Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 11:49:10 (2402)

[11:49]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta fjárln. fyrir frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 sem hér er til 2. umr. Fjárln. hefur, eins og fram kom hjá hv. formanni nefndarinnar, einkum fjallað um útgjaldaliði frv. en þar eru þó ýmsir stórir póstar óræddir enn þá eins og sjúkrahúsin í Reykjavík. Við 1. umr. um frv. lýsti minni hluta fjárln. þeirri skoðun sinni að frv. væri ekki marktækt. Þessi minni hluti sem er sá sami nú og fyrir ári síðan lýsti sömu skoðun við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993 og spáði þá að halli ríkissjóðs yrði miklu hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þetta reyndust orð að sönnu og ekki trúi ég því að þeim verði mótmælt nú. Samanlagður halli áranna 1992 og 1993 stefnir í að verða yfir 20 milljarðar kr. og bróðurparturinn af þeirri upphæð er halli þessa árs. Frv. sem hér er lagt fram felur í sér minnst 10 milljarða kr. halla, líklega meira. Ef ríkisstjórnin heldur uppteknum hætti við stjórn ríkisfjármála má ætla að þær hallatölur sem við komum til með að sjá á næsta ári verði miklu, miklu hærri en þær sem ráð er fyrir gert.
    Þessi ríkisstjórn, sem lýsti því yfir í upphafi ferils síns að fjármál ríkisins ættu að vera komin í jafnvægi árið 1993, leggur nú fram frv. með hærri hallatölu en sést hefur og orðið jafnvægi hefur greinilega fengið nýja merkingu og áður óþekkta. Ég býst við að flestir hafi skilið ríkisstjórnina á sínum tíma þannig að stefnt væri að jafnvægi tekna og útgjalda. Hugtakið jafnvægi í ríkisfjármálum hefur hins vegar þessa nýju merkingu og nú þýðir það jafnvægi í halla. Það er leitast við að halda stöðugum eða vaxandi halla á ríkissjóði.
    Á þessu fjárlagaári stefnir hallinn í 13 milljarða kr. og frv. næsta árs er lagt fram með 10 milljarða kr. halla, líklega mesta halla eins og ég sagði áðan sem nokkurn tímann hefur verið gert ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Og því miður eru ýmis teikn á lofti sem benda til að hallinn geti orðið enn meiri þegar upp verður staðið. Við fulltrúar minni hlutans í fjárln. sjálfum ekki betur en að framlög til heilbrigðismála séu t.d. verulega vanáætluð. Það getur munað rúmum milljarði króna. Sama er að segja um framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs, þau eru áreiðanlega vanáætluð. Þessi tvö atriði ein nægja til að auka hallan um tæplega 2 milljarða kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frv. Á móti þessu kemur hins vegar, eins og við sýnum fram á í nefndaráliti okkar, að aukinn hagvöxtur og vaxtalækkun umfram það sem sett er fram í spá Þjóðhagsstofnunar og umfram forsendur fjárlaga gæti dregið úr halla ríkissjóðs. Beri ríkisstjórnin gæfu til að auka hagvöxt með aðgerðum sínum og halda vöxtum niðri þá kemur það til frádráttar hallanum.
    Þetta frv. til fjárlaga sem hér er til umræðu bendir þó ekki til að það gangi eftir. Fjárfestingar á vegum ríkisins metnar sem hlutfall af landsframleiðslu hafa t.d. verið 15,5% sem er sögulegt lágmark. Fjárfesting er of lítil til að bera uppi aukinn hagvöxt og án vaxandi hagvaxtar er óraunhæft að búast við bata á vinnumarkaði. Skynsamlegra hefði verið hjá ríkisstjórninni að beita öllum tiltækum ráðum til að auka framlög til hagkvæmra fjárfestinga en að draga úr þeim eins og gert er ráð fyrir í frv. Það skal þó viðurkennt að hallarekstur ríkissjóðs á undanförnum árum og áratugum, hvort sem er í góðæri eða á samdráttarskeiði hefur þrengt það svigrúm sem er í ríkisfjármálum til að hamla gegn samdrætti. Svigrúmið er þó til staðar og það er hægt að draga úr atvinnuleysi án þess að auka halla ríkissjóði. Það má gera með því að breyta samsetningu ríkisútgjalda, leggja meiri áherslu á viðhald og vinnuaflsfrekar framkvæmdir en draga úr rekstrarútgjöldum í ríkiskerfinu sjálfu. Til að svo megi verða þarf að leggja meiri vinnu í fjárlagagerðina en nú er gert og byggja frv. upp með öðrum hætti.
    Sú leið sem valin hefur verið á undanförnum árum að láta einstök fagráðuneyti um fjárlagatillögurnar og átti að skila okkur raunhæfari tillögum hefur ekki skilað þeim árangri sem við var búist. Það sést m.a. á því að halli ríkissjóðs vex ár frá ári og tilhneiging fagráðuneyta til að passa ,,sínar stofnanir`` hefur í mörgum tilfellum orðið skynseminni yfirsterkari. Það gengur heldur ekki að fagráðuneyti gangi frá fjárlagatillögum í sambandi við stofnanir sínar en vísi síðan ábyrgðinni af því hvernig tiltekst á aðra. Mér finnst eðlilegt að þingið kalli viðkomandi fagráðherra til ábyrgðar ef fjárlagatillögur og ákvarðanir standast ekki. Reyndin er hins vegar sú að flestum tilfellum er fjmrn. kennt um mistökin. Á þessu eru þó undantekningar. Heilbrrh. hæstv. er t.d. ávallt kallaður til þegar rætt er um fjárveitingar til heilbrigðiskerfisins. Og mistökin heimfærð í ráðuneyti hans. Þannig ætti þetta að sjálfsögðu að vera með öll fagráðuneytin á meðan við búum við þessi svokölluðu rammafjárlög.     Rammahugsunin sem átti að leiða til þess að faglega yrði tekið á óskum um fjárframlög hefur snúist upp í andhverfu sína. Nú eru það ekki einungis stofnanir sem reyna allt hvað þær geta til að halda í sína gömlu ramma eða auka þá heldur er einnig augljós tilhneiging ráðuneyta til að halda sem stærstum ramma og tapa helst engu frá fyrra ári. Engu máli virðist skipta þó stórum fjárfrekum verkefnum ljúki eða augljósar áherslubreytingar verði í þjóðfélaginu sem krefjist flutninga á fjármagni milli málaflokka, keppikefli ráðuneytanna er að halda sínum hlut gagnvart öðrum ráðuneytum. Hætt er við að á meðan slíkur hugsanagangur viðgengst verði lítið úr hagræðingu eða nauðsynlegri sameiningu stofnana. Það er reyndar svolítið spaugilegt að hlusta á það að fái einn ráðherra hækkun á sínum ramma þá verði aðrir að fá hið sama. Þannig kemur umræðan iðulega fyrir sjónir.
    Oft hefur verið rætt um nauðsyn þess að sameina og endurskipuleggja ríkisstofnanir og starfsemi þeirra. Heldur fer þó lítið fyrir framkvæmdum nema þá helst í heilbrigðiskerfinu þar sem allir stjórnarliðar virðast vera sammála um nauðsyn þess að skera niður og endurskipuleggja. Hvað með aðrar stofnanir? Ríkisendurskoðun hefur t.d. lagt til sameiningu og endurskipulagningu Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins og hvað með sameiningu Landmælinga ríkisins og embætti skipulagsstjóra ríkisins? Ég sé fátt sem er því til fyrirstöðu að ráðast í þessar sameiningar, alla vega ekkert sem ekki má stíga yfir. Ég er hins vegar sannfærð um að rammafjárlög koma í veg fyrir að þessir kostir verði skoðaðir af alvöru. Enginn vill missa spón úr sínum aski. Það er einnig varhugavert og dregur úr þeim árangri sem hægt er að ná með rammafjárlögum að framkvæmdarvaldið vinnur í mörgum tilvikum eftir öðrum verklagsreglum en löggjafinn.
