Samningar um kaup á björgunarþyrlu

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:43:24 (2350)


[13:43]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Nú á síðustu dögum gerði hv. 5. þm. Reykv., Ingi Björn Albertsson, athugasemd við sérkennilegt svar sem honum barst við skriflegri fsp. til forsrh. um þyrlukaupin. Í því svari var ekkert að finna nema sögulegt yfirlit yfir einar fjórar nefndir sem settar höfðu verið í málið, en af svarinu var ekki hægt að greina hvort samningaviðræður væru hafnar. Þess vegna gleður þetta svar hæstv. dómsmrh. meira en það svar og ég vil ítreka að ég skil það svo að samningaviðræður séu hafnar, en hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað á hann við þegar hann talar um að innan tíðar muni ákvörðun verða tekin? Ákvörðunin hlýtur að vera tekin ef samningaviðræður eru hafnar eða hef ég misskilið þetta, hæstv. ráðherra?