Fjölgun frystitogara

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:39:43 (2346)


[13:39]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég veit ekki betur en flest mál sjávarútvegsins séu í frosti hjá þessari ríkisstjórn, þannig að ég hef ekki séð að mikið væri verið að gera fyrir sjávarútveginn í landinu. En hæstv. sjútvrh. snýst jafnan svona til varnar og svarar lítt spurningum. Er hæstv. sjútvrh. að segja það hér í dag að það sé eðlilegt að frystitogararnir séu orðnir 43 og þeim fjölgi um einn með hverjum mánuði sem líður? Að þeir hafi 1985 haft 6% af botnfiskaflanum, séu núna komnir upp í 26%. Er þetta eðlileg þróun? Við sjáum sjávarþorpin um allt land, fólkið þar er að missa atvinnu sína. Það er verið að fara með vinnuna á haf út. Þess vegna er ég að spyrja eftir því og spurði eftir því hér í upphafsræðu minni, hvort sjútvrh. hefði leitt hugann að þessari þróun. En því miður virðist það ekki vera.