Breyting á búvörulögum

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:50:14 (2356)

[13:50]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :

    Virðulegi forseti. Í umræðum hér á Alþingi fyrir þrem vikum síðan sagði hæstv. landbrh. að fyrir nóvemberlok þyrfti að vera búið að breyta búvörulögunum í þá veru sem frv. lá fyrir um og hafði náðst samstaða um í landbn. á síðasta vori. Nú liggur fyrir dómur sem segir út af fyrir sig ótvírætt að meðan lögum er ekki breytt, þá skuli búvörulög gilda og þau ráði gagnvart innflutningi á búvörum. Það er hins vegar að mínu mati versta staða sem uppi getur verið fyrir íslenska bændur og íslenskan landbúnað sú óvissa sem nú er og það misræmi sem er á milli alþjóðasamninga sem við erum þátttakendur að og íslenskra laga. Og það hanaat sem kemur með reglulegu millibili upp milli ráðherra ríkisstjórnarinnar meðan ekki er búið að gera hér breytingar á, er afar skaðlegt fyrir hagsmuni íslensks landbúnaðar, en forsvarsmenn hans hafa sagt að þeir vilji horfast í augu við og takast á við þá samninga sem við gerumst aðilar að en gera aftur á móti þá skýlausu kröfu til íslenskra stjórnvalda að þau standi á rétti okkar eins og við höfum leyfi til. Því miður er framganga núv. ríkisstjórnar ekki á þann veg. Og ég vil nú spyrja hæstv. landbrh.: Hverju sætir það að við höfum ekki enn séð frv. í þessa veru á Alþingi í vetur?