Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 16:46:44 (2419)


[16:46]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :

    Virðulegur forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. gerði ofurlítið að umræðuefni í ræðu sinni ræðua mína hér fyrr í dag. Ekki veit ég alveg á hvaða ræðu hann hefur hlustað eða þá með hvaða hugarfari hann hefur hlustað, nema þá að það sé eitthvað í hans samvisku sem gerir það að verkum að hann heyrir ekki rétt það sem hér er sagt, ekki veit ég hvað það er. Hann sagði t.d. fyrst að í máli mínu hefði komið fram gagnrýni á samninginn milli háskólans og Vestmannaeyjabæjar. Það kom aldrei fram heldur þveröfugt. Ég margtók það fram að ég teldi að hér væri sjálfsagt um hið besta mál að ræða, ég efaðist ekki um það og það væri mikilvægt að efna til rannsókna á sviði sjávarútvegs. Ef menn hefðu efni á að gera það á mörgum stöðum, þá væri það líka gott. Hann talaði um að við værum viðkvæmir sumir hverjir, og nefndi nú þar held ég þingmenn Norðurl. e. í sameiningu, fyrir málinu. Það er svo aftur annað mál. Það getur vel verið að ég sé viðkvæmur fyrir því að hafa hér fyrir framan mig þingsályktun frá þinginu frá 20. maí 1992, þar sem sérstök áhersla er lögð á það að efla og styrkja rannsóknir á sviði sjávarútvegs á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu og gera það að miðstöð fræðslu í þessu efni. Þar að auki tók ég líka fram að ég fagnaði því að það hefði þó náðst í þessu samstarfsverkefni háskólans og Vestmannaeyjabæjar samstaða um það að Vestmannaeyjabær styddi verkið og legði því lið. Ég tók þetta líka fram. Ég held að hv. 1. þm. Vesturl. verði að skoða ræðu mína. Ég skal reyndar sjá til þess að hann fái hana sem fyrst útprentaða þegar búið er að vélrita hana, þannig að hann sjái hvað þar var sagt.
    Í öðru lagi ræddi ég um skólamál, m.a. í Vesturlandskjördæmi, sem fá hér lagfæringu og ég sagði líka að ég efaðist ekki um að öll þessi verkefni væru góð, brýn, nauðsynleg. Það væri auðvitað ekki hægt að verða við öllum verkefnum. Ég las t.d. hér eitt erindi um Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum og sagði að mig undraði það að hann skyldi ekki hafa fengið einhverja meðhöndlun hjá nefndinni líka. Ég held að ég hafi spurt hvers sá skóli ætti að gjalda. En það er m.a. vegna þess að ég hafði ekki haft neina aðstöðu til þess, mér hafði ekki verið boðið upp á það í samstarfi meiri hluta og minni hluta í fjárln. að fara yfir þessi erindi með þeim og meta það hver væru brýnni en önnur. Ég efast ekki um að þau eru öll brýn og gott væri að geta orðið við þeim öllum. En ég veit að það er ekki hægt og þess vegna hefði ég gjarnan viljað taka þátt í því að meta það, sem ég veit að meiri hlutinn hefur gert, og auðvitað komist að þeirri niðurstöðu að það væri brýnna að bæta Fjölbrautaskólann á Vesturlandi og skólann í Reykholti heldur en t.d. skólann í Vestmannaeyjum.