Samkeppnislög

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 18:12:19 (2308)


[18:12]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni nokkuð sérkennilegt mál sem á sérstakan aðdraganda. Það var nú svo að efh.- og viðskn. lagði gríðarlega mikla vinnu í hin nýju samkeppnislög. Það var ekki að ástæðulausu sem sú lagagrein sem hér er verið að gera breytingar á var orðuð á þann hátt sem raun ber vitni í sjálfum lögunum, þ.e. það ákvæði sem nú á að fella niður, þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Þeir sem sitja í ráðinu skulu vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til.``
    Það var með ráðum gert að hafa þetta svona til að undirstrika hve mikilvægt þetta ráð er og hve mikilvægt það er að þeir sem til þess þurfa að leita geti treyst því að þar sé haldið á málum af hlutleysi. Hins vegar verður að segjast eins og er að þegar álit umboðsmanns Alþingis kom fram þá vakti það nokkuð mikla furðu. Ekki það að tveir þeirra sem álitnir voru óhæfir skyldu vera það, enda hafði verið bent á það á hinu háa Alþingi að skipun þáv. hæstv. viðskrh. væri afar sérkennileg, heldur var það fyrst og fremst sú túlkun umboðsmannsins að starfandi lögfræðingar hér í bæ væru óhæfir til setu í ráðinu. Ég held að flestir sem hafa látið álit sitt í ljós á þessu séu þeirrar skoðunar að þarna sé gengið ansi langt í túlkun. En umboðsmaður Alþingis hefur að sjálfsögðu mikið til síns máls og það verður að taka mark á hans áliti og því er þessi breyting lögð til. En það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli hvernig henni verður svo fylgt eftir, að þess verði gætt að samkeppnisráðið sé hlutlaust, eins og lögin í rauninni gera ráð fyrir og að í því sitji hæft fólk sem hefur þá stöðu að geta lagt hlutlaust mat á þau mál sem til þess koma. Þannig að þetta er engan veginn einfalt mál.
    Við þurfum líka að taka mið af því að um næstu áramót ganga hin nýju stjórnsýslulög í gildi þar sem kveðið er á um hæfi þeirra sem sitja m.a. í ráðum og nefndum á vegum ríkisins og þarna þarf að vera samræmi á milli. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvernig hann hyggist halda á þessum málum verði þessi breyting samþykkt hér, því okkur sem eigum sæti í hv. efh.- og viðskn. þótti skipan fyrrv. viðskrh. afar sérkennileg, vegna þess að það var svo augljóst að þar var um hagsmunaárekstra að ræða þar sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins var skipaður í nefndina. Þó því væri borið við að hann persónulega væri þarna settur, þá var það auðvitað augljóst að hans staða var og er með þeim hætti að hann átti ekki heima í ráðinu og sama gilti um annan nefndarmann sem tengist mjög verkalýðshreyfingunni. Menn þurfa að gæta sín svolítið á þessum arfi að það þurfi að skipa fulltrúa ASÍ og VSÍ í allar þær nefndir sem starfandi eru. Það er auðvitað langt í frá og lögunum var einmitt breytt til þess að sú skipan héldist ekki áfram að aðilar vinnumarkaðarins ættu sæti í nefndinni, heldur fyrst og fremst hlutlausir aðilar eins og ég hef margnefnt.
    Fyrst þessi lög eru komin til umræðu og sú breyting sem hér er verið að leggja til, þá vil ég gjarnan nota tækifærið og beina nokkrum spurningum til hæstv. viðskrh. Eins og ég nefndi áðan var lögð gríðarleg vinna í þetta frv. og ég harma það enn að geta ekki stutt þetta mál vegna þess kafla sem er að finna í lögunum og fjallar um Evrópska efnahagssvæðið og samskiptamálin á því svæði, vegna þess að að öðru leyti tel ég að hér sé um mjög góð lög að ræða. En mig langar að forvitnast um það hjá hæstv. viðskrh. hvernig þessi lög hafa reynst það sem af er. Hafa komið fram einhverjir fleiri annmarkar á þeim? Hvað hefur gerst hjá hinni nýju Samkeppnisstofnun með þeim breytingum lögin fólu í sér? Hefur verkefnum stofnunarinnar fjölgað eða hefur þeim fækkað miðað við það sem gerðist hjá Verðlagsstofnun? Hefur eðli

erindanna breyst að einhverju leyti eða hefur stofnunin nýtt sér víðtækara hlutverk? Mér hafa t.d. borist í hendur bæklingar frá Samkeppnisstofnun. Ég minnist þess ekki að hafa séð mikið prentað efni frá Verðlagsstofnun á sínum tíma og þarna er Samkeppnisstofnun að sinna því hlutverki sínu að fræða almenning um hin nýju lög og það sem fram undan er á hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Mig langar líka að spyrja um áfrýjunarnefndina. Er hún tekin til starfa? Hafa henni borist erindi? Hefur reynt á þann hluta laganna?
    Eins með auglýsinganefndina sem lögin gera ráð fyrir, hefur reynt á hennar starf? Því þarna var auðvitað verið að breyta skipulagi og er afar forvitnilegt að fá að heyra um það hvernig til hefur tekist.
    Við í efh.- og viðskn. munum væntanlega kalla á fulltrúa Samkeppnisstofnunar þegar við förum að fjalla um þetta mál, því það er sjálfsagt að nota tækifærið og kippa þá öðru í liðinn ef eitthvað hefur komið í ljós sem þyrfti að breyta.
    Að lokum, virðulegi forseti, eins og ég hef nefnt þá leiddi álit umboðsmanns Alþingis í ljós að það þurfti að taka á þessu máli en það er auðvitað spurning hvernig þessu ákvæði verður fylgt eftir og hvernig menn túlka þessa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og hvernig það verður tryggt að hlutlausir aðilar sitji í ráðinu ef það er ekki beinlínis tekið fram í lögunum. En það má kannski segja að hin upprunalegu lög og greinargerð með þeim túlka auðvitað þann vilja löggjafans að hins fyllsta hlutleysis sé gætt sem er að mínum dómi afar mikilvægt í þessum málum.