Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 13:36:12 (2404)

[13:36]
     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar fyrir árið 1994 er komið til 2. umr. í hv. Alþingi eftir mikil og ströng fundahöld í fjárln. samkvæmt venju. Minni hluti fjárln. hefur lagt fram ítarlegt nál. þar sem farið er yfir hina ýmsu þætti sem við sem skipum minni hlutann töldum ástæðu til þess að draga fram og árétta varðandi þau vinnubrögð sem við teljum að viðhöfð hafi verið og þau efni ýmis sem okkur finnst að ástæða hefði verið að fjalla meira um og láta koma betur fram. Frsm. minni hlutans, hv. 4. þm. Suðurl., hefur gert ítarlega grein fyrir þessu nál. í langri ræðu og þarf ég því ekki að fara mörgum orðum um það frekar en langar þó að árétta nokkur atriði eða fylgja frekar eftir og e.t.v. bæta við, enda finnst mér að af mörgu sé að taka. Ég tel að frv. þetta sem liggur fyrir og er til 2. umr. staðfesti í raun það skipbrot sem efnahagsstefna núv. ríkisstjórnar hefur beðið.
    Það má auðvitað segja að þau fjáraukalög sem Alþingi samþykkti fyrir nokkrum dögum fyrir árið í ár hafi verið undirstrikunin á það fjárlagafrv. sem hér var lagt fram fyrir ári síðan og samþykkt, sem gerði ráð fyrir halla upp á rúma 6 milljarða kr. Nú hafa hins vegar fjáraukalög staðfest að hallinn er ekki 6, hann er ekki heldur 12, hann er ekki helmingi meiri, hann er 14 milljarðar. Það eru 14 milljarðar kr. sem blasa við að verði halli ríkisfjármála á þessu yfirstandandi ári. Og fjárlagafrv. sem við tökum nú til 2. umr. gerir ráð fyrir 10 milljarða halla. Þetta hljóta að vera alvarleg tíðindi fyrir ríkisstjórn sem boðaði það í upphafi starfsferils síns að stefna ætti á hallalaus ríkisfjármál og ekki hægt að túlka þetta nema á þann hátt að hér hafi efnahagsstefnan í raun beðið skipbrot. Auðvitað er fjárlagafrv. veigamikill þáttur, kannski undirstöðuþáttur í efnahafsstefnunni og því hlýtur það að segja okkur æðimikið hvernig það lítur út og hvernig það gengur fram, hvernig ríkisstjórninni tekst að standa við þá stefnu sem þar er boðuð.
    En það er fleira sem vekur ugg varðandi ástandið í þjóðfélaginu en bara niðurstöðutala fjárlaganna. Það er ýmislegt sem þeim fylgir annað og kemur víða fram í þjóðfélaginu. Atvinnuleysið hefur ekki verið meira um áratuga skeið og hætt er við að það eigi enn eftir að vaxa miðað við óbreytta stjórnarstefnu. Við fáum daglegar fréttir af fyrirtækjum sem lenda í greiðsluerfiðleikum, þurfa að biðja um greiðslustöðvun og því miður oftar en ekki endar sá ferill með gjaldþroti viðkomandi fyrirtækis með ómældum erfiðleikum fyrir bæði atvinnulífið og fyrir einstaklingana. Gjaldþrotin ríða yfir og það sem verra er að það má kannski líta á þau sem hluta af stjórnarstefnu hæstv. ríkisstjórnar. Þau eru notuð til þess að hreinsa til í atvinnulífinu, þau eru notuð til þess að færa til eignir og fjármuni í þjóðfélaginu. Tekjuskipting og launamunur vex stórlega með hverjum degi, hverri viku, hverjum mánuði sem líður. Stóreignamennirnir skara eld að sinni köku með skattfrjálsum fjármagnstekjum meðan svo er og virðist ekki að breyting verði á því samkvæmt því sem þetta fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Að vísu er rétt að taka fram að enn er eftir að fjalla um tekjuhlið frv. og verður það gert milli 2. og 3. umr. og er hugsanlegt að þá komi fram einhverjar nýjar upplýsingar um það hvernig ríkisstjórnin hyggst reyna að draga úr ríkissjóðshallanum eða mæta þeim vanda sem við blasir en lítið höfum við minnihlutamenn a.m.k. fengið enn þá um það að vita hvað er fram undan.
    En það eru ekki bara þessir þættir sem við öllum blasa og skapa alvarlegt ástand í atvinnulífinu og í efnahagsmálunum, heldur eru það ýmsir þættir sem varða velferðarkerfið okkar og samhjálpina sem einnig valda okkur ugg og við höfum áhyggjur af sem skipum minni hluta fjárln. og ég hygg að svo eigi við um a.m.k. alla stjórnarandstæðinga hér á hv. Alþingi og ekki er ég grunlaus um að það kunni að eiga við einnig einhverja stjórnarliða.
    Skólagjöldin og breyttar lánareglur Lánasjóðs ísl. námsmanna hindra ungt fólk í að leita sér menntunar. Hlýtur það út af fyrir sig að vera alvarlegt áhyggjuefni fyrir framtíð þjóðarinnar og þjónustugjöld og auknar kröfur um sértekjur á heilbrigðisstofnunum færa skattbyrðina til í svo stórum stíl að skiptir milljörðum. Ég fullyrði að það skiptir milljörðum og kem kannski aðeins nánar að því síðar. Þessir milljarðar eru færðir frá þeim sem tekjur hafa til þess að greiða skattana sína til þeirra sem sjúkir eru og þurfa nauðsynlega á heilbrigðisþjónustunni og velferðarkerfinu okkar að halda. Það er hið alvarlega í þessari stefnu, virðulegi forseti.
    Ég verð nú að segja það, hæstv. forseti, að mér þykir nokkrum undrum sæta að hæstv. fjmrh. sjái ekki ástæðu til þess að fylgjast með umræðum hér í hv. þingi um þetta fjárlagafrv. sitt þó að hann geti varla verið mjög stoltur af því. Einnig tel ég að hv. formaður fjárln. ætti að fylgjast með umræðunni og kann að vera að hann geri það hér í húsinu af því að menn hafa auðvitað tækifæri til að gera það annars staðar en hér í þingsal. Einnig er svo með fleiri hæstv. ráðherra, virðulegur forseti, sem varðar náttúrlega framgang fjárlagafrv. Það eru margir stórir málaflokkar sem hlýtur að vera eðlilegt að þeir sinni með því að fylgjast með því hvaða framgang þetta aðalmál ríkisstjórnarinnar hefur.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. fjmrh. er í símanum og kemur rétt strax hér í þingsalinn.)
    Ég þakka, virðulegur forseti, fyrir það og skil það að menn þurfi í löngum umræðum að víkja sér frá og er út af fyrir sig ekkert við því að segja. Almennt hefur hæstv. fjmrh., sem nú gengur í salinn, setið vel undir umræðu um hans mál og ber síst að ásaka hann fyrir það að sinna ekki sínum þingskyldum en mér finnst að það eigi við um suma aðra ráðherra að þeir mættu sitja hér betur.
