Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 22:41:08 (2339)


[22:41 ]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það gætir misskilnings í ræðu hv. þm. Þessar 300 millj. sem Jöfnunarsjóðurinn greiðir til Innheimtustofnunar sveitarfélaga hafa ekkert með ríkið að gera, ekkert með samskipti ríkisins og sveitarfélaganna að gera. Þetta er sú upphæð sem sveitarfélögin sjálf hafa reiknað með á undanförnum árum að þurfi að fara út Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að bæta Innheimtustofnun sveitarfélaganna þetta upp. En Innheimtustofnuninni ber samkvæmt lögum að greiða þetta síðan til almannatrygginga eða Tryggingastofnunar ríkisins. Það voru 250 millj. umfram þessar 300 millj. sem verið er að ræða um hér. Það var öllum ljóst allan tímann að 300 millj. hljóta að liggja á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og hafa ekkert með þetta mál að gera. 600 millj. sem sveitarfélögin leggja til --- ég tek fram að það er gert og verður gert í fullu samkomulagi við þau --- og það verða settar reglur um nýtingu á þeim fjármunum enda hefur samstarfið gengið vel í þeim efnum.
    Það er rangt sem kom fram hjá hv. þm. að ríkið væri að næla sér í peninga vegna breytingarinnar þegar aðstöðugjaldið er lagt niður því að niðurstaða þeirrar nefndar sem vann það verk, og eftir því verki hefur verið farið, var sú að enginn aðilanna, atvinnulífið, sveitarstjórnirnar né ríkissjóður, færi út úr þessu með

neinum gróða. Það er hins vegar rétt að það færast fjármunir til milli sveitarfélaganna og á milli atvinnufyrirtækjanna en það er annað mál og önnur saga.
    Loks vil ég segja það, virðulegur forseti, að ég tel að upp á síðkastið hafi ríkt gott samstarf og góður samstarfsandi í samskiptum ríkis og sveitarfélaga.