Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:26:53 (2326)


[21:26]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Frv. það til fjáraukalaga sem hér er flutt er ærið umhugsunarefni vegna þess að nú er ekki um það að ræða að verðbólgan hafi skekkt áætlanir embættismanna. Nú er um það að ræða að sá blákaldi veruleiki blasir við að fjárlög hæstv. fjmrh. standast ekki. Þessi staðreynd gerir það að verkum að skuldasöfnun íslenska ríkisins vex með ævintýralegum hraða. Ég hygg að hæstv. fjmrh. hafi verið með glöðustu ráðherrum í þeirra hópi þegar hann hóf sinn ræðuflutning fyrir sínum fjárlögum og boðaði nýja og betri tíma. Hann boðaði nýja og betri tíma. Ég veit ekki hvort það var skilyrðið fyrir því að hann fengi að vera fjmrh. að hann ræki ríkissjóð með stórkostlegum halla. Ég minnist þess aftur á móti að Sjálfstfl. var ekki sáttur við þann fjmrh. sem seinast skilaði hallalausum fjárlögum úr hópi sjálfstæðismanna. Sá fékk nú heldur betur á baukinn. E.t.v. er það skilyrðið fyrir því að núverandi ráðherra yrði gerður að fjmrh. að hann yrði hæfilega eftirgefanlegur, hæfilega mjúkur, hæfilega hlynntur því að flytja hér tillögur um kolvitlaus fjárlög eins og hann er búinn að gera á undanförnum árum.
    Ég veit heldur ekki hvort það hefur verið gert samkomulag við Ríkisendurskoðun um það að þegar hann þyrfti á því að halda, þá fengi hann stimpluð blöð þaðan sem boðuðu allt aðrar niðurstöður en sérhver viti borinn maður gat komist að með því að meta þau frumvörp sem hér var verið að fjalla um. Og einn af þeim sem dró hæstv. fjmrh. á asnaeyrunum var hæstv. heilbrrh. þegar hann flutti brtt. við almannatryggingalögin og boðaði að að það væri hægt að hækka barnsmeðlög um 36% og að þetta mundi allt saman innheimtast. Þetta var sem sagt liður hæstv. heilbrrh. í því að koma á sparnaði hjá ríkissjóði.
    Auðvitað stóðst þetta ekki. Ég minnist þess að í umræðu um það frv. töluðum við Svavar Gestsson, hv. 9. þm. Reykv., nokkuð strítt. Við efuðum að þetta mundi eftir ganga að þeir næðu þessum peningum. Að vísu hefur bjartsýni hæstv. fjmrh. enn aukist og nú boðar hann það að í gegnum virðisaukaskattinn eigi að ná þessum peningum inn. Það er fróðlegt. Ætli það verði ekki nokkuð margir sem breytast þá bara snögglega í hf. með sinn rekstur? Og það verður fróðlegt að vita hvort hf. verður samþykkt sem barnsfeður á Íslandi í hlutafjárvæðingunni miklu. Það verður gaman að sjá hvernig hann reiknar það út þegar einstaklingurinn breytir rekstrinum úr einkarekstri, eins og er nú boðað það æðsta og besta, yfir í félagsrekstur með hf., hvort þá verður tekið af virðisaukaskattinum.
    Þá kemur næsta atriðið, það merkilega, það eru örorkubæturnar, en þá erum við komnir í annað mál sem er ekki efnilegra og það er 70. gr. stjórnarskrárinnar. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Sá skal eiga rétt á styrk úr almennum sjóði, sem eigi fær séð fyrir sér og sínum, og sé eigi öðrum skylt

að framfæra hann, en þá skal hann vera skyldum þeim háður, sem lög áskilja.``
    Það verður sem sagt að flytja breytingu á stjórnarskránni til að ná þessum áformum fram. Það er eini möguleikinn, fella út 70. gr. Þá komum við aftur á móti að því hvort þessir blessaðir samningar, mannréttindasamningar sem við höfum verið að skrifa undir, hvort þeir halda þá ekki og rugla enn kerfið. En það var ekki nóg með það að við sætum undir brigslyrðum hér í þingsölum út af okkar athugasemdum um það að þessir peningar mundu aldrei innheimtast og þeir mundu lenda á Jöfnunarsjóði. Einhver ritfærasti penni á Morgunblaðinu var sendur fram í fullum herklæðum með heilsíðubleksvertu til þess að boða það að það væri ekki skrýtið þó það gengi illa hjá ríkissjóði þegar meðlagspabbarnir væru farnir að berjast gegn þessu hér í þingsölum. Það gekk svo langt að ég varð að fá vottorð frá Innheimtustofnun sveitarfélaga um að ég væri alveg saklaus af því að vera greiðandi að meðlögum eða að ég skuldaði þar nokkra krónu til að sýna mönnum eftir að þessi stóri ritsnillingur hafði farið á kostum á síðum Morgunblaðsins. Ég veit ekki hvort það er greitt sérstaklega fyrir svona greinar af almannatryggingunum ofan á eðlileg laun hjá Morgunblaðinu. En mikið mega þeir menn vera hamingjusamir sem hafa á að skipa slíku liði til að senda fram á ritvöllinn með svívirðingar þegar eðlilegur málflutningur dugar ekki.
