Umræða um skýrslu Byggðastofnunar

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 10:44:14 (2395)

[10:44]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram þar sem hér er verið að ræða um skýrslu Byggðastofnunar að mig minnir að það hafi aldrei verið lokið við að ræða skýrsluna fyrir árið 1990 sem hv. 5. þm. Vestf. nefndi hér áðan. Mig minnir að 2. þm. Vestf. hv. hafi verið í miðri ræðu þegar hætt var að ræða þá skýrslu. Og þingheimi til upplýsingar þá stendur til að ræða skýrslu hæstv. utanrrh. á morgun, þ.e. fyrri hluta skýrslu hans eða munnlega skýrslu. Hún mun eiga að verða tvisvar í vetur. Ég vildi beina því til forsn. hvort ekki væri hægt að fresta flutningi þeirrar skýrslu og taka heldur á dagskrá flutning á skýrslu Byggðastofnunar sem ég tel miklu eðlilegra að sé rædd í tengslum við afgreiðslu fjárlaga og á þessum tíma heldur en skýrsla utanrrh.