    Að síðustu um rammafjárlög þá virðist mér að framkvæmd þeirra hafi verið með þeim hætti að þau hafi komið í veg fyrir nauðsynlega endurskoðun á uppbyggingu fjárlaga. Sú vinna hefði átt að fara fram áður en fagráðuneytin fengu sína ramma. Það hefði átt að kryfja hverja stofnun til mergjar, alla vega þær fjárfrekustu, og helstu þætti ríkisútgjalda áður en römmum var úthlutað. Slík úttekt þyrfti að vera bæði bókhaldsleg og á stjórnsýslulegum grunni. Réttur grunnur að rammafjárlögum er mjög mikilvægur og forsenda þess að markmið slíkrar fjárlagagerðar náist. Niðurstaða fjárlaga síðustu ára sýnir svo ekki verður um villst að þessi mikilvægi grunnur er ekki til og þess vegna ekki hægt að gera raunhæfar áætlanir.
    Tekjuhlið frv. til fjárlaga er samkvæmt venju látin bíða 3. umr. Ég get þó ekki látið hjá líða að nefna hana aðeins. Nýlega kom fram í upplýsingum frá fjmrn. að þessi ríkisstjórn hefði með tveim síðustu fjárlögum hækkað skatta um 2,7 milljarða kr. á verðlagi ársins 1994. Um leið var sagt frá því að síðasta ríkisstjórn hafi í sinni tíð hækkað skatta um rúma 10 milljarða miðað við sama verðlag. Þetta eru áreiðanlega réttar upplýsingar frá fjmrn. svo langt sem þær ná. Síðasta ríkisstjórn dró ekki dul á sínar skattahækkanir heldur taldi þær bráðnauðsynlegar til að bæta ástand ríkisfjármála. Sjálfstfl. taldi þær hins vegar með öllu ónauðsynlegar og lofaði alþjóð skattalækkun kæmist flokkurinn í ríkisstjórn. En hvað gerist svo? Sjálfstfl. hefur bætt um betur þvert á eigin stefnu og þar með viðurkennt réttmæti þess sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar.
    Fjmrn. segir að núv. ríkisstjórn hafi hækkað skatta um 2,7 milljarða kr. á verðlagi ársins 1994 með tveimur síðustu fjárlögum. Þessi tala segir ekki alla söguna eins og alþjóð veit. Í þessari tölu er ekki reiknað með felusköttunum svokölluðu. Það er alveg ljóst að sértekjur stofnana verða sífellt stærri hluti af rekstrartekjum þeirra. Og hlutur þjónustugjalda í sértekjum vex þar mest, þ.e. hlutur sölu á vöru og þjónustu, þessi umtöluðu þjónustugjöld. Hlutur þjónustugjalda hefur vaxið mest í heilbrigðisgeiranum á síðustu fimm árum eða sem nemur miðað við fast verðlag 175,8%. Samkvæmt ríkisreikningi ársins 1992 innheimti heilbrigðiskerfið 2.733 millj. kr. það ár borið saman við 1.516 millj. kr. árið 1990, hækkunin er 80,3% á tveimur árum. Þegar tölur sem þessar eru skoðaðar og aukningin borin saman við þann sparnað sem náðst hefur í heildarútgjöldum heilbrigðiskerfisins þá veltir maður því fyrir sér hversu stórt hlutfall af þessum sparnaði hefur náðst með því að þyngja skattbyrði almennings í landinu. Þjónustugjöldin eru ekkert annað en hrein skattlagning sérstaklega þegar um er að ræða gjöld af veittri þjónustu sem ekki er hægt að vera án eins og er með heilbrigðisþjónustuna, valið er ekki neitt. Heildarsértekjur ríkisstofnana voru árið 1990 miðað við fast verðlag 8.634 millj. kr. en 10.124 millj. kr. árið 1992. Aukning sértekna miðað við fast verðlag frá árinu 1988 til 1992 er 32,9% en á árinu 1988 námu þær 7.616 millj. kr. Þetta eru ógnvænlegar tölur. Árið 1992 voru tekjur af seldri vöru og þjónustu 5.072 millj. kr. sem er 50% allra sértekna það ár. Seld vara og þjónusta var hins vegar 3.688 millj. kr. árið 1990. Hækkun tekna af seldri vöru og þjónustu frá árinu 1990 til 1992 er því um 35,9%.
    Skoðum breytinguna 1988--1992. Árið 1988 gáfu þessi þjónustugjöld 3 milljarða kr. samanborið við 5 milljarða árið 1992. Aukningin er 69%. Þjónustugjöld voru aukin í fjárlögum þessa árs og enn er aukningin í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994. Það er alveg augljóst að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur ekki aðeins aukið verulega viðurkennda skattheimtu, hún mætir í vaxandi mæli útgjöldum sem áður voru greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna með aukaskattheimtu í formi þjónustugjalda. Sömu tilhneigingar hefur gætt gagnvart sveitarfélögunum, til þeirra eru færð aukin verkefni og þeim skal mæta með aukinni skattheimtu á einstaklinga. Skattar á fyrirtæki hafa að verulegu verið felldir niður eins og aðstöðugjaldið er skýrt dæmi um en þess í stað hafa þeir verið lagðir á einstaklinga. Hér hefur eingöngu verið um tilfærslu að ræða frá fyrirtækjum til fólks. Um leið og allar þessar auknu álögur hafa orðið að veruleika hafa skattleysismörkin lækkað verulega en skattleysismörkin koma þeim helst til góða sem lægstar hafa tekjurnar. Í raun eru engin skattleysismörk í þjónustugjöldum og fyrir þeirri skattheimtu eru allir jafnir. Þar er engin frádráttur fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar og erfiðast eiga. Það er því vont til þess að hugsa að ríkisvaldið skuli sjá sér hag í því að fjármagna sem stærstan hluta af rekstri ríkisstofnana með þjónustugjöldum.
    Annað sem kemur á óvart þegar skoðaðar eru skatttekjur ríkissjóðs á undanförnum árum er hversu gífurlegur samdráttur er í innheimtu virðisaukaskatts og einnig ef borið er saman við innheimtu söluskatts. Ef miðað er við verðlagstölur fyrir árið 1994 þarf að fara aftur til ársins 1986 til að fara lægra í innheimtu en gert er ráð fyrir í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994. Hæstu tekjur á þessum lið fengust árið 1988 eða 48,6 milljarðar kr. Eftir það og eftir að virðisaukaskattur kom að fullu í stað söluskatts hefur innheimtan dregist saman.
    Árið 1994 er gert ráð fyrir að virðisaukinn skili 37,9 milljörðum kr. sem er rúmum 10 milljörðum lægri upphæð en innheimt var árið 1988 á föstu verðlagi. Þessi mikli munur skýrist ekki að fullu af lækkun matarskatts né af almennum samdrætti í þjóðarbúskapnum.
    Árið 1988 var innheimtan 11,5% af vergri landsframleiðslu, árið 1991 var hún 11%, í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994 er gert ráð fyrir að innheimtan verði aðeins 9,7% af vergri landsframleiðslu. Í ár er áætluð innheimta 10,3%. Mismunurinn á þessu ári og áætlun fyrir árið 1994 skýrist af fyrirhugaðri lækkun á matarskatti. Þessar tölur benda ótvírætt til þess að misbrestur hafi orðið á því að virðisaukaskatturinn hafi skilað því sem til var ætlast. Á því þarf að taka en það er ekki gert í þessu frv.
    Þær eru ansi margar spurningarnar um tekjuhlið frv. sem þarf að svara fyrir 3. umr. Textinn í frv. er afar óskýr þegar kemur að tekjunum. Ég læt eitt dæmi nægja þar um. Á bls. 270 í frv. er gert ráð fyrir hækkun tekjuskatts einstaklinga frá áætlun fyrir árið 1993 um 1.700 millj. kr. Á bls. 271 er gerð tilraun til að útskýra þessa hækkun á tekjuskatti einstaklinga. Sá kafli er í stuttu máli sagt alveg óskiljanlegur. Þar segir að meginástæðan fyrir þessari miklu hækkun sé fyrirhuguð breyting á tekjustofnum sveitarfélaga. Gert er ráð fyrir að útsvar sveitarfélaga hækki um 1,5% að meðaltali á næsta ári en tekjuskattur ríkisins lækki í sama hlutfalli. Einnig að skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði felldur niður sem lækki tekjur ríkissjóðs. Þessir tveir póstar til lækkunar á tekjuskatti eru síðan taldir skýra þá hækkun sem fram kemur í frv. og nemur 1.700 millj. kr. Vafalaust eru skýringar á hækkuninni augljósar höfundum frv. en þær eru það alls ekki í greinargerð frv.