    Allt þetta sem ég hef tínt til hér á undan, virðulegur forseti, um ástandið í efnahags- og atvinnumálunum, um ástandið í menntamálunum, heilbrigðis- og tryggingamálunum og félagsmálunum lýsir í raun rétt stefnu þessarar ríkisstjórnar. Þetta er raunverulega allt í anda hinnar svokölluðu frjálshyggju þar sem hinn ríki og hinn sterki verður ofan á á kostnað þess veika og þess sem minna má sín og verður undir. Það er verið að hverfa frá þeirri stefnu sem við höfum kallað samhjálp og sem segja má að þjóðarsátt hafi þó í raun og veru ríkt um. Það er mjög sterk samkennd með þjóðinni, en svo virðist þó vera að hæstv. ríkisstjórn sé með stefnu sinni að takast að breyta þessum grundvallargildum. Og það er í raun alveg óskiljanlegt að flokkur sem kennir sig þó enn við jöfnuð og jafnaðarstefnu skuli taka þátt í þessu skemmdarverki, ég leyfi mér að segja skemmdarverki, sem verið er að vinna á íslensku þjóðfélagi. Já, virðulegur forseti. Það er svo sannarlega af mörgu að taka í umræðum um þetta fjárlagafrumvarp.
    Mig langar þó fyrst að ræða ofurlítið um vinnubrögð eða vinnutilhögun í hv. fjárln. Árið 1991 gerði hv. Alþingi breytingu á lögum um þingsköp Alþingis þar sem m.a. var breytt um þá tilhögun að þingið var allt flutt í eina málstofu. Það voru gerðar ýmsar aðrar breytingar sem áttu að leiða til þess að þingið ynni betur saman að hinum ýmsu verkefnum, væri sjálfstæðara frá framkvæmdarvaldinu sem það auðvitað á skilyrðislaust og tvímælalaust að vera sem löggjafi og er einn af meginþáttum í stjórnskipun landsins. Einnig var gert ráð fyrir því að nefndastörf og önnur störf í þinghaldinu gætu breyst nokkuð með þessum nýju þingskapalögum. Í haust gerði Alþingi síðan enn frekari breytingar á þingsköpunum til þess að árétta þessa stefnu sína ef ég skildi rétt og ég hygg að svo hafi verið með fleiri hv. þm. Þeir hafi álitið að það væri tilgangur breytinganna. Það náðist t.d. í framhaldi af því samkomulag um að fela hv. stjórnarandstöðuþingmönnum meiri verkefni við stjórn eða starfsemi þingsins og voru sumir þeirra kosnir til formennsku í einstökum nefndum. Vinnubrögð voru auðvitað rædd í upphafi starfa fjárln. á sl. hausti hvernig haga skyldi vinnunni á þessu þá nýbyrjaða þingi við að vinna úr fjárlagafrv. Minni hlutinn lýsti vilja sínum til þess að taka meiri þátt í úrvinnslu erinda en hann taldi að áður hefði verið gert. Vísa ég þar reyndar til umræðu um svipað mál bæði fyrir ári síðan og tveimur árum síðan þegar sest var niður við vinnu að hausti og því heitið að farið yrði rækilega yfir þau erindi sem nefndinni berast og nefndarmenn verja ærnum tíma í að hlýða á og yrði um það gott samstarf að vinna úr þeim. Okkur hefur fundist áður að efndir hafi verið minni á þessu en vonir stóðu til og ég verð að segja það því miður, virðulegi forseti, að mér finnst að verst hafi þetta þó gengið fram á þessu hausti.
    Ég hygg þó að megi segja að hv. formaður fjárln., hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson, hafi tekið undir þessi sjónarmið minni hlutans sem sett voru fram í haust en hafði auðvitað þann fyrirvara á að hann er nýr í nefndarstarfi í fjárln. í þessari miklu vinnu og hafði því frekar uppi fyrirheit um það að róttækari breytingar yrðu ræddar í nefndinni síðar og gerðar á störfum nefndarinnar, e.t.v. eftir áramót eða við næstu fjárlagagerð. En það var þó svo að við höfðum um það vissar væntingar að á þessu yrðu breytingar hvað varðaði úrvinnslu erinda því að undir það var þó a.m.k. tekið. Við teljum að sumarið í sumar hafi reyndar einnig verið nýtt fremur illa til þess að skipuleggja breytt vinnubrögð í nefndinni og m.a. í framhaldi af ágætri ferð sem nokkrir nefndarmenn fóru til Noregs til þess að kynna sér störf þjóðþingsins þar og vinnubrögð nefnda og hefði sannarlega þurft að ræða þau mál betur í kjölfar þeirrar ferðar og skipuleggja nefndarstarfið, en það tafðist nú af ýmsum ástæðum og þarf ekki að rekja það hér. Það urðu breytingar á forustu nefndarinnar sem öllum hv. þm. eru kunnar.
    Ég sagði það áðan að okkur hefði fundist að þrátt fyrir væntingar um betra samráð og meira samstarf í nefndinni í heild hafi niðurstaðan orðið þveröfug og ég leyfi mér að fullyrða að þegar kom að úrvinnslu erindanna hafi minni hlutanum nánast verið hent út úr nefndarstarfinu. Við höfum verið kallaðir til stuttra funda til þess að tilkynna okkur um ákvarðanir meiri hluta nefndarinnar og ég má kannski segja það líka, virðulegur forseti, að það sé ekki að undra þegar litið er á þær ákvarðanir sumar sem meiri hluti nefndarinnar hefur tekið. Mig langar til þess að benda hér á nokkrar þeirra.
    Á bls. 2 og 3 í nál. meiri hluta nefndarinnar er gerð grein fyrir nokkrum brtt. og ég hefði gjarnan viljað að hæstv. menntmrh., ef hann er í húsinu, kæmi hér þó ekki væri nema í svona 2--3 mínútur, virðulegi forseti.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. menntmrh. er ekki kominn en hann er væntanlegur á hverri stundu og gerði ráð fyrir því að vera kominn hér upp úr hálftvö.)
    Ég mun þá kannski endurtaka spurningu mína til hans aftur síðar þegar hann kemur í salinn. Það sem mig langaði til að nefna sérstaklega er t.d. brtt. sem gerð er við menntmrn., við Háskóla Íslands þar sem veitt er sérstök nær 14 millj. kr. viðbótarfjárveiting til samstarfsverkefnis háskólans við Vestmannaeyjabæ. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þessu verkefni. Ég er alveg sannfærður um það að það er mikilvægt og sjálfsagt nauðsynlegt að ráðast í rannsóknir sem þar eru fyrirhugaðar á sviði sjávarútvegsmála en mig langar að benda hv. þm., hæstv. ráðherrum og hv. formanni fjárln. á það að 20. maí 1992 samþykkti Alþingi þál. Þessi þál. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Þingsályktun um eflingu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera áætlun um frekari uppbyggingu og eflingu Háskólans á Akureyri og annarra rannsókna- og fræðslustofnana á svæðinu svo að þar verði öflug miðstöð rannsókna- og fræðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs.``
    Mér finnst nú lítið vera gert með þessa ályktun, hæstv. forseti, miðað við þær brtt. sem hér liggja fyrir varðandi annars vegar þetta verkefni sem ég greindi hér sérstaklega frá svo og þá aðrar breytingar og tölur sem er að finna varðandi fjárlagafrv. Ég ætla ekki eins og ég sagði áðan að draga úr mikilvægi verkefna af þessu tagi en ég tel þó að annað hefði mátt sitja í fyrirrúmi eða hafa frekari forgang.