    Ég verð að minna á það að 71. gr. stjórnarskrár Íslands, með leyfi forseta, þrengir líka stöðu hæstv. fjmrh. í þessum efnum. Hún hljóðar svo:
    ,,Hafi foreldrar eigi efni á að fræða sjálf börn sín eða séu börnin munaðarlaus og öeigar, er skylt að sjá þeim fyrir uppfræðingu og framfæri af almannafé.``
    Það liggur alveg ljóst fyrir að það er stjórnarskrárbundin skylda að sjá til þess að þeir sem hafa forræði barnanna fái þessa peninga. Það er ekkert sem heitir, það er stjórnarskrárbundin skylda. Þá komum við bara að þessari merkilegu staðreynd að í sumum tilfellum getur mönnum dottið það í hug, eins og kom hér fram núna hjá hæstv. fjmrh. og kom fram hjá hæstv. heilbrrh. á sínum tíma, að það væri gjörsamlega siðlaust ef það gerðist að íslenska ríkið þyrfti að borga með börnum sem hér væru að alast upp. Þá væru skattborgarar sem væru að ala upp sín börn einnig að greiða með þessum börnum. Gjörsamlega siðlaust.
    En hvernig skyldi nú ástandið vera með þessi lög? Ef kona eignast barn t.d. með Ástralíubúa, hverjir borga þá meðlagið með þessum börnum? Ætli hæstv. fjmrh. sé þá ekki orðinn meðlagsgreiðandi í gegnum skattana með þessum börnum? Ég veit ekki betur. Og hvaða mannréttindi eru það þá að leggja það á hann að greiða meðlag með þessum börnum ef það er svona siðlaust?
    Séu þessi mál skoðuð í einhverju raunhæfu samhengi, þá er það staðreynd að það eru þrír aðilar sem hafa staðið að framfærslunni undir þessum kringumstæðum. Það er móðir barnsins, það er faðir barnsins og það er íslenska ríkið, þ.e. ef móðir eða faðir hefur verið á lífi. Og ég verð að halda því fram alveg hiklaust að ég er hlynntur því að íslenska ríkið taki þátt í þessu verkefni að ala upp Íslendinga, tryggja þeim eðlilega lífsmöguleika á æskuárum. Hvaða verkefni er yfir höfuð merkilegra fyrir íslenska þjóð en að standa sómasamlega að slíku?
    Mig undrar það í sjálfu sér ekki að hæstv. fjmrh. þurfi að koma hér og leggja fram tillögu um 250 millj. Mig undrar það ekki. En ég spyr sjálfan mig, hvers vegna fékk hann ekki hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh., Sighvat Björgvinsson til að vera meðflm. að tillögunni? Það hefði nú verið stuðningur að því að hafa svona stóran mann hérna hinum megin sem stuðningsmann að því að koma þessu í gegnum þingið. Er ekki eðlilegt þegar það kemur í ljós að hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur blekkt fjmrh. við afgreiðslu fjárlaganna í fyrra svona snilldarlega að hann hefur haft af honum 250 millj., er ekki eðlilegt að hann þurfi að standa fyrir máli sínu? Er það nóg að lífvörður í Morgunblaðinu skrifi eina heilsíðugrein með svívirðingum um þá sem báru það á ráðherrann á sínum tíma að hann færi með blekkingar hér í þinginu? Er það nóg? Eigum við kannski von á nýrri svívirðingagrein núna á næstunni af hendi sama blaðamanns í Morgunblaðinu? Nei, það er nefnilega hægt að standa að svona blekkingum einu sinni. En það hlýtur að koma fram hvað verið er að gera því að sannleikurinn kemur fram. Og spilaborgirnar sem byggðar voru um sparnað með þessum hætti eru núna að verða snörur um háls ráðherrans sem herðast að. Það er nefnilega ekki lengur hægt að nota gömlu ræðurnar sem voru notaðar til að tala fyrir fjárlögunum þegar allt átti að vera fullkomið, hallinn átti ekki að vera neinn þegar milljarðahallinn dynur á hæstv. ráðherra.