    Meðal þeirra spurninga sem svara þarf fyrir 3. umr. eru þessar að mati okkar minnihlutamanna í fjárln. Alþingis:
    Í fyrsta lagi. Hvaða áhrif hefur aukin skattheimta á árinu 1994 á ráðstöfunartekjur einstaklinga? Hvaða áhrif hefur það á veltu í landinu?
    Í öðru lagi. Hvað hækkar jaðarskattur vísitölufjölskyldunnar mikið á næsta ári?
    Í þriðja lagi. Það er lagt til að hámarksprósenta útsvars verði 9,2% í stað 7,5%. Hve mörg sveitarfélög hafa tilkynnt útsvarsprósentu á næsta ári? Og hver verður hún í stærstu sveitarfélögunum sem mest áhrif hefur?
    Í fjórða lagi. Hvaða breytingar hafa verið gerðar á staðgreiðslukerfinu, upptöku þess árið 1988, bæði hvað varðar skattprósentu og einstaka bóta- og frádráttarliði, persónuafslátt og hvað er talið að þær hafi skert ráðstöfunartekjur vísitölufjölskyldunnar miðað við forsendur fjárlagafrv. 1994?
    Í fimmta lagi. Hvernig hafa veltutölur virðisaukaskatts í helstu atvinnugreinum breyst frá árinu 1990 til ársins 1993 og hver er velta sömu atvinnugreina áætluð í frv. 1994?
    Í sjötta lagi. Hvernig hafa undanþágur og endurgreiðslur í virðisaukaskattskerfinu þróast og breyst frá árinu 1990 til 1994? Hver hafa áhrifin verið á tekjur ríkissjóðs.
    Í sjöunda lagi þurfum við að fá upplýsingar um áhrif launabreytinga, t.d. aukið atvinnuleysi umfram forsendur fjárlaga á tekjuskatt og tryggingagjald í fjárhæðum. Við þurfum að fá upplýsingar um áhrif veltubreytinga og breytingu á innheimtuhlutfalli á tekjur af virðisaukaskatti í fjárhæðum.
    Í þjóðhagsáætlun sem lögð var til grundvallar við gerð fjárlagafrv. var gert ráð fyrir 0,5% vexti landsframleiðslu á þessu ári og viðskiptahalla sem nemur 1,4% af landsframleiðslu. Þær fréttir sem hafa verið að berast að undanförnu benda hins vegar til þess að hagvöxtur verði meiri og viðskiptahallinn minni. Má telja að þorskaflinn í Smugunni sé þegar orðinn 9 þús. tonn. Sú aukning bætir viðskiptajöfnuð um 400 millj. kr., eykur sjávarafurðaframleiðslu um 1,3% og landsframleiðslu um a.m.k. 0,22%. Þessu til viðbótar bendir tiltölulega hagstæð útkoma vöruskiptajafnaðar til og með október til þess að útflutningstekjur geti orðið meiri og viðskiptahallinn verði minni en þjóðhagsáætlun gerði ráð fyrir. Auk þess má benda á að afgangur varð á viðskiptajöfnuði fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins og verður að fara aftur til ársins 1986 til að finna svipaða stöðu.
    Þessi þróun vekur spurningar um hvort spáin fyrir árið 1994 sé of svartsýn. Samdráttur í þorskafla á þessu fiskveiðiári þarf ekki einungis að koma fram í samdrætti útflutningstekna og landsframleiðslu. Reynslan í ár sýnir að mögulegt er að auka aðrar veiðar og gæti það gerst í ríkari mæli en gert er ráð fyrir í þjóðhagsáætlun. Ef lækkun raunvaxta um 2% næst má líka búast við að það stuðli að auknum umsvifum í atvinnulífinu og þar með að auknum þjóðartekjum.
    Til þess að svo geti orðið verður þó að mati minni hlutans að grípa til ýmissa ráðstafana. Þess sjást því miður engin merki í frv. til fjárlaga fyrir árið 1994.
    Ef hagvöxtur verður meiri í ár og á næsta ári en gert er ráð fyrir í þjóðhagsáætlun og í forsendum fjárlaga ætti halli ríkissjóðs einnig að verða minni að öllu öðru óbreyttu eins og ég vék að í upphafi ræðu minnar. Vaxtalækkunin dregur einnig sjálfkrafa úr halla ríkissjóðs. Í þessu ljósi er enn óásættanlegra en ella að afgreiða fjárlög með 10 milljarða kr. halla, líklega mesta halla á afgreiddum fjárlögum sem dæmi eru um á síðustu áratugum.
    Samkvæmt skýrslu Seðlabankans, Peningar, gengi og greiðslujöfnuður, sem kom út 11. nóv. munu erlendar skuldir aukast verulega á þessu og næsta ári í hlutfalli við landsframleiðslu eða útflutningstekjur.

Hreinar erlendar skuldir verða rúm 60% af landsframleiðslu á næsta ári, ef svo fer fram eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. og áformum ríkisstjórnarinnar, en á árunum 1990--1991 var þetta hlutfall um 46%. Aukningin í hlutfalli við útflutningstekjur er jafnvel enn hrikalegri. Hreinar erlendar skuldir munu nema um 175% af útflutningstekjum á næsta ári, ef svo fer sem horfir, en voru um 130% á árinu 1990. Samanburðurinn við útflutningstekjur er jafnvel enn mikilvægari en samanburðurinn við landsframleiðslu því það er með útflutningstekjunum sem við verðum að greiða vexti og afborganir af erlendum skuldum.
    Ríkisstjórnin hefur verið að hreykja sér af því að erlendar skuldir aukist ekki að raungildi á þessu ári. Það er í sjálfu sér rétt að þær munu í ár aukast minna en nemur verðbólgu í nágrannalöndunum. Það er þó engin ástæða til þess að ýta undir andvaraleysi gagnvart erlendum skuldum af þessum sökum, eins og ríkisstjórnin virðist gera til að grípa í hálmstrá á erfiðum tímum. Hækkun hlutfalls skulda af útflutningstekjum er jafnalvarleg fyrir það, nema að full vissa sé fyrir því að útflutningstekjur hækki mjög fljótlega þannig að hlutfallið leiti í fyrra horf. Slík vissa er ekki til og ekkert í tillögum ríkisstjórnarinnar gefur tilefni til bjartsýni í þessum efnum.
    Við búum nú við meira atvinnuleysi en þekkst hefur um langt árabil og allt útlit er fyrir að atvinnuleysi fari vaxandi. Á næsta ári mun enn draga úr fiskveiðum ef gildandi úthlutun verður látin ráða. Afleiðingar af samdrættinum eru ekki enn komnar fram og hafa ekki enn haft teljandi áhrif á atvinnustigið í landinu. Ljóst má vera að á næsta ári stefnir í aukið atvinnuleysi grípi stjórnvöld ekki til róttækra aðgerða og beiti öllum tiltækum ráðum til að efla og styrkja atvinnulífið. Nú er svo komið að atvinnuleysi er farið að hafa veruleg þjóðfélagsleg áhrif. Álagið í heilbrigðisþjónustunni hefur tvímælalaust farið vaxandi af þessum sökum og félagsleg vandamál hvers konar blasa við okkur. Fjárlög yfirstandandi árs gerðu ráð fyrir að atvinnuleysi á árinu yrði að meðaltali um 3%. Nú er allt útlit fyrir að það verði a.m.k. 4,5--5% og hefur það leitt til verulegs útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Fjárveitingar til Atvinnuleysistryggingasjóðs eru því hækkaðar í fjáraukalögum fyrir árið 1993 um 1,2 millj. kr. Á næsta ári má gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði meira svo sem áður er sagt og má því telja ljóst að enn þurfi að veita fjármuni til að styrkja stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Að mati minni hlutans er þeirri fjárþörf ekki mætt að fullu í frv. til fjárlaga fyrir 1994 og við höfum heldur ekki séð aðrar tillögur þar um.