    Mig langar að nefna hérna tvö eða þrjú önnur atriði úr brtt. við þetta ráðuneyti, virðulegur forseti. Það er t.d. lagt hér til, í nokkrum umsóknum um lagfæringar á fjárveitingum til Kennaraháskólans, að hækka sérstaklega framlag til reksturs Varmalands sem heyrir nú undir Kennaraháskólann. Það er hér sérstök tillaga um að hækka framlag til kennslu við Flensborgarskóla og ég minnist þó ekki eftir að hafa séð neitt erindi um þetta mál. Ég fletti í erindaskrá í morgun, virðulegi forseti, og fann ekki erindi frá þessum skóla og þykir merkilegt að það skuli þó þurfa að hafa forgang í brtt. umfram ýmis önnur mikilvæg og áríðandi efni.
    Hér er lögð til hækkun á Fjölbrautaskóla Vesturlands upp á 3 millj. kr. vegna hækkunar launagjalda vegna ræstingar o.fl. Það er veruleg hækkun hér á fjárveitingu til Héraðsskólans í Reykholti. Ég efast ekki um að allt sé þetta þarft eins og ég nefndi. En ég veit líka að það er margt, margt fleira þarft í þeim erindum sem nefndinni hafa borist og hafa þau þó sum fengið litla umfjöllun.
    Hér er ég t.d. með eitt erindi fyrir framan mig, virðulegur forseti, sem ég undrast nú reyndar að skyldi ekki fá afgreiðslu eða náð fyrir augum hv. nefndar eða meiri hluta nefndarinnar. Það er frá Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum og er reyndar ekki skrifað fyrr en 3. des. en það skiptir ekki öllu máli í sjálfu sér hvenær erindin eru skrifuð. Það hefur borist nefndinni og þar segir m.a., mig langar að lesa, með leyfi forseta, eina málsgrein úr þessu bréfi:
    ,,Í fjárlagafrv. vegna ársins 1994 eru fjárveitingar vegna Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum skornar nokkuð niður líkt og hjá ýmsum öðrum skólum. Við því er e.t.v. lítið að segja. En ég get þó ekki látið hjá líða að deila með ykkur nokkru af áhyggjum mínum og vonbrigðum. Ég hef ásamt aðstoðarfólki mínu og kennurum lagt mig fram um að draga úr tilkostnaði og reka þessa litlu rekstrareiningu eins hagkvæmt og kostur er. Með ýtrasta sparnaði tókst okkur að vera örlítið í plús með reksturinn um síðustu áramót. Fyrir þetta virðist eiga að refsa mér að þessu sinni.
    Sérstaklega hef ég hyggjur af þeim lið er heitir Annað en kennsla, þ.e. hinu daglega rekstrarfé. Stærsti hluti þess fer í laun, fyrir húsvörslu, ræstingar og skrifstofuhald sem er í lágmarki. Það sem ég fæ í hendur til að greiða með fyrir rekstrarvörur, ljós, hita pappír og til kaupa á tækjum fyrir 5--6 millj. á ári plús um það bil 1,5 millj. í sértekjur. Ef þessi upphæð er skorin niður um 1 millj., þá hljótið þið að sjá í hversu vondum málum ég er. Ekki þarf að nefna það að reglubundið viðhald er auðvitað í skötulíki við þessar aðstæður.``
    Þetta erindi er aðeins lesið til þess að benda á og draga fram að þau eru fjölmörg önnur sem eru hliðstæð þessu. Auðvitað er ekki hægt að verða við öllum erindum og öllum óskum, það er mér alveg ljóst. En það er sárt fyrir stjórnendur stofnana, hvort sem þær eru stórar eða smáar, hvort sem fjárveitingarnar eru háar eða lágar, hér er ekki um mjög háar fjárveitingar að ræða, að ef þeim tekst að gera vel þá sé þeim fremur refsað fyrir það en umbunað. Ég minni t.d. á erindi frá Ríkisspítölunum þar sem fjallað er um málin með nokkuð hliðstæðum hætti þó tölurnar séu auðvitað miklu hærri. Þetta langaði mig til þess að nefna hér einnig, virðulegur forseti, og árétta að það þarf auðvitað að skoða þessi erindi öll sömul ítarlega og það þarf að reyna að vega og meta hvað af þeim er brýnast, hvað af þeim er kannski óhjákvæmilegt að verða við og hverjum þarf af eðlilegum ástæðum að hafna vegna þess að það er ekki svigrúm til þess að verða við öllum erindum. Því dettur mér ekki í hug að halda fram.
    Hv. formaður fjárln. lauk sinni framsöguræðu hér áðan með tilvitnun í nóbelsskáldið okkar, Halldór Laxness og Innansveitarkróníku hans og vænti þess að menn yrðu ekki í umræðunum hér í dag með orðhengilshátt og tittlingaskít. Ég vona að hann telji ekki að þessar ábendingar mínar hér, sem settar eru fram í fullri vinsemd en e.t.v. eins og hann og aðrir hv. þingmenn finna, með nokkrum sárindum, flokkist undir orðhengilshætti eða tittlingaskít vegna þess að ég tel að það sé mjög mikilvægt og mikils virði að það sé góð samvinna og gott samstarf í nefnd eins og fjárln. og reyndar öllum nefndum þingsins og tel að það sé mjög mikilvægt og mikils virði líka fyrir þinghaldið og fyrir virðingu þingsins að stjórn og stjórnarandstaða reyni að vinna sem best saman og reyni að sýna það traust sem auðvitað er eðlilegt og sjálfsagt með þó þeim fyrirvara sem ég vil gjarnan undirstrika og kemur fram í lokaorðum nál. okkar minni hluta nefndarinnar. Með leyfi forseta, vil ég fá að vitna í þetta nál. en þar segir og er þá verið að ræða um þær breytingar á þingsköpunum sem ég vitnaði til hér aðan:
    ,,Forsetar Alþingis bentu á að flokkadrættir um smæstu atriði væru ekki við hæfi þegar fjárlagagerðin væri annars vegar þó að viðurkennt væri að kjörinn meiri hluti mótaði að sjálfsögðu meginstefnu. Rétt minni hlutans skyldi virða en hann skyldi jafnframt sæta rétti meiri hlutans.``
    Þetta eru bara leikreglur lýðræðisins og ég er alveg sannfærður um að þær hefðum við reynt að virða þó við hefðum fengið að starfa meira og betur að endanlegum afgreiðslum mála með hv. meiri hluta fjárln.
