inn í þessa aðlögun. Við höfum undirgengist þessa aðlögun og það munu sjálfsagt fylgja í kjölfarið ótal slík mál, vonandi ekki öll með sömu áhættu og mér sýnist hér vera á ferðinni. Við erum að horfast í augu við þær samþykktir sem við höfum gert og það er kannski vonum seinna.