Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:58:30 (2330)


[21:58]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Það var reyndar ekki meining okkar fulltrúa stjórnarandstöðunnar í fjárln. að lengja mjög umræður um fjáraukalög fyrir árið 1993, enda var búið að taka hér allítarlega umræðu um þetta frv. við 2. umr. fyrir nokkrum dögum síðan. En það er eins og fram kom hér hjá hv. seinasta ræðumanni, hv. 6. þm. Vestf., að það tekur engan enda, þessi vitleysa eða endaleysa hjá hæstv. ríkisstjórn sem virðist hafa farið fram við samþykkt fjárlaga fyrir ári síðan og hefur rækilega sannað sig með fjáraukalögunum sem hér hafa verið til umræðu og þeim breytingum sem á þeim hafa verið gerðar. Og síðan ber það við nú við 3. umr. að hæstv. fjmrh. kemur hér með nýja brtt. við frv. upp á 250 millj. kr. Það er svo sem ekki eins og þetta séu einhverjir smáaurar, eins og menn séu að leiðrétta um einhverja tíkalla, heldur eru þetta hundruð millj. kr. sem skakkar á hverjum einasta lið sem þarf að taka til endurskoðunar af því sem átti þó allt saman að leiða til sparnaðar að áliti hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra af þeim hugmyndum sem þeir voru að leggja hér fram um breytingar fyrir ári síðan á ýmsum liðum fjárlaganna, bæði útgjaldaliðum og tekjuliðum. Og hér er eitt dæmið enn sem ekki er hægt að láta hjá líða að benda rækilega á sem sönnun þess sem við höfum áður talað um að efnahagsstefna hæstv. ríkisstjórnar hafi með þessum fjáraukalögum virkilega beðið skipbrot og þetta er enn ein sönnunin.
    En það sem mig langaði, virðulegi forseti, að undirstrika eða leggja sérstaka áherslu á í þessum umræðum eftir að hafa hlýtt á nokkra hv. þm. fjalla um málið, er m.a. það að þetta erindi hefur ekki verið tekið til neinnar meðferðar af hálfu fjárln. og það er spurning hvort í raun sé hægt að sætta sig við það að hér sé lögð fram brtt. af hæstv. fjmrh. upp á kvart milljarð kr., 250 millj. kr., án þess að það mál komi til rækilegrar eða ítarlegrar umfjöllunar í fjárln. og að við fáum þar þær upplýsingar sem vissulega væri ekki vanþörf á að fá fram eins og kom fram áðan hjá hv. 6. þm. Vestf., svo ég vitni aftur til ræðu þess hv. þm.
    Þar að auki er enginn fulltrúi meiri hlutans úr fjárln. viðstaddur þessa umræðu til að upplýsa það hvort um þetta hafi verið fjallað í meiri hlutanum. Ég verð, virðulegur forseti, að játa það að ég var frá þingstörfum eina viku hér á dögunum þannig að auðvitað gat þetta hafa komið til umræðu þá, mér er ekki kunnugt um það, en hv. þm. Jón Kristjánsson og hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir hafa bæði lýst því yfir að þau kannist ekki við það að þessi umræða hafi verið tekin í fjárln. Það finnst mér hreint með ólíkindum.
    Eins og ég sagði ætla ég ekki að lengja þetta mikið og ég veit ekki hvort það eru nokkur ákvæði um það í þingsköpum að hægt sé að fresta umræðu af þessu tagi til þess að taka mál til skoðunar í nefnd meðan umræða stendur, þó ekki væri annað en örstutt, hálftíma eða klukkutíma, og ég ætla reyndar ekki að gera tillögu um það, virðulegur forseti. En ég vil benda á það að mér hefði þó fundist í raun full ástæða til þess að nefndin fjallaði um málið betur en greinilega hefur verið gert þar sem þeir fulltrúar sem hér hafa tekið til máls og hafa samviskusamlega setið við þingstörf og nefndastörf undanfarna daga kannast ekki við umræður um málið.
    Mig langaði hins vegar að spyrja hæstv. fjmrh. ef hann heyrir mál mitt, ég veit að hann er hér í hliðarsal, einnar spurningar í framhaldi af því sem fram kom hjá hv. 6. þm. Vestf. Mjög rækilega í hennar ræðu var gerð grein fyrir því að líklega hefði með þessum tillögum öllum og þessu brambolti ekkert sparast. E.t.v. væri frekar um útgjöld að ræða. Hv. þm. rakti það ítarlega í tölum sem hún hafði fyrir framan sig að það kynni að vera að tekjur hefðu verið 10 millj. Kannski 10 millj. Það var gerð tekjuáætlun fyrir ári síðan upp á um á 260 millj. Hér er gerð tillaga um viðbótarútgjöld upp á 250 millj. og ég hefði gaman af því að heyra álit hæstv. fjmrh. á þessu. Hvað hefur komið út úr þessu brölti eða er það eins og fleiri tillögur hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh. að það hefur lítið sparast af því sem þar hefur verið lagt til? Það hafi hins vegar hlotist af því ómæld fyrirhöfn og erfiðleikar hjá hinum ýmsu stofnunum sem undir heilbr.- og trmrn. heyra, hjá hinum ýmsu heilbrigðisstofnunum. Og ýmsar aðrar tillögur sem varða sparnaðarhugmyndir í sjúkratryggingum hafa líka sýnt sig að hafa lítinn árangur borið og svo er hér ein tillagan enn sem átti að skapa tekjur í ríkissjóð en hefur sennilega ekki gert það ef hún hefur ekki hreinlega leitt til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð þannig að hinar auknu álögur eða hækkun á meðlagsgreiðslunum hafa sennilega leitt til þess að ríkissjóður hafi tapað á öllu saman. Mig hefði langað til þess að fá álit hæstv. fjmrh. á því eða hvort hann hefur um þetta tölulegar upplýsingar. Auðvitað hefði átt að draga það fram í nefndarstarfinu. Í störfum fjárln. hefði átt að biðja um úttekt á því og fá fram útreikninga. Og ef hæstv. ráðherra hefur þetta ekki hjá sér nú, af því að við erum svo hógværir stjórnarandstæðingarnir sem höfum tekið þátt í þessari umræðu að fara ekki fram á það formlega að málinu sé vísað aftur til nefndarinnar og

skoðað þar, þá mætti hann gjarnan senda okkur þessar upplýsingar, ítarlegar upplýsingar um það hverjar hafa verið tekjurnar af þessu og hver útgjöldin.