Kirkjumálasjóður

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 17:53:58 (2302)


[17:53]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mun leitast við að svara fyrirspurn hv. 8. þm. Reykn. sem er eðli málsins samkvæmt mikill áhugamaður um kirkju, kirkjusiði og siðbót yfirleitt, eins og alþjóð er kunnugt. ( Gripið fram í: Eins og sá sem stendur í ræðustólnum núna.) Já, eins og nafn þess sem í ræðustólnum stendur bendir frekar til, mundi ég segja, en það er kannski aukaatriði málsins.
    Ég vil fyrst geta þess að fyrr á þessu ári, nánar tiltekið 18. febr., svaraði ég fyrirspurn frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Sú fyrirspurn var einmitt um það hve ríkissjóður greiddi mikið vegna þinghalds eða funda ýmssa starfsstétta á sl. 4 árum. Í svari mínu sem má finna í þingtíðindum segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ef litið er hins vegar á kirkjuþing og prestastefnu, þá lítur dæmið út með þessum hætti: Kirkjuþing kostaði 1989 2,6 millj., 1990 3,4 millj., 1991 3,8 millj. og 3,7 millj. 1992.``
    Eins og sést á svarinu þá greiddi ríkissjóður þessa fjármuni á sínum tíma. Upphæðin er á núvirði í kringum 4 millj. kr. Ef ég skil rétt það frv. sem hér er til umræðu, frv. til laga um kirkjumálasjóð, þá fjallar það um það að kirkjumálasjóður, sem verður algerlega á vegum þjóðkirkjunnar, mun standa straum af ýmsum kostnaði sem hingað til hefur verið greiddur af ríkissjóði, þar á meðal þessum kostnaði sem hv. þm. vitnaði til og er að finna í 2. tölul. 6. gr. frv. Þess vegna er um það að ræða að kirkjuþing ber sjálft ábyrgð á ákvörðun sinni og kirkjan greiðir reikninginn sem er nýnæmi. Það má auðvitað halda þeirri skoðun fram að eðlilegt sé að fjmrn. sé ákaflega voldugt, veraldlegt ráðuneyti, eins og hv. þm. þekkir sem er fyrrv. fjmrh., og þess vegna ætti hið veraldlega vald að fylgjast með hinu geistlega og setja skorður með einhverjum hætti. Mér sýnist hins vegar, ef ég skil þetta frv. sem hér er til umræðu rétt, að þá sé kannski enn frekar ástæða til þess nú en áður að kirkjuþing sjálft geti ákveðið þessar greiðslur. Ég vonast hins vegar til þess,, m.a. vegna þeirrar umræðu sem hér hefur fari fram, að kirkjuþing hagi ákvörðun sinni með þeim hætti að greiðslur til þeirra sem kirkjuþing sækja verði ekki langt frá þeim greiðslum sem hingað til hafa verið bornar upp af ríkissjóði.

    Þess skal getið, virðulegi forseti, að ríkið hefur til skamms tíma borgað fyrir ýmsar starfsstéttir eins og sýslumenn, sem reyndar er með ákveðnum reglum og í kjörum þeirra, fulltrúa af fiskiþingi og í svari mínu kom fram að búnaðarþingsfulltrúum er greitt af hinum félagslega þætti starfsemi Búnaðarfélagsins en ekki beint úr ríkissjóði, en allir vita að Búnaðarfélagið fær verulegan hluta af sínu rekstrarfé beint úr ríkissjóði. Þetta er auðvitað mál sem er eðlilegt að sé fjallað um á hinu háa Alþingi. En mér sýnist að eftir að sú breyting á sér stað sem gert er ráð fyrir í þessu frv. sé frekar en nokkurn tíma áður hægt að sætta sig við að kirkjuþing taki ákvörðun á borð við þessa, enda mun kirkjan sjálf þurfa að borga brúsann því að nú sér hún um ýmsan kostnað með aðstoð þessa sjóðs, kirkjumálasjóðs, kostnað sem áður féll beint á ríkissjóð.