Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 16:51:54 (2422)

[16:51]
     Jón Kristjánsson :

    Virðulegi forseti. Við þessa 2. umr. fjárlaga hefur hv. formaður fjárln. og varaformaður flutt sinn boðskap. Það er dálítið merkilegt að hlusta á sumt af þeim yfirlýsingum sem komið hafa frá þeim við þessa umræðu. Það var að heyra á ræðu hv. formanns að sérhagsmunir hefðu ráðið fjárlagagerð hingað til. Ríkisstjórnin hefði tekist á við vandann, hefði að vísu ekki tekist að vinna bug á rekstrarhallanum. Og hv. varaformaður segir í sinni ræðu, hv. 1. þm. Vesturl., að sá tími sé liðinn að útgjöld ríkisins vaxi á hverju ári og segir reyndar líka að mikil vinna hafi farið í það að meta forgangsröð mála í nefndinni, er með samanburðarfræði á því hvað fjárframlög hafi hækkað milli fjárlagafrv. og tillagna fjárln. eða við vinnu fjárln. Þetta er allt saman gott og blessað og athyglisvert og ég kem að þessu nánar síðar.
    Það blasir hins vegar við að halli á fjárlögum yfirstandandi árs verður 14 milljarðar kr., hvorki meira né minna. Það eru ekki litlir peningar þegar lagt var upp með 6,2 milljarða kr. þegar fjárlög voru samþykkt um síðustu áramót. Að vísu hafa hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin og þá væntanlega hv. stjórnarliðar einfaldan hátt á því að komast frá þessu máli. Þeir segja einfaldlega: Halli fjárlaga hefur minnkað. Þegar fjárlagafrv. var kynnt í haust fyrir fjölmiðlum, þá er sett fram sú staðhæfing að halli fjárlaga hafi minnkað vegna þess að halli fjárlaga fer í 14 milljarða á yfirstandandi ári, þá er markið sett við það að byrja núna með 10 milljarða. Það var byrjað með 6,2 milljarða í fyrra, nú á að byrja með 10 milljarða. Málið endar a.m.k. í 14 milljörðum í ár og hvar skyldi það lenda eftir ár með þessu áframhaldi? Ég held að þetta séu þær köldu staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir við þessa fjárlagagerð. Það hefur ekki tekist að hemja útgjöld ríkissjóðs og ástæðurnar hafa verið raktar margoft hér í þingsölum allt þetta ár. Ástæðurnar eru þær að það hefur ekki tekist að koma böndum á atvinnuleysið í landinu og útgjöld af þeim sökum. Atvinnuleysið og samdrátturinn hefur komið svo hart niður á tekjum ríkissjóðs að áhrifin verða tvöföld af því. Það er aðalástæðan og sú grafalvarlega staða sem blasir við og auðvitað ætti það að vera forgangsverkefni í fjárlagavinnunni að bregðast við þessu. En ég mun koma að því síðar að það virðist nú ekki vera aðalvinnan í því fólgin hjá hv. meiri hluta fjárln. að bregðast við þessum alvarlegu staðreyndum sem við blasa í atvinnumálum sem eru ástæðan fyrir þessum halla. Það þarf ekki að rekja tölur í því sambandi. Það er nóg að nefna eina tölu sem er skjalfest hér í þingskjölum í skýrslu frá félmrn. þar sem segir að útgjöld ríkissjóðs vegna atvinnuleysis fari yfir 20 milljarða kr. á þremur árum. Það eru staðreyndirnar í málinu. Og það er ekkert auðvelt verk sem fjárln. stendur frammi fyrir, ég viðurkenni það, að eiga að klípa milljón hér og þar af einhverjum liðum til að bregðast við þessum halla. Hallinn stafar af því að atvinnulífið í landinu gengur ekki með eðlilegum hætti.
