Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:08:52 (2322)


[21:08]
     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er það rangt hjá hæstv. fjmrh. að hæstaréttardómarar hafi á þessu ári fengið greitt samkvæmt gömlum dómi. Þeir hafa fengið greitt samkvæmt sinni eigin túlkun á þeim dómi. Það er hvergi til skrifað af hálfu Kjaradóms að það eigi að greiða hæstaréttardómurum þessa yfirvinnu sem þeim hefur verið greidd og ég skora á hæstv. fjmrh. að leggja fram þann skriflega texta frá Kjaradómi. Það vita allir í þessum sal að það voru hæstaréttardómararnir sjálfir sem tóku eigið frumkvæði og skrifuðu forsrh. og sögðu: ,,Við lesum það inn í dóminn að við eigum að fá þetta.`` Dómurinn hafði ekki sagt orð um það að hæstaréttardómarar ættu að fá 100 þús. kr. á mánuði í yfirvinnu. Ekki orð. Kjaradómur talar fyrst um málið nú fyrir nokkrum vikum síðan og þá er niðurstaðan skýr. Hún er sú að þær sjálftökugreiðslur sem hæstaréttardómararnir úrskurðuðu sjálfir sjálfum sér til handa séu allt of háar. Það er það sem Kjaradómur hefur sagt. Þær eru meira að segja svo háar að heildarlaunagreiðslan verður þá að lækka um rúm 30% núna um áramótin.
    Ef það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að þessar 13 millj. eigi að dekka eitt og hálft ár, þá er alveg ljóst að þá vantar enn meira upp á að ríkissjóður hafi heimild til að borga þá yfirvinnu sem hann er að borga í ár til hæstaréttardómara heldur en farið er fram á hér í þessu fjáraukalagafrv. þannig að þá verður hæstv. fjmrh. að hækka þessar 13 millj. upp í tæpar 20 ef hann ætlar að nota þessar 13 millj. á þann hátt sem hann er hér að lýsa.
    Ástæðan fyrir því að Þór Vilhjálmsson tók ekki þessa yfirvinnu var einfaldlega sú að þriðjunginn af árinu var hann ekkert að vinna í Hæstarétti. Það hefði nú verið til að bíta höfuðið af skömminni ef hann hefði líka farið að taka yfirvinnu þegar hann var að vinna í Mannréttindadómstól Evrópu.