    En kratarnir fóru í endurnýjun. Þeir fóru í nokkurs konar rúsíbana með sína ráðherra. Sumir voru algerlega úreltir eins og þegar verið er að tala um fiskiskipin og sendir út úr ríkisstjórninni, burt úr þinginu, skipt um, ( Gripið fram í: Og úr landi.) og úr landi jafnvel. En hvað gerðist hjá samstarfsflokknum, Sjálfstfl.? Engin endurnýjun, engin úrelding. Allir stóðu sig svo vel. Það var sem sagt niðurstaðan: Fjmrh. á að sjá til þess að ríkishallinn upp á hvert einasta ár meðan hann situr í stólnum verði minnst 10 milljarðar. Það er stefna núverandi stjórnar. Það er ekki skrýtið þó að þessir aðilar trúi því að þeir séu að gera stórkostlega hluti fyrir íslenska þjóð.
    Engu að síður ber að fagna því að það er lagt fram frv. til fjáraukalaga. Það ber að fagna því að þannig er þó staðið að verki í dag að ráðherrann er neyddur til þess á sama ári og fjárlögin eru framkvæmd að gera grein fyrir því hvað hann var að blekkja þjóðina þegar hann flutti fjárlagafrv. á sínum tíma. Það er ekki hægt að fela þetta eins og gert var áður og koma svo með ríkisreikning eftir nokkur ár þar sem sannleikurinn kom í ljós. Að þeirri siðbót stóð Alþingi Íslendinga og þáv. fjmrh., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, á sinn þátt í því að sú regla komst á. Fyrir það mun ég ávallt virða hans fjármálastjórn þó að ég hafi ekki verið sáttur við sumt sem gerðist í ráðuneytinu þá frekar en endranær. ( SvG.: En kennaraskólahúsið?) Hér spyr syndaselur um kennaraskólahúsið. Það gerðist nefnilega þá eins og stundum áður að ráðherrar komust í svo mikið hátíðarskap, urðu svo gjafmildir að eigin eigur dugðu alls ekki fyrir þeim ásetningi um gjafmildi sem hafði sótt á þá. Þeir urðu að taka sig til og gefa opinbert fé. Sumir voru náttúrlega komnir það hátt upp að heilu húsin fuku í gjafapappír inn til einhverra annarra aðila undir þeim kringumstæðum. Gamla kennaraskólahúsið, sem ég taldi að ætti að verða safnhús fyrir sögu kennaramenntunarinnar á Íslandi og hefði sómað sér vel sem slíkt, var gefið Kennarasambandi Íslands. Ég veit ekki hvað hv. þm. Svavar Gestsson fékk að launum, en honum var það mikið mál að þetta yrði framkvæmt. ( Gripið fram í.)
    Ég hygg, herra forseti, að þar sem hæstv. fjmrh. er nú genginn úr salnum ( Fjmrh.: Hann er hér.) að vissrar iðrunar gæti. Það er nú svo að menn vilja stundum ekki vera á almannafæri þegar þeir skammast sín hvað mest heldur leita frekar skjóls og afdreps og það er skiljanlegt. En það þarf mikinn kjark til að sitja í stól fjmrh. með 14 milljarða halla og hafa það staðfest að það hafi ekki verið þörf á neinni róteringu á ráðherrum hjá Sjálfstfl. Annaðhvort hefur niðurstaðan verið sú að hæstv. fjmrh. hefur verið talinn óhæfur til að setja hann í önnur ráðherraembætti eða þá að niðurstaða Sjálfstfl. hefur verið sú að þeir ættu engan hæfan mann í þennan stól. Engan hæfan mann. Þeir áttu einu sinni fjmrh. sem tók sig til strax eftir jól og fór að tala um gatið í fjárlögunum. Hann fór að tala um gatið í fjárlögunum og hann hélt áfram að tala um gatið í fjárlögunum. Það fóru allir að tala um gatið í fjárlögunum. Þá breytti hann umræðuefninu og fór að tala um að það yrði að fylla upp í gatið í fjárlögunum. Það yrði að fylla upp í gatið í fjárlögunum og það yrði að fara að skera niður. Það tóku allir undir þetta. Og niðurstaðan varð sú að það var fyllt upp í gatið í fjárlögunum og það voru afgreidd hallalaus fjárlög. Slíkt hefur Sjálfstfl. ekki áhuga á að gerist aftur. Sporin hræða. Núv. fjmrh. hefur ekki hugsað sér að taka á sig slíka pólitíska erfiðleika að standa að slíku. Hann veit hvað það getur kostað. Það er þung refsing við slíku innan Sjálfstfl.