    Hins vegar er komin 2. umr. fjárlaga og ég vildi gjarnan ef hæstv. félmrh. væri hér viðstaddur segja við hann okkur orð. Ég vildi mælast til þess að það væri kallað í hæstv. félmrh. hér í salinn því að mér finnst alveg mál til komið fyrir þingheim að fara að vita hvaða ráðherrar ríkisstjórnarinnar styðja þetta frv. (Gripið fram í.) Hæstv. menntmrh. styður það væntanlega og ég hygg að hæstv. heilbrrh. styðji frv., svo að talningamaður minn, hv. 5. þm. Austurl., hefur talið upp að tveimur, telur að það hafi tvö atkvæði. En nú ætla ég að gera örlítið hlé á máli mínu þar til hæstv. félmrh. kemur í salinn, því að í hinu virðulega blaði Morgunblaðinu hinn 11. sept. er frétt sem er svo, með leyfi forseta:
    ,,Jóhanna Sigurðardóttir gekk út af ríkisstjórnarfundi vegna ágreinings við aðra ráðherra. Segist vera óbundin af afgreiðslu fjárlaganna.``
    Og nú vil ég spyrja hæstv. félmrh., af því að hún er mætt hér í þessa umræðu, hvort þessi afstaða sé enn í gildi við 2. umr. Við þurfum að fara að vita þetta hv. þm. því að í þessari frétt segir, með leyfi forseta, og er haft eftir hæstv. félmrh.:
    ,,Að ráðast þarna alfarið á félagslega íbúðakerfið er algerlega óásættanlegt fyrir mig og ég trúi því ekki að þingflokkur Alþfl. ljái því lið. . . .
    Það vita allir mína afstöðu til húsaleigubótanna og ýmissa þátta varðandi heilbrigðis- og menntamálin og ef þau atriði verða eins og þau líta út núna mun ég ekki telja mig bundna af fjárlögunum og þá hlýtur málið að vera í höndum forsrh. og hugsanlega formanns Alþfl.,`` sagði hún. Og hugsanlega formanns Alþfl. ( GunnS: Er það ekki víst?) Það er hugsanlegt.
    Þetta leikrit heldur áfram. Og hér segir í Morgunblaðinu þann 14. sept., svo að vitnað sé í það virðulega rit áfram. Þá er forsrh. kominn í málið og segir nú, með leyfi forseta, að hann: ,, . . .   hefði m.a. tjáð Jóhönnu að sú meginregla ríkti í ríkisstjórnarsamstarfi að ráðherrar yrðu að styðja fjárlagafrv. og að á það mundi reyna við atkvæðagreiðslu um frv. á þingi en hins vegar væri æskilegt að það lægi fyrir þegar frv. væri lagt fram. ,,Við fórum yfir sjónarmið okkar í málinu en fundurinn breytti í sjálfu sér engu,`` sagði Jóhanna Sigurðardóttir.``
    Síðan segir hæstv. forsrh. ,,Ég tel að það muni skýrast innan Alþfl., því þetta mál hlýtur hann að klára á sínum vettvangi.``
    Nú er það svo að í þessu frv. eru engar húsaleigubætur og það er komin 2. umr. og það er búið að fjalla um flestalla útgjaldaliði fjárlaganna. Það er engar húsaleigubætur hér að sjá og það væri fróðlegt að vita hvort ýmsir þættir heilbrigðis- og félagsmála væru orðnir þannig að hæstv. félmrh. gæti sætt sig við þá, hvort þetta mál er orðið þannig að ríkisstjórnin stendur öll að því.