    Minni hlutinn flytur ekki brtt. við fjárlagafrv. sameiginlega og við teljum ekki heldur aðalatriðið

að vera að þrefa um eina milljón til eða frá, eina milljón hér eða þar. Auðvitað áskilja einstakir nefndarmenn sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. En aðalmálin eru auðvitað þau sem mestu máli skipta þegar rætt er um fjárlög, efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar, efnahagsstefnan sem boðuð er í fjárlagafrv. og hvernig sú efnahagsstefna síðan kemur við og mótar atvinnulífið eða atvinnumálin í landinu því að traust atvinnulíf er auðvitað undirstaðan að uppbyggingu velferðarkerfisins okkar. Traust atvinnulíf er auðvitað undirstaða þess að við getum byggt upp öflugt menntakerfi. Það er undirstaða þess að við getum haldið uppi öflugri félagslegri þjónustu og það er undirstaða þess að heilbrigðis- og tryggingamálin okkar, flokkarnir sem við köllum oft velferðarmál, séu líka traustir. En þetta er þó ekki aðskilið. Þetta er ekki aðskilið þannig að það sé fyrst atvinnulífið sem þurfi að efla, síðan sé hægt að gera hitt, snúa sér að hinum verkefnunum, þ.e. að treysta menntamálin, félagsmálin og heilbrigðismálin. Þetta vinnur auðvitað allt saman. Menntun, þekking og rannsóknir eru auðvitað undirstaða öflugs atvinnulífs og þurfa þess vegna að fara saman með uppbyggingu þess. Traust heilbrigðiskerfi og félagslegt kerfi eru einnig undirstaða velferðar einstaklingsins og getu hans til þess að starfa sem dugandi og kraftmikill þjóðfélagsþegn. Ef þetta fer ekki saman þá er ekki heldur að vænta þess að við höfum öflugt atvinnulíf. Þess vegna má ekki alltaf víkja öðru til hliðar fyrir hinu. Við þurfum að tengja þetta saman og það er auðvitað eitt af meginverkefnum efnahagsstefnunnar og þar með fjárlagafrv.
    Hvað þessa undirstöðuþætti varðar þá tel ég því miður að fjárlagafrv. sé ekki sá trausti grunnur sem það bæði á og þarf að vera. Þar er því miður ekki margt að finna sem sérstaklega styrkir atvinnulífið. Hvað með framlag til rannsókna og tilraunaverkefna ýmiss konar? Hvar er stuðningurinn við rannsókna- og vísindastefnu hæstv. ríkisstjórnar? --- Nú sé ég reyndar að hæstv. menntmrh. er kominn í salinn og þá mætti kannski gjarnan spyrja hann að því. Hvernig finnst honum frv. til fjárlaga fyrir 1994 taka á þessari stefnu sem ég held að ríkisstjórnin hafi kynnt nýverið og ég fer kannski ekki rétt með nafnið, en mig minnir að hafi þó verið kölluð rannsókna- og vísindastefna hæstv. ríkisstjórnar? Hvernig er farið með þessa þætti sem eru þó afar mikilvægir fyrir undirstöðuatvinnuvegina okkar? Það er líka hart að þurfa að búa við það, eins og var á þessu ári sem nú er að líða, að fjárveitingar til þessa málaflokks væru háðir því að einkavæðingartrúarbrögðin næðu fram að ganga, að einkavæðingartrúarbrögðin tækjust eða gengju þannig upp að það mætti e.t.v. klípa eitthvað af sölu ríkisfyrirtækja til þess að setja í rannsóknasjóðina. Það var sem sagt afgangsstærð, enda kemur í ljós að þegar einkavæðingaráformin ganga ekki fram þá kemur lítið til rannsóknastarfanna.
    Í frv. sem fyrir liggur eru að vísu minni upphæðir ætlaðar í tekjur af einkavæðingunni heldur en áætlaðar voru á árinu í ár og nú þegar er farið að hverfa frá vissum þáttum þar, samanber ákvörðunina um það að hætta við að einkavæða Þvottahús Ríkisspítalanna. Reynslan frá yfirstandandi ári er því ekki góð og útlitið fyrir næsta ár er ekki björgulegt.
    Að undanförnu hafa verið allmiklar umræður um Byggðastofnun, um hlutverk hennar til þess að styrkja og treysta atvinnu og um atvinnuástand og atvinnulíf á Vestfjörðum og horfur þar. Ég ætla ekki að taka langa umræðu um það, virðulegur forseti, en það er þó óhjákvæmilegt annað en rétt að minnast á það eða nefna það í tengslum við þessa fjárlagaumræðu, því það er auðvitað nauðsynlegt að ríkisvaldið hugi að þeim erfiðleikum sem þar blasa við eins og annars staðar, blasa því miður við víða um land. Milljörðum er eytt í atvinnuleysistryggingar. Það er nauðsynleg trygging sem launþegar þessa lands þurfa að búa við en það væri auðvitað hægt að draga úr þeim fjármunum ef atvinnustefnan væri styrk og atvinnulífið blómlegra. Þess vegna má spyrja hvort ekki sé skynsamlegt að verja þeim fjármunum sem renna í Atvinnuleysistryggingasjóðinn í enn ríkara mæli en gert hefur verið til þess að byggja upp nýjar atvinnugreinar, nýja atvinnuþætti, treysta og styrkja atvinnulífið. Ég vænti þess að a.m.k. sumir ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar hafi vilja til þess að beita sér í þessu máli og ég skora á þá að gera það.
    Það ber vissulega að virða það að nokkrir fjármunir renna í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóðinn í þessa þágu og ríkisstjórnin hefur þar að auki varið nokkrum fjármunum til verklegra framkvæmda til þess að auka atvinnu. En því miður gekk ekki allt eftir eins og áætlað var á seinasta ári og er margsinnis búið að taka þá umræðu hér og ég ætla þess vegna ekki að lengja umræðuna nú með því að ítreka það, en get þó ekki komst hjá því, virðulegur forseti, að vitna aðeins til yfirlýsingar forsrh. frá 5. nóv. 1993 sem hann veitti launanefnd ASÍ og VSÍ þegar verið var að framlengja kjarasamningana. Þar kemur ýmislegt á óvart. Þar kemur t.d. á óvart að þrátt fyrir einn þátt í yfirlýsingunni um það að framkvæmd á eingreiðslum til lífeyrisþega sem svo hafa verið kallaðar, þ.e. orlofsuppbót, desemberuppbót og láglaunauppbót eða greiðsla tilsvarandi láglaunauppbóta á vinnumarkaði sem renna til lífeyrisþega, að framkvæmd þessara eingreiðslna á næsta ári verði í nánu samráði við samtök launþega og allra hagsmunaaðila. Þessir hagsmunaaðilar og launþegar hafa lagt áherslu á að það væri með svipuðum hætti eins og er í ár og þá er líka ljóst að í fjárlagafrv. vantar 200 millj. kr. til að geta staðið við þennan þátt. Það vantar 200 millj. kr. til þess að sama upphæð sé veitt í þennan lið undir almannatryggingunum eins og er úthlutað til þessara eingreiðslna á líðandi ári. Og annar þáttur sem varðar útgjöld til framkvæmda kemur einnig nokkuð á óvart í þessu skjali og mig langar að vitna til þess orðrétt, með leyfi forseta, en þar segir:
    ,,Talsverður hluti viðbótarframkvæmda á árinu 1993, líklega um 600 millj. kr., munu ekki koma

til greiðslu fyrr en á næsta ári. Þessar greiðslur eru ekki meðtaldar í fjárlagafrv. næsta árs enda munu þær koma fram í fjáraukalögum vegna ársins 1994.``
    Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. hvort ég misskilji þetta eitthvað eða hvort þetta kunni að stangast á við margítrekaðar yfirlýsingar hæstv. ráðherra úr þessum ræðustól um að það sem ekki eyðist af áætluðum framkvæmdum á árinu í ár verði ekki notað til þess að standa við yfirlýsingarnar um viðbótarframkvæmdir á næsta ári. Ég fæ ekki betur séð en að þrátt fyrir allt talið sé það orðið svo að 600 millj. kr. eigi að telja aftur, fyrst í milljörðunum í ár og og síðan aftur í milljarðinum á næsta ári eða hvað það var sem fyrirheitin hljóðuðu upp á.
