Vaxtamál og viðskipti með húsbréf

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:58:51 (2363)


[13:58]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi ruglar hér saman tvennu: annars vegar húsbréfum og hins vegar húsnæðisbréfum. Útboðið sem fram fór í gær og fyrir hálfum mánuði síðan var útboð á húsnæðisbréfum. Húsnæðisbréfin eru eldri bréfin í kerfinu. Þeim er ætlað að fjármagna hið félagslega íbúðakerfi. Það kom í ljós í tilboðum lífeyrissjóðanna bæði fyrir hálfum mánuði og svo aftur í gær að þeir vilja hærri ávöxtun á fjármögnun hins félagslega húsnæðiskerfis en þeir hafa þegar fallist á að veita ríkissjóði beint. Ástæðuna fyrir því virðast þeir telja að það sé verri ríkisábyrgð á bréfum sem Húsnæðisstofnun ríkisins gefur út en á bréfum sem ríkissjóður sjálfur gefur út og þess vegna sé réttlætanlegt að krefjast hærri ávöxtunar af bréfum sem ætluð eru til að fjármagna hið félagslega húsnæðiskerfi heldur en af bréfum sem ætluð eru til að fjármagna rekstur ríkissjóðs. Þetta er að sjálfsögðu gersamlega úr lausu lofti gripið. Það eru engin rök fyrir því að það sé eitthvað verri ríkisábyrgð á húsnæðisbréfum heldur en á skuldabréfum ríkissjóðs og þessi röksemd þeirra er því út í hött. Þetta er eingöngu tilraun til þess að reyna að brjóta vaxtamúrinn upp á við og koma í veg fyrir að það náist sá árangur til vaxtalækkunar sem nú þegar er fram kominn. Ég tel mig vera í fullum rétti þegar ég gagnrýni þessa afstöðu lífeyrissjóðanna og ég mun ekki láta af þeirri gagnrýni. Ég mun krefjast þess að þessir sjóðir sem eru í forsjá aðila vinnumarkaðarins en í eigu landsmanna allra, standi ekki gegn þeirri vaxtalækkun sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir í samráði við Alþýðusambandið og Vinnuveitendasamtökin.