Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:11:02 (2323)


[21:11]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það þýðir fyrir mig að koma upp aftur og reyna að skýra þetta út. En gamli dómurinn sem ég átti við er auðvitað síðari kjaradómur fyrrv. Kjaradóms áður en lögunum var breytt, þ.e. dómur sem féll sumarið 1992. Þeir sem nenna að lesa forsendur dómsins sjá auðvitað að þær eru misjafnar því að í þeim fyrri, sem hækkaði laun hæstaréttardómara verulega, er sagt að þessi laun sem þar eru tildæmd eigi að duga fyrir öllum launum, en sú klausa er felld út í forsendum síðari dómsins en þar tekið fram sérstaklega að ef um yfirvinnu sé að ræða, þá eigi hún að borgast með tilteknum hætti. Þannig túlkaði síðan Hæstiréttur forsendur dómsins.
    Nýi kjaradómurinn víkur örlítið frá gamla dómnum eins og Hæstiréttur túlkaði hann, um nokkur prósent og það verða að sjálfsögðu gerðar leiðréttingar á fjárlögum næsta árs til þess að lækka þá tölu sem er 41,2 millj. eða svo á næsta ári niður í það sem Kjaradómur hefur úrskurðað. En ég held að misskilningur hv. þm. hljóti að liggja í því að þeir fjármunir sem eru í fjáraukalagafrv. eru í raun fjármunir sem eru fyrir eitt og hálft ár en ekki eitt ár. Ég tel að þeir fjármunir dugi vel og ef þeim verður ekki ráðstafað samkvæmt því sem Kjaradómur hefur nú ákvarðað fyrir síðari hluta ársins, og eins og þeir hafa sjálfir sótt um fyrir fyrri hluta ársins, þá mun það standa út af og að sjálfsögðu ekki verða greitt út þar frekar en annars staðar þegar um það sama er að ræða.