    Ég verð líka að segja það að mér finnst þróunin í menntamálunum vera nokkurt áhyggjuefni. Hvernig stefnir þar og hvernig hefur verið unnið af hálfu þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Og þá má ég kannski aftur aðeins grípa niður þar sem ég var að tala áðan um brtt. frá hv. meiri hluta fjárln. og langaði að spyrja um álit hæstv. menntmrh. Ég spurði áðan um álit hv. þingmanna og hv. formanns fjárln. á þessari brtt. og hvernig hún hljómaði saman við samþykkta ályktun þingsins um rannsóknir á sviði sjávarútvegs. En ein af brtt. sem lögð er fram af hálfu meiri hlutans hljóðar um það að Háskóli Íslands fái nær 14 millj. kr. til þess að leggja í samstarfsverkefni við Vestmannaeyjabæ. Ég ítreka það við hæstv. menntmrh. að ég er ekki að gera lítið úr þessu verkefni og ég þykist viss um að það kunni að reynast hið besta mál að auka rannsóknir á sviði sjávarútvegs og jafnvel þó það sé gert og þrátt fyrir að það sé gert með þessum hætti sem hér er lagt til. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi verið forgangsverkefni af hans hálfu úr hans ráðuneyti ef hægt væri að bæta hag Háskóla Íslands þá sé það gert með þessum hætti. Jafnframt hvert sé viðhorf hans til þeirrar þál. og framkvæmdar þeirrar ályktunar sem samþykkt var á þingi 20. maí 1992. Í þeirri ályktun segir, með leyfi forseta, ég fæ að lesa hana upp aftur:
    ,,Þingsályktun um eflingu Akureyrar og Eyjafjarðarsvæðisins sem miðstöðvar fræðslu og rannsókna á sviði sjávarútvegs.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera áætlun um frekari uppbyggingu og eflingu Háskólans á Akureyri og annarra rannsókna- og fræðslustofnana á svæðinu svo að þar verði öflug miðstöð rannsókna- og fræðslustarfsemi á sviði sjávarútvegs.``
    Auðvitað geta svona rannsóknamiðstöðvar verið víða og kannski hefur það líka verið hugsunin að það yrði svo. En ég álít að vilji þingsins hafi verið sá að annað hefði forgang í þeim efnum að auka og styrkja rannsóknir til sjávarútvegsins heldur en þessi uppbygging á rannsóknaraðstöðu í Vestmannaeyjum. Svo verður auðvitað líka að lýsa undrun sinni á því að hér er gert ráð fyrir einum starfsmanni, það eru launagjöld vegna líffræðings, ef ég man rétt, upp á 1,8 millj. kr. og til þess að hann geti haft bærilega starfsaðstöðu þá þarf að kaupa undir hann 20 millj. kr. hús. ( Gripið fram í: Hvar þá?) Í Vestmannaeyjum minnir mig. 20 millj. kr. hús. 8 millj. eiga að koma frá bænum og það er reyndar ánægjulegt að það skuli takast samstarf við sveitarfélög um umsjónarverkefni. Ég geri ekki heldur lítið úr því. En 12 millj. eiga að koma frá ríkinu. Forgangsverkefni í málefnum háskólans.
    Framlög til kennslumála eru svo þar að auki skorin verulega niður og það er ekki framfylgt ákvæðum í lögum sem fjalla um skólamál og hlýtur það að vera áhyggjuefni allra hv. þm. Væntanlega einnig hæstv. menntmrh. þó hann láti þetta yfir sig ganga. Ég óttast einnig að breytingar á úthlutunarreglum Lánasjóðs ísl. námsmanna í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar muni hafa það í för með sér að þeim fækki sem treysta sér til þess að stunda langskólanám. Nú er það svo að lánasjóðurinn er svokölluð B-hluta stofnun og um hann verður því fjallað nánar bæði í fjárln. og eins við 3. umr. fjárlaga og því ekki ástæða til þess að lengja mjög umræðu um málefni hans sérstaklega, þau koma örugglega upp aftur. En stefnan er auðvitað mótuð af hálfu ríkisstjórnarinnar í fjárlagafrv.
    Ég tel að við verðum að leggja aukna áherslu á alla þætti menntunarinnar, alla þættina allt frá grunnskólanum og upp í langskólann eða háskólastigið til þess að standast þá samkeppni sem við augljóslega stöndum frammi fyrir og fram undan er í þeim breytta heimi sem við búum nú við með auknum samskiptum og auknum samningum milli þjóða. Ef við getum ekki staðið vel að þessum undirstöðuþætti, skólamálunum og rannsókna- og þróunarstarfinu, er hætta á því að atgervisflótti bresti í okkar besta lið og það kunni að leita fyrir sér með öðrum þjóðum þar sem betur sé staðið að þessum málum en við treystum okkur til og þá kann sá flótti að verða þjóðinni dýrkeypur. Það er auðvitað hægt að segja að við höfum ekki efni á þessu og við höfum ekki efni á hinu, en höfum við efni á að draga svo úr einmitt á sviði mennta- og menningarmála, rannsókna- og þróunarstarfs sem raun ber vitni? Erum við ekki þar að grafa okkar eigin gröf? Erum við ekki þar í vítahring? Eru líkur á að atvinnulífið treystist og styrkist þegar við stöndum þannig að?
    Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, frsm. minni hlutans, ræddi hér ítarlega um þróunina í heilbrigðis- og tryggingamálunum í ræðu sinni áðan, framsöguræðunni fyrir nál. minni hlutans og þarf ég út af fyrir sig ekki að endurtaka það sem kom fram í máli hennar. En ég verð þó að lýsa yfir einu sinni enn, sem ég hef gert áður í þessum ræðustól, að ég hef af því miklar áhyggjur hvert stefnir um ýmsa þætti á því sviði. Ég hygg að ég deili þeim áhyggjum einnig með ýmsum öðrum, þar á meðal með landlækni sem er ráðgjafi ríkisstjórnar og stjórnvalda á sviði heilbrigðismála. Landlæknir hefur komið til fjárln. og rætt þessi

mál og ég þykist þess fullviss að hann hafi aftur og ítrekað gengið á fund hæstv. heilbrrh. til þess að ræða þessi mál við hann. Út af fyrir sig fagna ég því sem kom fram í blöðum nýlega að hæstv. heilbrrh. ætti að beita sér fyrir samstarfi við starfsfólk opinberra stofnana undir merkjum BSRB og landlæknis til þess að fara yfir alla þessa þætti og skoða hvert við stefnum, hvar við erum stödd og hvaða stefnu við yfirleitt viljum hafa í þessum málum. Ég vona að af því starfi leiði gott.