    Aðilar vinnumarkaðarins hafa mjög lagt að ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til þess að tryggja og treysta atvinnu. Í tengslum við undirskrift kjarasamninga voru gefin loforð um það að verja auknum fjármunum til atvinnuskapandi aðgerða. Nokkur ágreiningur hefur orðið um það hvernig að þeim málum var staðið á síðastliðnu sumri. Stjórnarandstaðan hefur talið að þegar ákvarðanir um einstök verkefni voru teknar hefði átt að taka meira tillit til hvaða framkvæmdir voru á undirbúningsstigi svo hefja mætti vinnu þá þegar. Jafnframt hefði átt að veita aukna fjármuni á þau svæði þar sem atvinnuástandið var verst. Nú hefur komið í ljós að einungis hluti af þeim fjármunum sem verja átti til eflingar atvinnulífi hefur nýst á þessu ári. Einnig hefði þurft að hafa enn betur í huga að þessir fjármunir nýttust til nýrra verkefna sem sköpuðu atvinnu á næstu árum en ekki aðeins til þess að leysa tímabundinn vanda.
    Alþýðusambandið hefur haldið því fram að ekki hafi að fullu verið staðið við gefin fyrirheit um fjárveitingar til verklegra framkvæmda af ýmsum toga í fjárlögum, fjáraukalögum og í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Miklar umræður hafa þó farið fram milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins að undanförnu og varð það niðurstaða við framlengingu kjarasamninga nú á haustmánuðum að nokkurn veginn hafi verið staðið við fyrirheitin en í því efni séu vafaatriði og sumir þættir óljósir. Má þar til dæmis nefna að ríkisstjórnin vísar til væntanlegra framkvæmda við jarðgöng undir Hvalfjörð sem eru á vegum einkaaðila og á þessu stigi alveg óljóst hvað verður um. Í öðru lagi vísar ríkisstjórnin á það að sveitarfélögin munu væntanlega á næsta ári halda áfram átaksverkefnum hliðstæðum þeim sem unnið var að í sumar og gætu framkvæmdir af þessu tagi numið allt að 500 millj. kr. Í þriðja lagi má nefna það, sem verður að teljast athyglisverðast, að ríkisstjórnin vísar beinlínis til þess að talsverður hluti af fyrirhuguðum viðbótarframkvæmdum á árinu í ár, líklega um 600 millj. kr., muni ekki koma til framkvæmda eða greiðslu fyrr en á næsta ári. Þar sem þessar greiðslur eru ekki taldar með í fjárlagafrv. telur ríkisstjórnin að bæta megi þeim við þær framkvæmdir sem þar eru ráðgerðar og er þá að áliti stjórnarandstöðunnar einu sinni enn verið að ákveða að verja til framkvæmda fjármunum sem búið er að ráðstafa í fjárlögum fyrra árs. Það sama gerðist á síðastliðnu sumri og þrátt fyrir margítrekaðar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. innan þings og utan um að þær framkvæmdir sem ákveðnar hafa verið á fjárlögum og í fjáraukalögum fyrir 1993 muni ekki í neinu hafa áhrif á framkvæmdastig sem ákveðið er á næsta ári er ekki annað að sjá á þessari yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til aðila vinnumarkaðarins en að verið sé að telja með framkvæmdum næsta árs það sem lofað var að verja til framkvæmda á yfirstandandi ári. Sá grunur læðist að manni að við ákvörðun ríkisstjórnar um það í hvaða framkvæmdir skuli fara í sé skotið inn einni og einni framkvæmd sem ekki á að hefja á því tímabili sem kjarasamningar eru í gildi. Þessi loforð til verkalýðshreyfingarinnar eru því sýnd veiði en ekki gefin. Vinnubrögð af þessu tagi átelur stjórnarandstaðan harðlega og telur að hér sé ríkisstjórnin enn að fara með sjónarspil og blekkingar. Ég er reyndar hissa á því að þeir aðilar sem sömdu við ríkisstjórnina um framlög til atvinnuskapandi aðgerða skuli ekki fylgjast með því hvernig þeir fjármunir nýtast. Ríkisstjórnin hefur þar alræðisvald. Tillögurnar um skiptingu þessa fjármagns koma fullmótaðar til afgreiðslu Alþingis og í krafti meiri hluta ríkisstjórnarinnar hljóta þær líklega samþykki þó ljóst sé að hluti þessara verkefna mun alls ekki koma til framkvæmda á þessu ári og líklega ekki heldur á því næsta.

    BSRB hefur þó lagt mikla áherslu á það að fjármunum sé varið til að auka og tryggja atvinnu en hefði viljað sjá meiri áherslu lagða á fjárveitingar til nýsköpunar í atvinnulífinu en til tímabundinna verkefna.
    BSRB hefur einnig haldið því fram að við kjarasamninga árið 1992 hafi verið gefin fyrirheit um húsaleigubætur sem ríkisstjórnin hefur ekki enn staðið við. Efndir á þessum fyrirheitum eru engar enn og eru ekki boðaðar með fjárveitingum í fjárlagafrv. fyrir næsta ár.
    Af þessu má sjá að full ástæða er til að hafa uppi efasemdir um það að ríkisstjórnin ætli sér að standa við á næsta ári þau fyrirheit sem hún hefur gefið launþegasamtökum og aðilum vinnumarkaðarins í tengslum við nýgerða kjarasamninga.
    Í áðurnefndri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til launanefndar aðila vinnumarkaðarins er sérstaklega getið um það að framkvæmd á eingreiðslum til lífeyrisþega vegna launabóta á næsta ári verði ákveðin í nánu samráði við samtök launþega og aðra hagsmunaaðila. Þessi yfirlýsing mun vera gefin vegna þess að í fjárlagafrv. er ekki með sama hætti og í ár gert ráð fyrir fjármunum til þess að greiða þessar eingreiðslur, þ.e. orlofsuppbót, desemberuppbót og láglaunabætur til lífeyrisþega. Fjárveiting í frv. nemur aðeins 370 millj. kr. en kostnaður við þessar greiðslur í ár mun nema tæpum 600 millj. kr. Hér vantar því verulega fjármuni.
    Sömu sögu er að segja um verðuppbætur og bókanir í tengslum við kjarasamninga kennara. Í frv. eru engar fjárhæðir til þess að mæta þeim breytingum sem kunna að verða í tengslum við þessa samninga á árinu 1994. Áætlaður kostnaðarauki vegna þessara fyrirheita og bókana kann að verða um 100 millj. kr. Í brtt. meiri hlutans við frv. er hins vegar aðeins gert ráð fyrir að bæta þetta með 50 millj. kr. framlagi þannig að annaðhvort er ekki gert ráð fyrir að standa við þessi ákvæði kjarasamninganna eða að stjórnendum skólanna ætlað að grípa til enn frekari niðurskurðar.
    Þetta verður að teljast algerlega óviðunandi og ótrúlegt að aðilar vinnumarkaðarins geti gætt sig við að þannig sé farið með hina ýmsu þætti í fjárlögum sem tengjast nýgerðum kjarasamningum.
    Einn áhrifaríkasti þátturinn í efnahagsstefnunni og sá sem hefur e.t.v. mest áhrif á þróun efnahagsmála er þróun vaxta. Vaxtastefna ríkisstjórnarinnar hefur verið mjög mikið gagnrýnd allt frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum en eitt af hennar fyrstu verkefnum var veruleg hækkun vaxta á ríkisverðbréfum sem leiddi til þess að vextir hækkuðu um allt að þriðjung. Stjórnarandstaðan hefur hvað eftir annað lagt hart að ríkisstjórninni að grípa til allra tiltækra ráða til þess að knýja fram vaxtalækkun. Einnig hefur krafan um vaxtalækkun verið mjög áberandi af hálfu aðila vinnumarkaðarins, bæði launþega og vinnuveitenda, og hefur það hvað eftir annað komið fram í viðræðum þessara aðila við ríkisvaldið, t.d. í tengslum við kjarasamninga.
