Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:18:44 (2291)


[17:18]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 123, frá 28. des. 1989, um uppboðsmarkað fyrir sjávarafurðir, með síðari breytingum. Þetta er býsna merkilegt mál, eins og hér hefur komið fram, og það staðfestir að með samþykkt okkar á EES-samningnum þá virðumst við vera knúin til þess nú að breyta íslenskum lögum til þess að uppfylla þær samþykktir sem hér voru gerðar.
    Ég vil segja að ég varð fyrir sárum vonbrigðum að hæstv. sjútvrh. skuli sjá sig knúinn til þess að flytja þetta mál. Ég vil undirstrika það og biðja hæstv. ráðherra að gefa okkur skýringar á því hvað hinir vísustu menn hafi sagt honum um nauðsyn þess að þurfa að bera þetta mál hér inn á Alþingi.
    Ég hafði vonast til þess í lengstu lög, þegar þetta mál fór út af borðinu á síðasta þingi, að það mundi ekki koma hér inn aftur og menn næðu áttum í málinu. Því miður virðist það ekki vera.
    Í sjútvn. vænti ég þess að okkur gefist ráðrúm til að kalla aðila fyrir nefndina til að fá að skoða þetta mál í þaula vegna þess að hér er vissulega alvarlegt mál á ferðinni, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hér er sem sé verið að opna nokkurn veginn þráðbeina leið fyrir erlenda aðila til þess að komast inn í íslenskan sjávarútveg og það gerist fyrr heldur en menn ætluðu þegar þeir samþykktu EES-samninginn.
    Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ég skilji það ekki rétt að verði þetta samþykkt þá sé erlendum aðilum leiðin greið --- hæstv. ráðherra, þá sé erlendum aðilum leiðin greið til þess að gera tilboð í veiddan fisk úti á sjó eins og fiskmarkaðir hafa heimild til að gera í dag. Þeim sé sem sagt leyfilegt að kaupa þennan veidda fisk um borð í veiðiskipum úti á sjó og þar með er ráðstöfunarréttur þeirra á afla tryggður.
    Ég get ekki séð annað en með þessu sé verið að opna dyr og ekki bara upp á hálfa gátt, vel það, hæstv. ráðherra.
    Ég veit ekki hvort ég þarf að eyða fleiri orðum að þessu máli. Fyrir alla hugsandi menn skýrir frv. sig sjálft. Ég vil hins vegar trúa því að þegar málið kemur til kasta þingsins verði nógu margir þingmenn sem átti sig á því hvað hér er að gerast og sameinist um að reyna að koma vörnum við og stoppa framgang þess.
    Ég trúi ekki öðru --- ég tala ekki til alþýðuflokksmanna í þessum efnum, ég ber ekki mikið traust til þeirra í málinu, að þeir komi okkur til aðstoðar. En ég trúi því að svo margir séu til í Sjálfstfl. sem vilji koma til viðbótar við okkur sem í stjórnarandstöðunni stöndum að við fáum nægjanlegan liðsafla til að við getum stöðvað málið, hæstv. ráðherra, því hér er illt verk unnið.