    Sjúkrahúsin í Reykjavík, þrjú stóru sjúkrahús í Reykjavík, koma til frekari umfjöllunar í nefndinni og verða tekin fyrir við 3. umr. þannig að það gefst þá einnig tími til þess að ræða nánar um þau og mun ég ekki eyða löngu máli í það en verð þó að segja það hér, virðulegur forseti, að forsvarsmenn þessara stofnana allra hafa nú þegar komið til viðtals hjá nefndinni og þeir hafa einnig flestir dregið mjög í efa að þær breytingar og það brölt allt sem hefur verið framkvæmt varðandi rekstur þessara stofnana á undanförnum missirum muni hafa í för með sér þann sparnað sem áætlað var og vafamál að það leiði til nokkurs sparnaðar. Auðvitað eru mjög skiptar skoðanir hjá þessum mönnum um það hvernig beri að standa að endurskipulagningu þessara sjúkrahúsa og það er leitt til þess að vita að menn skuli ekki geta komið sér saman um heilsteypta stefnu í því sem sé okkur öllum til góðs og við fáum sem mest út úr þeim fjármunum sem við höfum til afnota. Ég vona sannarlega að það takist að koma þeim málum í þann farveg að helst allir eða í það minnsta sem flestir geti verið sáttir við þróunina. En breytingarnar sem þegar hafa verið gerðar hafa ekki leitt til mikils sparnaðar og því miður er hætt við því, þó hægt sé að sýna fram á einhvern sparnað til skamms tíma litið að við töpum honum aftur þegar til lengri tíma er litið ef ekki tekst að haga þessari þróun og þessari uppbyggingu á sem skynsamlegastan hátt.
    Það hefur t.d. komið fram að útgjöld til spítalanna eru nú með þeim hætti að það vantar verulega fjármuni. Það vantaði u.þ.b. 100 millj. kr. í rekstur Landakots á seinasta ári og varð orðið við því í fjáraukalögum á dögunum að hækka fjáveitingarnar til þess sjúkrahúss. Það var aðeins staðfesting á því að áformin um sparnaðinn hefðu ekki náð fram að ganga. Sömu sögu var reyndar að segja um sjúkrahúsið í Hafnarfirði sem líka fékk verulega aukna fjárveitingu vegna þess að sparnaðaráformin þar höfðu ekki náð fram að ganga. Borgarspítalafulltrúarnir lýstu því yfir að þar blasti við u.þ.b. 120 millj. kr. halli á þessu líðandi ári sem er þó ekki gert ráð fyrir að bæta að sinni í það minnsta og jafnframt að það blasti við 180 millj. kr. halli á hinu næsta ef fjárlagafrv. yrði óbreytt og þó aðeins miðað við óbreyttan rekstur sjúkrahússins. Auðvitað hafa menn væntingar um það að auka starfsemina og gera meira, það er eðli málsins, en þó að ekkert yrði gert annað en reynt að halda í horfinu þá vantar á þessum tveimur árum 300 millj. kr. í rekstur stofnunarinnar. Og svipaða sögu er auðvitað að segja einnig af Ríkisspítölunum þar sem verulega fjármuni vantar til þess að halda þar óbreyttum rekstri ef það er markmið stjórnvalda. Það vantar um 320 millj. kr. þegar tekið hefur verið tillit til leiðréttinga vegna áforma um að selja Þvottahús Ríkisspítalanna og áforma um að ríkið dragi sig út úr rekstri leikskólanna sem hefur reyndar breyst frá því að fjárlagafrv. var lagt fram. Um það hefur náðst nokkuð bærileg niðurstaða að ég hygg. En þá vantar þar einnig mörg hundruð millj. kr. bara til þess að halda óbreyttum rekstri. Það má sjálfsagt vænta þeirra svara frá hæstv. ráðherrum að menn verði bara að halda áfram að spara, það sé auðvitað gert ráð fyrir óbreyttum rekstri. ( EgJ: Hvað vill þingmaðurinn?) Stofnanirnar eigi að halda áfram óbreyttum rekstri. Ég kem að því, hv. þm. Egill Jónsson, síðar í ræðu minni. En ég álít eins og ég vitnaði til í bréfi frá skólameistara Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum að það sé einhvern tímann komið að mörkunum í því hvað hægt er að ætlast til að forsvarsmenn þessara stofnana spari án þess að draga verulega úr rekstrinum. Hagræðingin, sparnaðurinn, er allt saman af hinu góða og nauðsynlegt en það er líka búið að gera æðimikið í því. Það er búið að spara fyrir mörg hundruð millj. kr., t.d. á Ríkisspítölunum. Það hefur komið fram í því að vissulega hefur einhvers staðar dregið úr þjónustunni. Deildum hefur verið lokað og ýmislegt slíkt sem við munum vafalaust ræða nánar þegar við komum að málefnum sjúkrahúsanna við 3. umr.
    Því miður er það einnig svo að sparnaðurinn og aðhaldið í sjúkratryggingakerfinu hefur beinst mest að því að hækka greiðslur sjúklinganna. Kannski hefur eitthvað sparast, kannski hafa menn breytt einhverju, t.d. í notkun lyfja og þá er það gott, ef menn hafa beint neyslunni að ódýrari lyfjum ef þau hafa gegnt sama hlutverki án alvarlegra aukaverkana, þá er það líka af hinu góða. Auðvitað á að reyna að framfylgja slíku sem mögulegt er, en þessi sjónarmið að tala um sparnað þegar skattabyrðinni er aðeins skipt upp á annan hátt en gert var, þá er með því verið að blekkja. Og það kemur fram þegar litið er á ríkisreikninga og fjárlagatölur undanfarinna ára að fjárveitingarnar til heilbrigðisstofnana hafa breyst nokkuð vegna þess að sértekjurnar hafa hækkað umtalsvert. Sértekjurnar hjá heilbrigðisstofnunum, þ.e. sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum, og stofnunum sem undir ráðuneytið heyra hafa hækkað um á annan milljarð kr., 1,2 milljarða kr. frá árinu 1991, þ.e. á tveimur árum í raun, 1992 og 1993 hafa tölurnar hækkað úr 1,5 milljörðum í 2,7 milljarða. Þetta er fyrst og fremst tilfærsla á skattbyrði. Þetta er tilfærsla á greiðslum einstaklinganna frá því að menn greiði skatta sína eftir efnum og ástæðum og í það að menn greiði skatta sína eftir því hversu sjúkir þeir eru, hversu mikið menn þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda. Og það er ekki allt upp talið með þessu, virðulegi forseti. Það er líka í viðbót við þessar breytingar umtalsverð hækkun á greiðslum einstaklinganna fyrir að sækja þjónustu sérfræðinganna. Þar hafa greiðslur einstaklinganna hækkað umtalsvert og auðvitað líka sá hluti lyfjanna sem sjúklingarnir greiða yfir borðið í apótekinu eða lyfjaverslununum og þær upphæðir koma hvergi fram, þær upphæðir eru ekki taldar með og það er líka erfitt að afla upplýsinga um þær. Það er erfitt að átta sig á því hvaða upphæðir hér er um að ræða af því að við sjáum þær ekki, það verður ekki gert öðruvísi en með einhverjum líkindareikningi, með því að reikna út hvað mikið magn af lyfjum er selt og hvert er hlutfall sjúklinga í greiðslu þeirra lyfja og reyna á þann hátt að finna hversu mikið meira einstaklingarnir hafa greitt fyrir þessa þjónustu á undanförnum árum.