    Fyrir nokkrum dögum greip ríkisstjórnin loks til þess ráðs, knúin af fyrrgreindum aðilum, stjórnarandstöðu í umræðu á þingi og aðilum vinnumarkaðarins, að lækka vexti með aðgerðum sem ávallt hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin gæti beitt, þ.e. með því að ákveða vaxtastig á ríkisverðbréfum og með því að knýja á Seðlabankann að grípa til ráðastafana sem gætu haft áhrif á vaxtaþróun í bankakerfinu. Þessar aðferðir hafa sumir kallað handaflsaðgerðir en aðrir kjósa að tala um handleiðslu og má einu gilda hvort heldur er. Aðalatriðið er það að stjórnvöld sáu sig loks neydd til þess að grípa inn í þróun mála og hefði það sannarlega mátt vera fyrr.
    Vaxtastigið hefur lækkað nokkuð við þessar aðgerðir, einkum þó á verðbréfum ríkissjóðs, og voru miklar væntingar við það bundnar að sú þróun mundi einnig ná til vaxta í bankakerfinu.
    Nú eru hins vegar ýmsar blikur á lofti hvað þetta varðar og má telja nánast sýnt að þessi vaxtalækkun verði skammvinn eða að minnsta kosti að hún hafi ekki þau áhrif sem til var ætlast á vaxtaþróun í landinu. Verður því að beita öllum tiltækum ráðum til þess að vextir lækki á öllum sviðum.
    Á síðasta vaxtaákvörðunardegi kom í ljós að bankarnir töldu sig ekki hafa frekara svigrúm til vaxtalækkunar og lítur þá út fyrir að raunávöxtun á óverðtryggðum lánum sé á bilinu 12--16%. Þetta verður að teljast algjörlega óviðunandi og ljóst að nafnvextir útlána í bankakerfinu eru ekki í samræmi við þau markaðskjör sem nú gilda, t.d. á ríkisverðbréfunum.
    En það er víðar en í bankakerfinu sem vaxtaþróunin virðist vera með öðrum hætti en ríkisstjórnin hefur haldið fram eftir þær aðgerðir sem hún greip til um mánaðamótin október/nóvember. Í nýlegu skuldabréfaútboði Húsnæðisstofnunar ríkisins kemur í ljós að stærstu fjárfestarnir eru ekki tilbúnir til þess að sætta sig við það vaxtastig sem boðið er upp á og krefjast hærri raunávöxtunar en þar var miðað við.
    Sömu sögu virðist mega segja varðandi þróun hjá Iðnþróunarsjóði og Iðnlánasjóði en þar eru vextir enn þá mjög háir og hafa ekki lækkað í samræmi við þá vaxtalækkun sem hefur orðið á verðbréfaþingi og á ríkisverðbréfum að undanförnu. Þar er lækkunin aðeins um 0,5% og raunvextir því enn þá mjög háir hjá þessum sjóðum. Þetta sýnir aðeins og sannar það sem stjórnarandstaðan hefur margsinnis haldið fram að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er kolröng. Það eitt að grípa til aðgerða sem áttu að leiða til vaxtalækkunar til lengri tíma nægir ekki nema samræmdar efnahagsaðgerðir fylgi í kjölfarið og fjármunum verði varið til þess að efla þróunar-, rannsókna- og markaðsstarfsemi. Slíkar aðgerðir hefðu orðið til þess að auka bjartsýni, áræðni og þor fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga í landinu. Vissulega hefði mátt vænta þess að hér væri um að ræða aðgerðir sem hefðu varað til lengri tíma en nú er útlit fyrir. Vaxtalækkun til skemmri tíma mun hafa lítil áhrif á þróun efnahags- og atvinnumála í landinu á næsta ári.

Einnig er spurning hverjum þessi lækkun vaxta kemur til góða. Mikið hefur verið skrifað og sagt um það hvað fjölskyldurnar mega vera þakklátar fyrir þessa vaxtalækkun. Sérstaklega lágtekjuhóparnir. Það kom mér því á óvart þegar ég sá fyrir stuttu síðan skuldabréf sem fátækur fjölskyldufaðir hafði fengið hjá Landsbanka Íslands þar sem honum var gert að greiða mun hærri vexti af láninu sem hann tók en þeir vextir eru sem kynntir hafa verið eftir vaxtalækkunina. Skýringin sem þessi einstaklingur fékk á þessum háu vöxtum var sú að þar sem greiðslugeta hans væri lítil og veðin ekki nógu trygg þá lenti hann í hærri vaxtaflokki en þeir sem ættu næg veð og hefðu meiri greiðslugetu. Það var sem sé verið að láta hann gjalda fátæktar sinnar. Vaxtalækkunin var ekki fyrir þessa fjölskyldu heldur fyrir þá sem meiri efni hafa. Ég hef áður nefnt þörfina fyrir að tryggja að sú vaxtalækkun sem náðist fram með handafli hæstv. viðskrh. eftir forskrift aðila vinnumarkaðarins verði varanleg. En það þarf ekki síður að tryggja að vaxtalækkunin nýtist þeim fjölskyldum sem minnstar tekjur hafa.
Virðulegi forseti ég ætla ekki að fara ítarlega í einstaka málaflokka eða framlög til einstakra stofnana og ráðuneyta, það munu aðrir fulltrúar minni hluta fjárln. gera hér á eftir.
    Þó eru það nokkur atriði í nál. okkar sem ég ætla að minna á. Í fyrsta lagi eru það málefni sem heyra til félagsmálaráðuneytis en þar er gert ráð fyrir að rekstrarútgjöld og tilfærslur hækki um 28% milli ára.
    Framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hækkar um 600 millj. kr. Þetta þýðir þó ekki hækkun á rauntekjum sjóðsins því að framlagið er í stað landsútsvars sem fellur niður og afnumin er skerðing til sjóðsins upp á 100 millj. kr. sem var á fjárlögum yfirstandandi árs. Sjóðurinn fékk 250 millj. kr. á fjáraukalögum 1993 til að standa straum af greiðslum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga vegna barnsmeðlaga. Ekki er gert ráð fyrir þessari upphæð á fjárlögum fyrir árið 1994 og því borið við að innheimta verði betri en á árinu 1993. Ekkert bendir til þess að straumhvörf verði í þessum efnum. Allt eins er líklegt að þessi viðbótarútgjöld lendi á sveitarfélögunum á næsta ári.
    Þar að auki er mjög óskýrt eftir hvaða reglum Jöfnunarsjóðurinn á að vinna í framtíðinni eða hvernig tekjujöfunarframlög hans ríma við frumvarp um tekjustofna sveitarfélaga sem liggur fyrir félmn. Alþingis. Frv. um málefni Jöfnunarsjóðsins er í vinnslu og er ekki komið fram. Því er mjög óljóst hvernig Jöfnunarsjóðurinn á að fara að því að standa við skuldbindingar sínar með þeim fjármunum sem honum eru ætlaðir samkvæmt frv.
    Gert er ráð fyrir að Framkvæmdasjóður fatlaðra taki þátt í ákveðnum rekstrarverkefnum, svo sem aðstoð við fatlaða sökum félagslegrar hæfingar og endurhæfingar. Kostnaður við þetta er áætlaður 42,2 millj. kr. Sjóðurinn verður fyrir tekjumissi upp á 30 millj. kr. vegna lægri tekjuáætlunar af erfðafjárskatti. Minni hlutinn bendir á þessar lækkuðu tekjur um leið og sjóðurinn fær aukin verkefni án þess að lagst sé gegn þeirri hugmynd að sjóðurinn taki þátt í afmörkuðum rekstrarverkefnum sem geta samrýmst upprunalegu markmiði hans sem er að jafna stöðu fatlaðra og ófatlaðra í landinu.
