Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 16:41:25 (2415)

[16:41]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. sagði það vilja fjárln. að styrkja búnaðarsamböndin. Ekki skal ég efa að svo hefur verið eða svo er. Hins vegar vill nú svo til að fjárln. hefur tekið við áliti frá landbn. og þar eru leidd rök að því að við fjárlagagerðina þurfi að breyta með öðrum hætti heldur en lagt er til til þess að búnaðarsamböndin haldi sínum hlut. Ekki er verið að tala um að þau styrkist. Hér veit ég reyndar að um er að ræða misskilning sem, m.a. á grundvelli yfirlýsingar varaformanns fjárln., hlýtur að vera auðvelt að leiðrétta þar sem það er vilji fjárln. að styrkja búnaðarsamböndin. En þá verða menn líka að taka öðruvísi til orða því að í tillögunum eins og þær liggja hér fyrir er ekki um það að ræða heldur það gagnstæða að búnaðarsamböndin búa við þrengri fjárhag, skertan fjárhag, frá því sem var í síðustu fjárlögum. Að því leyti fannst mér þessi yfirlýsng vera óþörf, að ég hafði komið þessum skýringum á framfæri við félaga mína í fjárln. Reynir nú á það hvort menn vilja leiðrétta, því ekki er þá um annað að ræða en leiðréttingu miðað við það sem orð féllu hér hjá hv. 1. þm. Vesturl.