    Mig langar þá að spyrja hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbr.- og trmrh., sem hér situr einnig og hlýðir á umræður og ég þakka honum fyrir það, hvernig þeir hugsa sér að ná fram þeim sparnaði sem nú er fyrirhugaður ef brtt. meiri hluta fjárln. ná fram að ganga, þeim viðbótarsparnaði sem nú er fyrirhugaður í sjúkratryggingunum. Það er út af fyrir sig í minnisblaði sem fjárln. barst gerð grein fyrir því hvaða hugmyndir hæstv. heilbr.- og trmrh. er með uppi til þess að ná inn 180 millj. kr. En hann gerir líka, ef ég veit rétt, ráð fyrir því að falla frá innheimtu sértekna upp á 400 millj. kr. með því að hætta við heilsukortin. Þá sýnist mér að hér séum við að fjalla um ekki 180 millj. heldur 580 millj., þ.e. 400 millj. sem tapast við það að hætta við innheimtu heilsukortanna og þær 180 millj. sem á að spara með einu eða öðru móti. Ég sagði nú óvart innheimta því að það liggur nú svo ljóst fyrir að sparnaðurinn í heilbrigðiskerfinu er yfirleitt fenginn með því að innheimta meira. Og auðvitað á líka að ná 100 millj. kr. af þessu í gegnum lyfin, vonandi með því að breyta áherslum þar og kann að vera að það sé hægt. Ekki ætla ég að gerast dómari í því fyrir fram en hitt óttast ég að verulegur hluti af því verði fenginn með því að menn greiði meira fyrir þessi lyf en þeir hafa gert áður. Í grg. fjárlagafrv. eru sértekjur flokkaðar undir sjúkratryggingar upp á 400 millj. kr. vegna fyrirhugaðrar innheimtu heilsukortanna. Og þær sértekjur eru síðan dregnar frá þeirri nettótölu sem rennur til sjúkratrygginga upp á 9.540 millj. kr. og með brtt. sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að lækka þessa tölu um 180 millj. þannig að hún verði 9.360 millj. kr. og ætla ég að þessu sinni ekki að ræða frekar um þær fyrirhuguðu breytingar. Það var gert í ræðu hér á undan en ég vil aðeins að spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrst hann er hér og þá kannski hæstv. fjmrh. líka hvernig þeir hafa hugsað sér að standa að þessu af því að það segir í minnisblaðinu sem fjárln. barst um þessi mál að ráðuneyti heilbrigðis- og tryggingamála og fjmrn. hafi orðið ásátt um að það svigrúm sem hér virðist vera til staðar í sjúkratryggingum komi að einhverju leyti á móti fyrirhuguðum sparnaðaráformum á árinu 1994. Það er þetta sem ég vildi fá frekari skýringar á hjá þessum tveimur ágætu hæstv. ráðherrum.
    Virðulegur forseti. Ég nefndi það áðan að landlæknir deildi áhyggjum með okkur ýmsum um það hvert stefnir í þróun heilbrigðismálanna og hann hefur gengið á fund fjárln. og lagt þar fram nokkrar tillögur sem því miður hefur ekki verið hægt að verða við um lagfæringar á fjárveitingum til hans. Þó langar mig að nefna eina sérstaklega sem mér finnst að hefði fyllilega verið þess virði að hv. fjárln. tæki til skoðunar á milli umræðna en það er ósk hans um fjárveitingu til þess að þróa enn frekar kerfi sem varðar símsendingar á röntgenmyndum til greininga hjá sérfræðingum. Til að skýra þetta aðeins nánar fyrir hv. þm. þá er það svo, þó að ég kunni ekki að skilgreina tæknina nákvæmlega, að hægt er að senda röntgenmyndir símleiðis milli staða, þ.e. frá t.d. heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum úti á landi til sjúkrahúsanna í Reykjavík sem búa við meiri sérfræðiþekkingu og láta greina og yfirfara þessar röntgenmyndir hér. Þetta er afar athyglisvert mál sem hefur verið í þróun á undanförnum árum og með landlækni gengu á fund okkar þeir aðilar sem unnið hafa að þessu máli og hafa á því mikla þekkingu og töldu að það væri æskilegt að fá ofurlitla fjárveitingu í viðbót til þess að geta haldið þessu áfram. Þetta leiðir kannski ekki til mikils sparnaðar í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar en ætti þó að geta sparað kaup og uppsetningu röntgentækja annars staðar að einhverju leyti þó ég ítreki það að ég kann ekki mjög vel að lýsa tækninni í þessu sambandi en fyrst og fremst á þetta auðvitað að gefa betri sjúkdómsgreiningu og gera heilbrigðisstarfsfólki betur kleift að ráða við þau vandamál sem uppi kunna að vera.
    Virðulegur forseti. Ég ætla nú að fara að stytta ræðu mína. En mig langar þó að nefna hér örfá atriði, sem verða kannski að teljast af smærra taginu, en skipta þó miklu máli þar sem við á og hafa verið í umræðunni töluvert mikið að undanförnu. Ég vil spyrja hv. stjórnarþingmenn og hæstv. fjmrh. hvert stefni með eða hvað eigi að gera við hin ýmsu sýslumannsembætti sem fjárlagafrv. ráðgerir að leggja niður. Við höfum heyrt ýmsa hv. stjórnarþingmenn lýsa því yfir að ekki sé meiri hluti fyrir þessum breytingum í þinginu og væri gott að fá að vita hvort búið er að taka ákvörðun um það og hvort það komi þá fram við 3. umr.