    Einnig er á það bent að málefni Sólheima í Grímsnesi hafa ekki fengið afgreiðslu fjárln. en með bréfi þann 18. okt. 1993 vísar félmrn. þeim til nefndarinnar. Þjónustusamningur hefur ekki verið gerður og málefni stofnunarinnar eru í algerri óvissu með þeim fjárveitingum sem henni eru ætlaðar í frv.
    Brunamálastofnun er ætlað að hækka sértekjur um 11,9 millj. króna og Vinnueftirlit ríkisins á að hækka sínar sértekjur um 4,1 millj. og er það í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að innheimta skatta í formi sértekna sem nefnd eru þjónustugjöld.
    Húsnæðisstofnun ríkisins er ætlað að spara 24 millj. kr. í rekstri á árinu 1994. Ekki liggur nein áætlun að baki þessari tölu. Þótt ljóst sé að einhver sparnaður verði þegar starfsfólk, sem sagt var upp á síðasta ári, fer af biðlaunum hjá stofnuninni og möguleikar séu á því að leigja húsnæði sem hefur losnað er bent sérstaklega á að á stofnunina hlaðast nú mikil verkefni vegna greiðsluerfiðleika fólks og ráðgjafar vegna þeirra. Þetta er í beinum tengslum við þá efnahagserfiðleika sem eru í þjóðfélaginu og speglast í því að skuldir einstaklinga hafa margfaldast, ekki síst vegna afborgana og vaxta af húsbréfum og lánum vegna húsnæðis.
    Liðurinn Vinnumál lækkar frá fyrra ári á sama tíma og ný verkefni eru sett á beint inn í þennan fjárlagalið. Aðilar vinnumarkaðarins gegna miklu hlutverki í mótun efnahagsstefnu og í því að veita stjórnvöldum aðhald í opinberri umræðu. Styrkurinn hefur verið veittur til þess að efla þetta hlutverk. Auk þess hefur styrkurinn verið notaður til þess að auka hagræðingu hjá aðildarfélögum aðila vinnumarkaðarins.
    Til framkvæmdaáætlunar um jafnréttismál er veitt 3,2 millj. kr. Hins vegar gengur frumvarpið skammt til móts við það frumkvæði sem konur hafa sýnt í atvinnumálum. Til atvinnumála kvenna er veitt 15 millj. kr. og hefur félmrn. sótt um að breyta nafninu á fjárlagaliðnum Atvinnumál kvenna á landsbyggðinni í Atvinnumál kvenna. Minni hlutinn telur fulla þörf fyrir stuðning við atvinnumál kvenna um land allt en telur 15 millj. kr. hvergi nærri þeirri þörf sem fyrir hendi er.
    Í stjórnartíð núv. ríkisstjórnar hefur hvað eftir annað að frumkvæði hæstv. heilbrrh. verið gerð hörð hríð að uppbyggingu og skipulagi heilbrigðisþjónustunnar og almannatryggingakerfisins. Stjórnarandstaðan hefur mótmælt þessum aðgerðum harðlega og talið að með þeim væri verið að skaða uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar sem gæti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar þegar til lengri tíma er litið. Jafnframt er með breytingum á almannatryggingarkerfinu verið að raska eða breyta verulega þeirri stefnu sem velferðarkerfi okkar hefur byggst á og verið hornsteinn hennar. Þar á ég við samhjálp þjóðarinnar allrar og

samtryggingu sem leiddi til þess að þeir sem minna mega sín eða verða undir í lífsbaráttunni af einhverjum ástæðum geta átt það tryggt að almannatryggingakerfið veiti þeim þá aðstoð sem nauðsynleg er. Breytingar þessar hafa verið gerðar undir formerkjum nauðsynlegs aðhalds og sparnaðar í opinberum rekstri og skal síst gert lítið úr þeim viðhorfum og markmiðum en stjórnarandstaðan hefur haldið því fram að þarna hafi ekki verið farið rétt að. Unnið hefur verið flausturslega að ýmsum breytingum og þær oftar en ekki þurft að endurskoðast jafnharðan. Ýmist hafa þær verið dregnar til baka eða breytt verulega. Nú þegar hægt er að líta á aðgerðir þessar með nokkurri reynslu þegar tvö ár eru liðin af valdatíma ríkisstjórnarinnar kemur í ljós að sparnaðurinn er sáralítill ef nokkur af öllu þessu brölti. Breytingarnar hafa á hinn bóginn valdið verulegu óhagræði og í sumum tilfellum tjóni.
    Verulegur hluti þessara breytinga felst í því að stórauka svokölluð þjónustugjöld, þ.e. greiðslur þeirra sem þurfa á aðstoð heilbrigðis- og tryggingakerfis að halda, fyrir þá þjónustu sem veitt er. Þetta er gert með þeirri röksemdafærslu að með því sé verið að auka kostnaðarvitund einstaklinga. Sannleikurinn er auðvitað sá að hér er um stóraukna skattheimtu að ræða og verið að færa skattálögurnar frá því kerfi að menn greiði skatta sérstaklega eftir efnum og ástæðum í það form að einstaklingarnir greiði sérstaklega fyrir opinbera þjónustu. Með þessu er horfið frá þeirri samhjálp sem þjóðarsátt hefur verið um. Þessu hefur stjórnarandstaðan mótmælt harðlega og gerir enn.
    Sé borinn saman ríkisreikningur tveggja seinustu ára, fjárlög þessa árs og fjárlagafrv. fyrir næsta ár kemur í ljós að veruleg hækkun er á þjónustugjöldunum. Er þó ekki allt talið því að greiðslur einstaklinga fyrir lyf og fyrir sérfræðiþjónustu ýmiss konar koma hvergi fram. Þær lækka aðeins þann reikning sem apótekin og sérfræðingarnir senda tryggingakerfinu en sjást hvorki í ríkisreikningi né öðrum opinberum skýrslum. Þess vegna er ekki auðvelt að átta sig á hversu mikil hækkun hefur orðið á þessum greiðslum á undanförnum árum en ljóst að hún er gífurleg og miklu meiri en fram kemur í opinberum tölum. Ef litið er á hækkun þjónustugjalda og sértekna hjá heilbr.- og trmrn. frá árinu 1990 kemur í ljós að það ár hafa þessar tekjur samkvæmt ríkisreikningi numið 1.516 millj. kr. Árið 1991 er þessi upphæð 2.372 millj. kr. og árið 1992 er upphæðin komin í 2.733 millj. kr. Þetta þýðir hækkun
samtals upp á 1.217 millj. kr. eða 80,3%.
    Í greinargerð fjárlagafrv. er getið um nokkra liði sem eiga að leiða til umtalsverðrar lækkunar á útgjöldum lífeyris- og sjúkratrygginga. Flestar eru þessar tillögur gamlir kunningjar og hefur ekki allt gengið fram á undanförnum missirum eins og ríkisstjórnin hefur áætlað. Má þar fyrst nefna hugmyndir um að lækka eingreiðslu til lífeyrisþega um 200 millj. kr. svo sem áður er getið en síðan hefur aðilum vinnumarkaðarins verið gefið loforð um að þessar greiðslur verði svo til óbreyttar á næsta ári.
    Í öðru lagi var fyrirhugað að lækka lífeyrisgreiðslur vegna áforma um að tekju- og eignatengja greiðslurnar og átti að spara 200 millj. kr. Nú er samkvæmt upplýsingum frá heilbr.- og trmrn. einnig fallið frá þeim hugmyndum, enda ekki uppi áform um það taka upp eigna- og fjármagnstekjuskatt en sú skattalagabreyting er forsenda þess að hægt sé að tekju- og eignatengja lífeyrisgreiðslurnar.
