Vaxtamál og viðskipti með húsbréf

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 14:00:52 (2364)


[14:00]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Fyrirspyrjandi er ekki að rugla neinu saman. Mér er fullkunnugt um það á hvaða grundvelli útboð Húsnæðisstofnunar fara fram og um þessar tvær gerðir af bréfum sem eru í gangi, annars vegar hjá stofnuninni þegar hún leitar frumfjármögnunar og hins vegar húsbréfin sjálf sem eru í höndum einstaklinganna og eru að ganga kaupum og sölum. Ég spurði um viðskiptahætti bankanna gagnvart hinu síðarnefnda, þ.e. þeim viðskiptaháttum bankanna að halda áfram að kaupa húsbréf með afföllum eftir að skilgreiningunni hefur verið breytt og bankarnir mega nú telja húsbréfaeign sína sem lausafé. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki einu orði, en notaði þetta tækifæri til að halda áfram ómaklegum árásum sínum á lífeyrissjóðina, ómaklegum árásum. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að velja sér heppilegri óvini heldur en þá.

Það hefur þegar komið fram að ein ástæðan fyrir því að lífeyrissjóðirnir hafa keypt minna fé nú er einfaldlega útgjaldabyrði lífeyrissjóðanna á þessum árstíma sem er mikil og þar á meðal t.d. tvöfaldar útgreiðslur í desember. Þetta þyrfti nú helst hæstv. viðskrh. þjóðarinnar að vita. En ég bið um svör varðandi þessa viðskiptahætti bankanna. Þar getur hæstv. viðskrh. haft áhrif með beinum hætti í staðinn fyrir að vera að skamma aðra að ósekju.