Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:23:49 (2292)



[17:23]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það hefur verið að því spurt í umræðunni hvaða rök séu til þess að þetta frv. er flutt. Það er rétt að minna á að það hefur verið talið leiða af eignarréttarfyrirvaranum sjálfum sem við settum í EES-samningunum, að heimila yrði útlendingum eignaraðild að öðrum þáttum í íslensku atvinnulífi en þeim sem þar eru teknir fram. Það er svo rétt að rifja það upp fyrir hv. þingmönnum, ekki síst hv. 4. þm. Norðurl. e., sem sat í þeirri ríkisstjórn sem hóf EES-samningana og bar ábyrgð á því orðalagi sem er á eignarréttarfyrirvaranum eins og hann stendur í dag, samþykktur af Alþingi Íslendinga og Evrópubandalaginu. Því niðurstaðan í því máli var sú að það var fallist á eignarréttarfyrirvara eins og fyrrv. ríkisstjórn lagði til. Það hefur verið litið svo á að af þeim sökum væri nauðsynlegt að gera þessar breytingar á lögunum um uppboðsmarkaði.
    Ég get svo tekið undir það með hv. 1. þm. Austurl. að ég hygg að það mundi ekki leiða til neinna stórkostlegra breytinga þó að einhver erlend eignaraðild yrði að þessum fiskmörkuðum. En vegna óska hv. 1. þm. Austurl. um að fá allar nauðsynlegar upplýsingar og greinargerðir um þetta mál í meðferð hv. sjútvn. þá skal ég beita mér fyrir því að allar nauðsynlegar upplýsingar sem eftir verður leitað og þær greinargerðir sem fyrir hendi eru verði lagðar fyrir nefndina, þannig að hún geti fjallað ítarlega um málið og komist að niðurstöðu á málefnalegum grundvelli. Það er meira en sjálfsagt að afla þeirra upplýsinga og eðlilegt að til þess séu gerðar kröfur að nefndin fari vandlega yfir þetta mál eins og önnur sem fjalla um jafnviðkvæm svið. Það er auðvitað ekkert hægt að draga fjöður yfir það að þetta er hluti af íslenskum sjávarútvegi og við höfum borið gæfu til þess að fylgja einni línu í þeim efnum á Alþingi, að takmarka í þessum samningum við Evrópubandalagið rétt útlendinga til þess að fjárfesta í útgerð og fiskvinnslu, vegna þess að við ætlum að ráða yfir okkar auðlind sjálfir. En ég mun beita mér fyrir því að nefndin fái þær upplýsingar og það ráðrúm sem nauðsynlegt er til þess að fjalla um málið.