    En það er eitt mál fremur lítið sem þessu tengist, það er lítið í upphæðum miðað við frv. allt en það er stórt fyrir þá sem málið varðar. Það eru hugmyndir um að leggja niður héraðsdóm Norðurlands vestra. Það hefur ekki verið jafnmikið í umræðu eins og hugmyndirnar um sýslumennina, sýslumannsembættin, en mig langar að vita hvort það hangi á spýtunni, hvort það sé einnig hugmynd að breyta --- þarna er hæstv. dómsmrh. á þessum fundi líka þannig að hann geti kannski svarað einhverju um það hvaða hugmyndir séu uppi, en í greinargerðinni segir í tveimur línum, með leyfi forseta:
    ,,Þá er áformað að sameina héraðsdóma Norðurl. v. og e. í einn, héraðdóm Norðurlands, með aðsetri á Akureyri.`` Nú veit ég að við þessu hafa auðvitað komið fram andmæli og röksemdir sem mæla gegn þessari breytingu svipaðar þeim sem hafa átt sér stað með sýslumannsembætti en þó hafa nú umræður um sýslumannsembættin meira einkennst af því að það væri hægt að fela sýslumannsembættunum ný verkefni

frá stjórnsýslunni og draga ýmis verkefni út frá höfuðborginni og senda þeim starfsmönnum stjórnkerfisins. Slíkt verður varla gert um héraðsdóm en mig langar þó að heyra álit hæstv. ráðherra á því hvort fyrirhugaðar séu breytingar hvað þetta varðar milli umræðna.
    Þessi litlu dæmi snerta byggðastefnu í reynd og má í raun líta á sem svar hæstv. ríkisstjórnar við þeim hugmyndum sem uppi hafa verið um að flytja stofnanir frá höfuðborginni og út á land. Nefnd sem starfaði á vegum forsrh. skilaði fyrir ekki löngu áliti hvað þetta varðaði. Þess vegna finnst ýmsum það skjóta skökku við að leggja svo til í fjárlagafrv. eitthvað sem gengur í þveröfuga átt, þ.e. að draga þjónustuna frá hinum smærri stöðum og flytja hana til hinna stærri og í sumum tilfellum kannski alla leið til höfuðborgarinnar. Eitt lítið dæmi í sama dúr er einnig nefnt í fjárlagafrv. þó að það heyri undir annað ráðuneyti. Það heyrir undir ráðuneyti hæstv. fjmrh. sjálfs og ég mætti kannski spyrja hann í tengslum við þetta um þjónustu skattyfirvalda á Húsavík. Þar hefur verið rekið útibú frá skattstjóranum sem hefur aðsetur á Akureyri og hafa verið miklar kröfur uppi um það að halda þessu útibúi þar áfram gangandi en ekki flytja það einnig burtu til Akureyrar, draga úr þjónustunni við íbúana heima í héraði eins og virðist þó vera áformað í fjárlagafrv. ef áætlanir þar og hugmyndir ganga óbreyttar fram.
    Þetta er kannski byggðastefnan í reynd, virðulegi forseti, sem við erum hér að horfa á þó að þetta séu nú e.t.v. hin smærri atrtiði þegar litið er til ástandsins í atvinnulífinu.
    Ég sagði það áðan þegar ég ræddi um heilbrigðisþjónustuna og sjúkrahúsin að auðvitað væri nauðsynlegt að gæta ýtrasta aðhalds, hagræðingar og sparnaðar í opinberum rekstri. Það hlýtur að vera krafan hverju sinni og ég veit að þannig hafa fjölmargir forstöðumenn og forsvarsmenn opinberra stofnana brugðist við á undanförnum árum og starfsfólkið hefur tekið þátt í þeirri vinnu. Það ber að þakka og það þykist ég vita að hæstv. ráðherrar eða hæstv. ríkisstjórn geri einnig. En það er erfitt að halda stöðugt áfram að höggva í þann sama knérunn og einhvern tíma er komið að mörkunum í því. Það er ekki stöðugt hægt að segja upp starfsfólki. Það er ekki stöðugt hægt að draga úr rekstri og ætla samt að krefjast þess að þjónustan sem veitt er sé óbreytt. Menn verða þá líka að viðurkenna það og framfylgja því að það sé verið að draga úr þjónustunni, það sé verið að minnka umsvif hins opinbera, ekki bara í krónum talið heldur líka að draga úr verkefnum. Og þetta hefur auðvitað að einhverju leyti þau áhrif að uppsagnir starfsfólks auka atvinnuleysið. Atvinnuleysið fer vaxandi og útgjöldin koma að einhverju leyti aftur til baka inn í ríkissjóð í gegnum annan farveg. Það er mál sem ég held að sé einhvern tíma á einhverju stigi komi að því að stjórnvöld þurfi líka að velta fyrir sér og hugsa um án þess að mér detti í hug og vona að orð mín séu ekki skilin svo að ríkið eigi að halda uppi einhverri atvinnubótastarfsemi. Ég fjallaði um það fyrr í ræðu minni að það væri mikilvægt að Atvinnuleysistryggingasjóður tæki meiri þátt í því að byggja upp atvinnu til frambúðar, taka þátt í þeim verkefnum og styrkja atvinnulífið í heild. Og ég tel að það sé eitthvert mikilvægasta hlutverk stjórnvalda nú að efla atvinnulífið, það er að styrkja það og efla. Það mun þá auðvitað líka treysta fjárhag ríkissjóðs. Þetta verður að geta unnið allt saman eins og ég einnig nefndi áðan og það getur verið hluti af svari mínu við frammíkalli hv. þm. Egils Jónssonar að við verðum auðvitað númer eitt að koma hjólum atvinnulífsins af stað á nýjan leik, fá þau til þess að snúast og þá líka hjól þjóðfélagsins alls því að það hefur auðvitað einnig áhrif á opnberu þjónustuna alla og starfsemina þar og möguleika okkar til þess að veita þá þjónustu. Allt verður þetta að fara saman.
    Mig langar í lokin, virðulegur forseti, aðeins að vitna til stjórnmálaályktunar miðstjórnarfundar Framsfl. sem haldinn var hér í Reykjavík dagana 5. og 6. nóv. sl. þar sem einmitt er fjallað um þessa þætti og með ítarlegum rökstuðningi sem ég ætla nú ekki að lesa upp heldur aðeins ályktanirnar sjálfar í stuttu máli og aðeins þrjá liði þeirra þar sem fjallað er um það hvernig m.a. þurfi að bregðast við til þess að örva atvinnulífið. Og við segjum hér, með leyfi forseta:
  ,,1. Breið þjóðarsátt verði undirstaða endurreisnar atvinnulífs og velferðarkerfis.
    2. Verulegu fjármagni verði varið til örvunar í atvinnulífinu. Hagkvæm lán verði veitt til framleiðniaukandi framkvæmda og sem áhættufé til nýsköpunar og markaðsleitar, sérstaklega hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Stofnlánasjóðir atvinnuveganna verði nýttir í þessu skyni.
    3. Langtímaáætlanir um þróun atvinnulífs verði gerðar í samvinnu þess og ríkisvaldsins líkt og hjá þeim þjóðum sem lengst hafa náð í uppbyggingu þess. Með auknu fjármagni, endurbótum og markvissum áherslum, menntun, rannsóknum og opinberum framkvæmdum verði að því stuðlað að markmiðin náist.``
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég taka undir þakkir hv. formanns fjárln. til þess fólks sem unnið hefur með nefndinni í því mikla starfi sem þar hefur verið unnið að undanförnu, svo og þakka formanni og öðrum meðnefndarmönnum mínum fyrir samstarf.