Fjölgun frystitogara

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:32:31 (2342)

[13:32]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla hér að ræða við hæstv. sjútvrh. Það ríkir mikil óvissa í málefnum sjávarútvegsins um þessar mundir. Fiskvinnslan er rekin með tapi og útgerðin með tapi. Tap bátaflotans stefnir í 9,5%, tap togara stefnir í 9%, en hagnaður frystitogara er 9%. Þegar ríkisstjórn í einu landi lætur það viðgangast að undirstöðuatvinnuvegur landsmanna er í taprekstri ár eftir ár hljótum við að vera á leið í þjóðargjaldþrot eða alla vega allsherjarstöðvun í þjóðfélaginu. En meðan þessu vindur fram og hæstv. sjútvrh. unir kratastefnunni vel eru útgerðarmenn að stela sjávarþorpunum og setja kvóta fiskvinnsluhúsanna yfir á frystitogara.
    Nú eru frystitogarar orðnir 43. Árið 1985 var þessi þróun vart hafin. Þá var aflaverðmæti þeirra af botnfiskaflanum 6%. Nú er talið að í ár verði hann 26%. Eitt sjávarþorp er flutt um borð í frystitogara annan hvern mánuð. Í morgun birtist heil mynd í Morgunblaðinu af einum slíkum nýjum sem skartar í búnaði, þar er fiskimjölsverksmiðja hvað þá annað um borð og aflið er 3400 hestöfl. Sjávarútvegurinn er að reyna að bregðast við stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. En hver nýr frystitogari eykur skuldir og fjármagnskostnað sjávarútvegsins í heild fyrir utan hitt að í frystitogurunum er ekki verið að fullvinna fiskinn eins og allir vita.
    Nú vil ég spyrja hæstv. sjútvrh.: Hver er skoðun hæstv. sjútvrh. á þessari þróun? Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bregðast við þeim ógnvænlega hallarekstri í veiðum og vinnslu sem fer sífellt vaxandi? Hyggst hæstv. sjútvrh. með einhverjum aðgerðum reyna að stöðva frystitogaraævintýrið?