    Það er fleira sem kom upp í þessu sjónarspili í haust. Hæstv. utanrrh. vildi skera niður nokkra

milljarða í viðbót, eina fimm ef ég man rétt. En árangur hæstv. utanrrh. í því efni að fá aukinn niðurskurð birtist í tillögum um hækkanir til utanrrh. til að starfsmenn hans þar geti flutt búferlum. Það er árangur utanrrn. í niðurskurðinum. Samstarf innan ríkisstjórnarinnar um þetta mál er náttúrlega hreinn farsi og það er auðvitað tækifæri fyrir hæstv. ráðherra að gera hreint fyrir sínum dyrum a.m.k. áður en kemur til atkvæðagreiðslu í 2. umr. um málið. Hvort þessi hringavitleysa stendur enn, hvort það á að bjóða þjóðinni upp á það að ráðherrar deili, taki svona rispur öðru hvoru, einu sinni í mánuði, um þetta mál og ætlist svo til að þjóðin gleymi því þar á milli. Ég sagði áðan að það ætti að vera frumskilyrði í allri þessari fjárlagavinnu að kanna það sem best hvaða fjárveitingar ríkisvaldsins gætu orðið til þess að auka atvinnu og umsvif í landinu. Örðuvísi næst aldrei vit í þessi mál. En því miður, þau vinnubrögð sem meiri hluti fjárln. hefur haft forgöngu um miða alls ekki að þessu. Þetta hefur ekki verið haft að leiðarljósi.
    Það var nú líka svo að það voru ýmsar trúarsetningar samþykktar á síðasta ári, þegar síðustu fjárlög voru samþykkt. Ýmsar, það sem ég hef kallað vitleysur, ýmis einkavæðingartrúarbrögð og það tekur langan tíma að vinna sig út úr þessu rugli. Það eru að vísu gleðileg merki um það í þessu frv. að hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarliðar hafa vitkast í afmörkuðum málum. Það er t.d. hætt við það að láta litlu flugfélögin borga veðurfréttir. Það er góðra gjalda vert. Það er rétt að geta þess sem jákvætt er í þessu. Og hætt er við að selja Þvottahús Ríkisspítalanna. En það var ekki hætt við það fyrr en búið var að borga verkfræðistofu úti í bæ stórfé fyrir að taka saman skýrslu um hluti sem allir vissu, voru búnir að segja hér margsinnis í umræðum á Alþingi. Skýrslan gerði ekkert annað en staðfesta það sem sagt hafði verið um málið. En það er haldið áfram og svokölluð einkavæðingarnefnd fer hér hamförum og hefur sjálfsagt nokkuð fyrir snúð sinn að kanna og skoða hvort það megi ekki selja hitt og þetta sem engin samstaða er um að selja. Ég get komið nánar að því þegar tekjuhlið fjárlaga verður rædd. Hún verður rædd við 3. umr. þannig að ég þarf ekki að eyða tíma í það núna. En enn þá er verið að áætla 500 millj. kr. tekjur af sölu ríkiseigna sem tókst með harmkvæmum að selja fyrir 100 millj. á þessu ári og síðan er kostað stórfé til að kanna og skoða hvort þetta sé mögulegt.
    Ég mun ekki heldur hafa mörg orð að þessu sinni um skattamálin eða hið stóralvarlega mál sem hér er í uppsiglingu og hv. stjórnarliðar samþykktu fyrir ári síðan, að leggja virðisaukaskatt á flugfargjöld og ferðaþjónustu. Ég get látið nægja, með leyfi forseta, að vitna hér bara í tvö erindi sem ég var að sækja í pósthólfið mitt núna fyrir klukkutíma síðan. Þau eru ein af tugum sem við hv. þm. fáum um þetta mál. Hér er fréttabréf frá Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Auk þess að mótmæla þeirri óskiljanlegu pólitísku ákvörðun að leggja virðisaukaksatt á þessa þætti ferðaþjónustu á samdráttartímum, þá er fyrirkomulaginu mótmælt. Það er skoðun ferðaþjónustunnar að verið sé að búa til kerfi sem er flóknara en áður var. Það stórskekki samkeppnisstöðu á markaðinum og það bjóði upp á mun meira skattsvindl en verið hefur. Allt þetta stingur átakanlega í stúf við upphaflega stefnu ríkisstjórnarinnar og alla heilbrigða skynsemi.``
    Hér er erindi frá ferðaskrifstofu á Austurlandi sem er mjög stór í innflutningi erlendra ferðamanna og aflar mjög mikils gjaldeyris fyrir þetta þjóðarbú. Ég get svona til að spara tímann bara lesið fyrirsagnirnar á þessari ítarlegu skýrslu sem er mjög góð um þetta mál og þar segir:
    ,,Afleiðingar þessarar skattlagningar verða eftirfarandi: Ferðum fækkar og tímabilið styttist, vinna flyst úr landinu og viðbrögðin verða að draga úr markaðssókn. Landsbyggðin tapar mest, ferðir munu styttast og farþegum fækka og gjaldeyrir tapast og það endar með því að gjaldþrot vofi fyrir mörgum fyrirtækjum sem eru að brjótast á þessum víðtæka markaði.`` Síðan segir: ,,Ísland er nú þegar afar dýrt land.``
    Ég vil minna á þetta við þessa umræðu þó að sjálfsögðu verði fjallað um tekjuhliðina við 3. umr. fjárlaga sem verður væntanlega innan tíðar.
