Fjáraukalög 1993

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 14:12:48 (2369)


[14:12]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Vegna þessarar athugasemdar hæstv. fjmrh. vil ég taka fram að ég hef ekki verið í aðstöðu til þess að meta það reikningsdæmi sem hér var gert að umtalsefni og vil þar af leiðandi ekki fullyrða neitt um það að ekki kunni að vera einhver misskilningur á ferð í þessu dæmi. En eins og hann upplýsti þá eru tölurnar fengnar frá starfsmanni Ríkisendurskoðunar og ef einhver misskilningur er í þessu dæmi, þá kemur sá misskilningur þaðan.
    Að öðru leyti get ég ekki tjáð mig um þessa reikninga vegna þess að ég hef ekki haft aðstöðu til þess að meta þá. En þeir breyta að sjálfsögðu engu um þá brtt. sem hér er. Hún er flutt vegna þess að hæstaréttardómarar sömdu við forsrh. um ákveðna launahækkun í gegnum yfirvinnugreiðslur. Við töldum það ótilhlýðileg vinnubrögð að slíkt ætti sér stað og stöndum við það. Þess vegna viljum við að þessi tillaga sé samþykkt. Við teljum að ef menn ætla að samþykkja núna greiðslur til hæstaréttardómara vegna kjaradóms, þá verði að sjálfsögðu að reikna dæmið upp á nýtt því það er ekki um þessa sömu tölu að ræða eins og hún var lögð fram á sínum tíma. Það er röng tala sem er í frv. og þar af leiðandi á hún að falla niður og það verður að endurskoða málið.