Umræða um skýrslu Byggðastofnunar

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 10:45:31 (2396)


[10:45]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Það er nú ekkert undarlegt að þessi umræða skuli eiga sér stað hér núna. Út af fyrir sig skil ég vel hæstv. forsrh. að hann kæri sig ekkert um að ræða byggðamál hér í þinginu. Í fyrra var óútrædd skýrsla fyrir árið 1991 og forsrh. lagði enga áherslu á það að klára þá umræðu. Það er þægilegra að ráðherrar standi með skítkast á Byggðastofnun og þá starfsemi sem þar fer fram. Ríkisstjórnin hefur gengið milli bols og höfuðs á þessari stofnun, skert tekjur hennar, eyðilagt fyrir henni starfsumhverfi og síðan er það þægilegra fyrir þá að standa og láta éta eftir sér, blaðamenn éta eftir sér hnútur og illyrði út í stjórnarmenn Byggðastofnunar. Þetta kemur allt niður á byggðaþróun í landinu eins og menn vita og það er ekki von að forsrh. sé neitt gráðugur í að ræða það hér.
    Við verðum að ræða hér skýrslu fyrir árið 1992, síðar í vetur skýrslu fyrir árið 1993 og það er engin undankomuleið fyrir ríkisstjórnina með það.