Fjáraukalög 1993

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 14:15:23 (2371)


[14:15]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við kvennalistakonur teljum það mjög ámælisvert þegar ein stétt í þjóðfélaginu getur ákvarðað sér laun sjálf og ríkisstjórnin styður það með því að leggja fram tillögu um aukafjárveitingu sem þegar er raunar farið að greiða. Hins vegar hefur úrskurður Kjaradóms nú nýlega tekið að nokkru undir þessa ákvörðun hæstaréttardómaranna og þá hefur kjaranefnd einnig kveðið upp úrskurð um launamál presta fyrir nokkru síðan sem gengur í sömu átt. Með tilliti til þess sem gerst hefur síðan þessi brtt. sem hér liggur til afgreiðslu var lögð fram, þá munum við sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.