Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:46:51 (2328)


[21:46]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Viðurkenningarorð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar þakka ég honum að sjálfsögðu. Efnisleg athugasemd mín er á þann veg að hér er um tvö aðgreind mál að ræða. Fyrra málið er það hvort taka eigi það upp sem reglu að gefa það sem menn eiga ekki. Mér er ljóst að það er útgjaldalítið. Það er aftur á móti mjög merkilegt ef fyrrv. fjmrh. boðar að nú skuli taka upp þá reglu að menn skuli gefa það sem þeir eiga ekki. Það er í samræmi við það sem hæstv. dómsmrh. talaði um hér fyrir frv. í dag, að nú ættu þeir að selja eignir sem ekki ættu þær því að eignaskipunin átti að vera sú sama en heimildin til að selja átti að færast á hendur annarra. Það vona ég að hv. þm. Ólafur Ragnar geri sér grein fyrir að það gengur hvorki á Seltjarnarnesinu, í Reykjavík né annars staðar að taka almennt upp þá reglu að menn eigi að gefa það sem þeir eiga ekki.
    Hitt atriðið hvort það hafi verið vel eða illa ráðið að gefa Kennarasambandinu þetta hús, það kallar líka á aðra spurningu og það er spurningin um það: Hvað eru mörg stéttarfélög á Íslandi? Hvað skyldu stéttarfélögin vera mörg? Hvað skyldu þau oft eiga afmæli og hvað skyldu mörg hús svífa út í gjafapökkum á hverju ári ef þessi regla væri upp tekin miðað við það að sá sem sæti í stól menntmrh. eða öðrum stólum væri álíka mikill atorkumaður og hv. þm. Svavar Gestsson vissulega er? Hann er snöggur í snúningum ef því er að skipta. Ég gæti trúað því að það yrði þó nokkur bunki af húsum sem færi. Ég efa það að þetta gengi upp sem allsherjarlausn.