    Hv. 1. þm. Norurðl. e. flutti hér ítarlega ræðu um frv. fyrr í dag og ég ætla ekki að endurtaka það sem hann sagði. Ég vil samt aðeins koma nánar að málaflokknum landbúnaðarmál í þessu frv. Það er svo að landbrn. þurfti að þola mjög mikinn niðurskurð á fjárlögum yfirstandandi árs. Það var auðvitað vegna búvörusamninga og minni framleiðslu af þeim sökum, en það er svo merkilegt að það er eins og það þyki aldrei nóg að gert. Landbrn. býr núna við mestan niðurskurð allra ráðuneyta (Gripið fram í.) og eina ráðuneytið sem eitthvað er skorið niður hjá, eins og hv. formaður landbn. og 3. þm. Austurl. segir réttilega, enda skilar hann hér mjög ítarlegu áliti landbn. sem ég kem að aðeins seinna.
    Það var mjög athyglisvert og alveg dæmi um kokhreysti hv. varaformanns og hv. formanns fjárln. að hv. varaformaður nefndarinnar lýsti því yfir hátíðlega úr ræðustól áðan að það hefur komið fram í nefndinni vilji til að efla héraðsbúnaðarsamböndin. Hvernig skyldi sá vilji hafa komið fram? Hér stendur í brtt. nr. 29 við liðinn Héraðsbúnaðarsambönd. Fyrir 40,1 millj. kemur 39,5 millj. Þetta er mjög merkileg aðferð við að efla héraðsbúnaðarsamböndin. Að vísu er ekki um mikinn niðurskurð að ræða, en hér er ekki allt sem sýnist. Hér voru lífeyrisskuldbindingar ráðunauta. Búnaðarfélagi Íslands og héraðsbúnaðarsamböndunum er gert í raun að skera niður fyrir þessum lífeyrisskuldbindingum, þó þær séu teknar út og gerðar að sérlið. Síðan fékk meiri hlutinn samviskubit og taldi að þeir mundu fá bágt fyrir hjá héraðsbúnaðarsamböndunum þegar þeir kæmu út í héruðin og fundu það snjallræði að taka 2 millj. af Búanaðarfélagi Íslands og bæta við héraðsbúnaðarsamböndin án þess að það væri nokkur umræða um það. Og mér blöskrar náttúrlega alveg sá málflutningur þegar hv. 1. þm. Vesturl. kemur svo hér upp og segir að það hafi komið sá vilji hér fram að efla héraðsbúnaðarsamböndin. ( EgJ: Ég er búin að taka hann upp.) Enda þarf ég ekki að eyða lengri tíma í þetta því að hv. 3. þm. Austurl. segist vera búinn að taka hann í gegn og ég vildi bara taka hann svolítið betur í gegn, en (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að dæma um það.