    Í þriðja lagi var áformað að tekjutengja ekkjulífeyri og átti það að skila um 50 millj. kr. Nú er dregið úr þeim sparnaðaráformum um helming eða 25 millj. kr. Að lokum var áætlað að herða eftirlit með útgreiðslum bóta og átti það að gefa af sér um 75 millj. kr. Slík áform hljóta þó að vera mjög óljós og óvíst til hvaða sparnaðar þau geta leitt. Enda þótt einhver sparnaður næðist af þessum ráðagerðum má ljóst vera að ákvarðanir sem teknar hafa verið eftir að fjárlagafrv. var samið leiða til lækkunar á sparnaðaráformum um 450--500 millj. kr. á þessum eina lið. Í sjúkratryggingunum var áætlað að spara 730 millj. kr. Hæsta upphæðin þar var tekjur af heilsukortum upp á 400 millj. kr. sem nú hafa verið felldar niður. Annað varðaði breytt greiðslufyrirkomulag til lækna, endurskoðun á greiðslum fyrir röntgenmyndatökur og rannsóknir og endurskoðun á fyrirkomulagi lyfjaverðlagningar.
    Sýnt er að frumvarpið er að þessu leyti til með mörgum óvissuþáttum og hugmyndum sem komið hafa fram síðustu daga og verið sýndar í fjárln. til að mæta þessu tekjutapi og eru ekki mjög trúverðugar svo ekki sé meira sagt. Þar er t.d. gert ráð fyrir því að spara enn 180 millj. kr., m.a. með því að draga úr útgjöldum vegna hjálpartækja um 50 millj. með því að hjálpartækin verði boðin út. Draga á úr greiðslum fyrir læknisaðgerðir sem framkvæmdar eru erlendis. Þar á að spara 15 millj. kr., en ekki gert ráð fyrir því að það leiði til neins kostnaðarauka á sjúkrastofnunum innan lands sem hlýtur að þýða að það eigi þá hreinlega að fækka þessum aðgerðum og láta sjúklinga búa við það að fá ekki læknismeðferð ef ekki verður hægt að sinna þeim hér heima. Sjúkradagpeningagreiðslur eiga einnig að lækka um 15 millj. kr. með því að draga á úr greiðslum sjúkradagpeninga til einstaklinga sem dveljast lengi á stofnunum. Loks á enn að auka sparnað í lyfjakostnaðinum upp á 100 millj. kr. Þessu til viðbótar hafa áform heilbr.- og trmrn. að ríkið hætti rekstri leikskóla og sjúkrastofnana ekki gengið fram. Sú aðgerð átti að spara um 200 millj. kr. Því þarf að hækka fjárveitingar til rekstrar skólanna um 80 millj. kr. Nær helmingur af þeirri upphæð er þá tekinn af rekstrarhagræðingarfé ráðuneytis svo að nettóhækkun er um 40 millj. kr.
    Í frv. er gert ráð fyrir að taka upp nýjan tekjulið á sviði heilbrigðismála. Er hér um að ræða meðferðargjöld sem áfengissjúklingum er ætlað að greiða fyrir dvöl á meðferðarstofnunum. Á þessi nýi sjúklingaskattur að skila um 40 millj. kr. Þessu hefur ekki enn verið breytt og er þá líka eina sparnaðartillaga hæstv. heilbrrh. sem enn stendur óhögguð. Það verður að teljast í fullu samræmi við aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á sviði heilbrigðis- og tryggingamála, þ.e. að láta sjúklingana borga. Ýmsir forsvarsmenn á

sviði heilbrigðismála hafa varað eindregið við þessari hugmynd og telja að innheimta muni verða mjög erfið. Tómas Helgason prófessor, forstöðulæknir á geðdeild Landspítalans, spyr í grein í Morgunblaðinu nýlega hvers vegna þessir sjúklingar séu neyddir til að leita aðstoðar Félagsmálastofnunar um greiðslu meðferðar frekar en aðrir sjúklingar. Nýlega sendu læknar við FSA frá sér svohljóðandi tillögu, með leyfi forseta:
    ,,Fundur læknaráðs Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri hinn 6. des. 1993 skorar á heilbr.- og trmrh. og alþingismenn að hætta við þá gjaldtöku af áfengissjúklingum á sjúkrastofnunum sem áformuð er í frv. til fjárlaga fyrir ári 1994 vegna þess að slík mismunun gagvart þeim sjúklingahópi samræmist ekki siðum lækna og annarra heilbrigðisstétta og er líkleg til að auka útgjöld þjóðfélagsins vegna heilsutjóns af völdum áfengis og annarra fíkniefna.``
    Undir þessa áskorun vill minni hluti fjárln. taka og væntir þess að hæstv. heilbrrh. og aðrir stjórnarliðar komi í veg fyrir þá mismunun sem felst í því að áfengissjúklingar þurfa að greiða fyrir meðferð sjúkdóms síns eða eiga á hættu að skaðinn verði óbætanlegur ef þeir geta ekki borgarð.
    Helsta breytingin sem frv. gerir ráð fyrir í dóms- og kirkjumálum er að útgjöld til sýslumannsembætta dragist saman um 90 millj. kr. frá fjárlögum 1993 vegna fækkunar embætta og skipulagsbreytinga sem því fylgja. Fjárln. hefur engar uppýsingar fengið sem rökstyðja þennan sparnað og draga má í efa að þessi aðgerð njóti stuðnings meiri hluta þingmanna. Minni hluti fjárln. telur þessa aðgerð lítt grundaða og engan rökstuðning er fyrir því að finna í frv. að þessi sparnaður nái fram að ganga nema þjónusta þessara embætta skerðist stórlega. Alls er óvíst um framgang þess máls vegna ósamkomulags í stjórnarliðinu sem er þar líkt og á fleiri sviðum.
    Þá vil ég nefna nauðsyn þess að taka sérstaklega á málum sem lúta að fangelsum, fangavist og Fangelsismálastofnun. Sá málaflokkur hefur ekki um nokkurt árabil fengið þá hækkun á fjárlögum sem nauðsynleg er og vonast ég til að hægt verði að ræða þessi mál milli 2. og 3. umr. fjárlaga.
    Erindi biskups Íslands um stöðu aðstoðarpresta var hafnað. Þar var um að ræða þrjár stöður í fjölmennum prestaköllum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Benda má á í þessu sambandi að álag á sóknarpresta í fjölmennum sóknum er mjög mikið, ekki síst í því efnahags- og atvinnuástandi sem nú er, þegar leitað er til þeirra í miklum mæli af þeim sem höllum fæti standa í lífsbaráttunni. Sömuleiðis var hafnað umsókn um prestsembætti í Gautaborg en benda má á að slíkt embætti þar gæti verið þýðingarmikið vegna fjölda sjúklinga sem leitað þangað vegna aðgerða sem þeir þurfa að gangast undir en kostnaður ríkissjóðs vegna sérstakra fylgdarmanna þeirra er um 10 millj. kr. á ári hverju. Einnig gæti prestur í Gautaborg þjónað hinni fjömennu Íslendingabyggð í Svíþjóð.
    Minni hluti fjárln. telur miður að slík erindi sem hér um ræðir skuli ekki fá betri undirtektir en raun ber vitni.
    Svo virðist sem tekjustofnar til vegamála standist í meginatriðum. Það mun þó hafa í för með sér hækkun á bensíngjaldi sem nemur um það bil tveimur krónum á lítra. Útfærsla á þeim lið bíður 3. umr. og verður gerð grein fyrir þeim áhrifum á tekjuhlið fjárlaga.
    Framlög til ferja og flóabáta eru nú tekin af rekstrarfé Vegagerðarinnar og er þar um 530 millj. kr. að ræða. Þar er á ferðinni stefnubreyting þar sem sérstakt framlag til reksturs ferja og flóabáta hefur ekki áður verið tekið eingöngu af fé til vegamála. Á síðsta ári fóru 300 millj. kr. í þennan lið þó vitað væri að það nægði ekki, samanber töflu um áætlaðan kostan um ferjur og flóabáta árin 1993--1996. Það kemur síðan í ljós í fjáraukalögum fyrir árið 1993 þar sem 50 millj. kr. framlag er til ferjureksturs. Skerðing á mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar er um 370 millj. og lögbundinn tekjustofn Vegagerðarinnar þar með notaður til tekjuöflunar fyrir ríkissjóðs. Þarna eru samtals 900 millj. kr. og er það sama upphæð og ríkisstjórnin kallar framkvæmdaátak í vegagerð á næsta ári eða kr. 900 millj. Framkvæmdaátakið er svo þar að auki fært sem lán hjá Vegagerð sem greiðast skal á næstu árum af afmörkuðum tekjustofnum. Minni hlutinn mótmælir þessari málsmeðferð og telur að réttara hafi verið að Vegasjóður héldi sínum tekjustofnum og hið svokallaða framkvæmdaátak yrði lækkað um þá upphæð sem nemur skerðingunni. Átakið fer beint í rekstur ferja og flóabáta og sem framlag í ríkissjóð.
