Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 22:43:12 (2340)


[22:43]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er misskilningur hjá hæstv. fjmrh. að það sé eitthvert sérstakt sveitarfélagamál að innheimta meðlög. Þess vegna er auðvitað verið að velta yfir á sveitarfélögin þessum 300 millj. af því að hér er verið með lögum að setja á þau verkefni sem þeim ber í reynd ekki að fara með. Í öðru lagi, hvað varðar 600 millj. þá undrar mig að heyra það að hálfu sjálfstæðismanns að hann telji það betra fyrirkomulag að taka 600 millj. af sveitarfélögunum í einn sameiginlegan sjóð og setja þar yfir þriggja manna stjórn sem á síðan að deila þessum peningum út. Er ekki betra að hver sveitarstjórn standi ábyrg fyrir sínum málum og hafi þá sínar tekjur til þess að standa að aðgerðum í sinni heimabyggð til að draga úr atvinnuleysi ef þess gerist þörf? Eru ekki heimamenn færari um að ráðstafa peningunum en einhver sjóðstjórn hér í Reykjavík? Það er auðvitað eðlilegra að hafa hlutina með þeim hætti að láta menn um það að hafa peningana og glíma við þetta mál.
    En hvað varðar tekjustofnabreytinguna sem nú er verið að gera, eins og málið er lagt upp í tengslum við frv. um breytingar á skattaorminum þá er ríkissjóður að íþyngja skattgreiðendunum, auka álögurnar bara í staðgreiðslunni um fjárhæðir sem gætu numið allt að 900 millj. kr. sýnist mér, af því að það er verið að hækka útsvarsprósentuna meira en menn ætla að lækka tekjuskattsprósentuna. Þannig að ef menn reikna bara mismuninn á þessu þá liggur eftir skattahækkun upp á nokkur hundruð milljónir kr. sem verið er að taka upp úr vösum skattgreiðendanna. Það er alveg ljóst.