Vaxtamál og viðskipti með húsbréf

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 14:05:05 (2367)


[14:05]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að það séu engir óeðlilegir viðskiptahættir sem hér er beitt. Ég veit ekki betur en húsbréf hafi frá upphafi verið seld með afföllum, en ég vék að því í ræðu minni áðan að sá tími kom eftir vaxtalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar að þau voru seld á yfirgengi. En ég get ekki látið hjá líða að neita því að það séu einhverjar árásir á lífeyrissjóðina þó að vakin sé athygli á því að þeir fari fram með kröfu um hækkun vaxta eða réttara sagt að hærri vextir skuli greiddir af bréfum sem ætlað er að fjármagna hið félagslega íbúðarhúsakerfi á Íslandi með heldur en þeir fallast á að greiða vegna fjármögnunar ríkissjóðs. Ég vil bara leyfa mér að lýsa því yfir að ég er ekki einn þeirrar skoðunar. Ég vitna í ummæli formanns Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, fyrrv. formanns Verkamannasambands Íslands, í DV í dag. Hv. fyrirspyrjandi ætti að kynna sér álit þess merka og mæta verkalýðsleiðtoga.