    Hafnaáætlun tekur mið af frv. til hafnalaga sem tvisvar hefur verið lagt fram á Alþingi án þess að hljóta afgreiðslu og það er því ljóst að verði frv. ekki samþykkt á þessu þingi þá breytast forsendur hafnaáætlunar þar sem greiðsluhlutfall ríkisins er þar annað en í núgildandi lögum. Minni hlutinn telur það aðfinnsluvert að miða hafnaáætlun við ósamþykkt lög. Í greinargerð með fjárlagafrv. er hins vegar sagt að fjárveitingar til hafnamála miðist við gildandi hafnalög. Þarna er ósamræmi á milli.
    Fjarskiptaeftirlit ríkisins er ný stofnun sem á að fjármagnast með sértekjum upp á 56 millj. kr. Þar er verið að auka kostnað þeirra sem þurfa að nota þjónustu stofnunarnnar. Er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar sem í síauknum mæli hleður kostnaði við opinbera þjónustu sem skylt er að nýta yfir á notendur þjónustunnar og ég hef margsýnt fram á í þessari umræðu.
    Niðurskurður fjár til rannsókna í sjávarútvegi og fiskvinnslu annað árið í röð er áhyggjuefni. Í fjárlagaliðnum Gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir var framlag skorið niður um meira en helming í fyrra, úr 51,2 millj. kr. í 21,3 millj. kr. Í ár er enn sama skerðing til þessa mikilvæga málaflokks. Þetta merkir m.a. að fjárveiting til aflanýtingarnefndar var skorin niður úr 20 millj. í 9 millj. í ár og líkur á að svipað mundi endurtaka sig á næsta ári. 5 millj. kr. hækkun breytir ekki miklu þar um þar sem

verkefni undir þessum safnlið eru aukin. Aflanýtingarnefnd er samstarfsverkefni ýmissa aðila, m.a. Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Á vegum hennar hefur verið veitt til ýmissa grunnrannsókna, langtímarannsóknaverkefna og stutt við nýsköpun í sjávarútvegi og fiskvinnslu.
    Í skýrslu OECD sem mikla athygli vakti á sl. ári er bent á að Íslendingar veiti allt of litlu fé til grunnrannsókna, tilraunaverkefna og langtímarannsókna. Þessar greinar eru undirstaða framfara í nútímasamfélagi. Skerðing fjár til rannsókna í sjávarútvegi og fiskvinnslu getur því reynst okkur dýr sparnaður.
    Í áliti sjútvn. um fjárlagafrv. er lýst áhyggjum vegna skerðingar fjár til rannsókna og þróunar í sjávarútvegi. Undir þær athugasemdir tekur minni hluti fjárln. Einnig skal bent á þá óþolandi óvissu sem ríkir um fjárveitingar til Hafrannsóknastofnunar sem á þessu ári varð að bjarga með aukafjárveitingu vegna þess að óraunhæfar hugmyndir um sölu aflaheimilda Hagræðingarsjóð brugðust.
    Að lokum vil ég nefna aðeins málefni fjmrn. Heildarútgöld þessa ráðuneytis eru áætluð 16,4 milljarðar kr. og aukast samkvæmt frv. um 6% frá núgildandi fjárlögum en um 25% frá ríkisreikningi 1992. Útgjöld til ráðuneytis munu þó aukast nokkuð enn vegna sérstakra ráðstafana til þess að auka skatteftirlit og innheimtu. Það tel ég hins vegar vera af hinu góða. Þau framlög munu áreiðanlega skila sér þegar til lengri tíma er litið.
    Sérstök ástæða er til að nefna aðrar fjárhæðir sem fram koma í frv. til fjárlaga. Vaxtagreiðslur hafa aukist frá ríkisreikningi 1992 um 3,4 milljarða kr. eða um 40% og munu vaxtagreiðslur á næsta ári nema um 11,7 milljörðum kr. samkvæmt áætlun fjárlaga. Það er því ljóst að verulegu máli skiptir fyrir málefni ríkissjóðs hvernig vaxtastigið er.
    Enn er eftir að fjalla um marga mikilvæga þætti frv. til fjárlaga fyrir 1994, svo sem landbúnaðarmál, mennta- og menningarmál og umhverfismál. Öllum þessum málaflokkum eru gerð skil í nefndaráliti minni hluta fjárln. og þar er einnig kafli þar sem sérstaklega er tekið á því hvernig ríkisstjórnin hyggst samkvæmt frumvarpinu taka á málefnum fjölskyldunnar á ári fjölskyldunnar 1994. Öllum þessum atriðum verða gerð skil í löngum og ítarlegum ræðum annarra fulltrúa minni hlutans hér á eftir. En lokaorð nefndarálitsins eru þessi, með leyfi forseta:
    ,,Í flestum þjóðþingum er það talið meginverkefni þingmanna að setja landi sínu fjárlög. Til fjárlagagerðar eru því gjarnan valdir þeir þingmenn sem langa þingreynslu hafa og mikla þekkingu á ríkisfjármálum vegna starfa sinna innan þings eða utan. Þessi skilningur var enda áréttaður af forsetum Alþingis þegar unnið var að þeirri breytingu að þingið skyldi starfa í einni deild. Lögð var áhersla á að efla starfsemi fjárln. gagnvart framkvæmdarvaldinu, sem nokkuð hafði þótt á skorta um árabil, og sérstakur starfsmaður var ráðinn til að vinna með nefndinni. Þá var húsnæðisaðstaða nefndarinnar bætt til muna með því að tekið var á leigu húsið nr. 14 við Austurstræti.
    Forsetar Alþingis bentu á að flokkadrættir um smæstu atriði væru ekki við hæfi þegar fjárlagagerðin væri annars vegar þó að viðurkennt væri að kjörinn meiri hluta mótaði að sjálfsögðu meginstefnu. Rétt minni hlutans skyldi virða en hann skyldi jafnframt sæta rétti meiri hlutans.
    Forsetar töldu ástæðu til að fjárlaganefndarmenn færu til nágrannalands og kynntu sér hvernig fjárlagavinna færi fram þar sem vitað var að menn hefðu náð góðum árangri við fjárlagagerð. Varð Noregur fyrir valinu. Af einhverjum ástæðum fór þó svo að aðeins þrír nefndarmanna tókust þessa ferð á hendur, formaður nefndarinnar, Karl Steinar Guðnason, sem nú hefur látið af þingmennsku, Sturla Böðvarsson og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir og fylgdi þeim starfsmaður nefndarinnar, Sigurður Rúnar Sigurjónsson. Skýrsla Jónu Valgerðar um þessa ferð fylgir með þessu nefndaráliti þingmönnum til upplýsingar.
    Það vakti athygli þingmannanna að stjórnarandstæðingur var formaður fjárln. norska Stórþingsins og engar sögur fóru að því að ríkisstjórn Verkamannaflokksins væri í hættu þess vegna. Þar í landi umgangast menn lýðræðið af virðingu og þess vegna virða þingmenn aðra kjörna þingmenn án tillits til flokkspólitískra skoðana. Eftir tveggja ára samstarf við meiri hluta fjárln. telur minni hluti nefndarinnar fulla ástæðu til að önnur ferð verði farin til að kynna fleiri nefndarmönnum starfshætti þjóðþinga þar sem yfirgangssemi og tillitsleysi er talið rýra traust og virðingu þingsins og vera vísasti vegur til aðskilnaðar og vantrausts milli þings og þjóðar.``