Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 20:47:46 (2319)


[20:47]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var enginn sem sagði að þetta eða hitt yrði gert. Það var einungis sagt og bent á að ríkið væri að borga út bætur til þeirra sem skulduðu meðlög og ég spurði: Er það eðlilegt? Ég sagði hins vegar, og ég veit að hv. þm. tók eftir því að það væri hlutverk ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar að finna viðunandi lausn á þessu máli og benti á í því sambandi að það kæmi vel til greina að nota skattalegri aðferðir til þess en hingað til hafa verið notaðar. En eins og allir vita hafa menn heykst á því að beita innheimtuúrræðum sem notuð eru til að mynda þegar skattur er innheimtur. Ég ætla hér ekki að fara að nefna til hver verður niðurstaðan af þessari vinnu. Ég bendi einungis á að ríkið hefur skuldbundið sig gagnvart sveitarfélögunum til þess að finna viðunandi lausn á þessu mjög svo mikilvæga máli.