    Hins vegar ætla ég næst að koma að jarðræktarlögum, þar sem er ekki króna til þess að greiða framlög vegna jarðræktarlaga og þá skuld sem þar stendur. Það er að vísu alveg rétt að samkvæmt lögum eða lagaákvæði sem samþykkt var hér á síðasta ári, er óheimilt að greiða jarðræktarframlög nema til þess sé heimild eða fé á fjárlögum. En mér er spurn og við því hef ég ekki fengið svar í fjárln., hvaða tilgangur er í því að fara að safna upp þessum skuldahala? Því það kemur alveg ótvírætt fram í bréfi m.a. frá landbrn. að jarðræktarlögin eru í gildi og eftir þeim er náttúrlega að sjálfsögðu unnið meðan þeim er ekki breytt. Þannig að þessi upphæð, 70,9 millj. kr., er skuld ríkisins við þá sem hafa staðið í framkvæmdum. Nú heyrir maður stundum rök í því að verið er að hártoga nafnið jarðræktarframkvæmdir og það er náttúrlega hártogað af mönnum sem aldrei hafa stigið á græna torfu og vita ekkert hvað um er að ræða í landbúnaðinum. Menn virðast halda að þó að niðurskurður sé í landbúnaði og minnkun framleiðslu þá sé hægt að hætta að rækta tún. Auðvitað verður að halda fóðurframleiðslunni eins góðri og mögulegt er til þess að fá góðar afurðir, en þetta virðast menn ekki skilja og telja að það sé hægt að strika þetta allt saman út bara á einu bretti. Það verður þá a.m.k að breyta lögunum og menn verða þá að standa frammi fyrir því. En þessar aðfarir finnst mér alveg forkostulegar. Það verð ég þó að segja.
    Svo er það auðvitað miklu fleira sem þarna er styrkhæft. Það eru gróðurhús og geymslur, vatnsveitur, grænmetisgeymslur o.fl. Það skiptir t.d. miklu máli fyrir þann sem ræktar grænmeti eða kartöflur, eins og t.d. hv. 3. þm. Austurl., að geta geymt þær almennilega svo að þær séu almennileg vara. En sá skilningur virðist ekki komast inn í höfuðið á hv. meiri hluta fjárln.
    Ég vil líka nefna málefni Landgræðslu Íslands. Það eru núna mjög stór og alvarleg verkefni sem blasa við Landgræðslunni. Hér kom mjög vel rökstutt erindi úr Vestur-Skaftafellssýslu um það alvarlega ástand sem þar er, þar sem Eldhraunið er að blása upp og mjög alvarleg gróðureyðing er yfirvofandi. Morgunblaðið skrifar m.a. forustugrein í morgun um það alvarlega ástand sem þar er og hvetur til bjögunaraðgerða. Þessum málum var bara umsvifalaust vísað yfir á Landgræðsluna án þess að hún fengi nokkurt fjármagn til að sinna þeim aukalega. Þannig að ég vil minna á, þó að Landgræðslan búi við svipaðar fjárveitingar eins og árið áður, að einmitt þetta starf, landgræðslustarfið, gæti orðið til þess að auka eitthvað atvinnu í landinu, að gera átak í því og áreiðanlega gætu skilað sér til baka eitthvað af þeim fjárveitingum sem gengu til þeirra mála. En það er einmitt það sem er að, ýmsar fjárveitingar eru þannig vaxnar að þær auka atvinnu og skila tekjum til baka til ríkissjóðs. En ég hef ekki orðið var við nokkurn vilja til þess að skoða þessi mál.
    Ég minntist á að það hefði komið ítarlegt álit frá landbn. um þetta mál, um landbúnaðarmálin. Þar er m.a. talað um málefni loðdýraræktarinnar, að þar standi út af að veita stuðning sem var veittur á fjárlögum á síðasta ári vegna fóðurframleiðslu í loðdýrarækt og hér stendur: Þess vegna leggur nefndin til að hliðstæð fjárveiting verði á fjárlögum ársins 1994, en þetta voru 34 millj. kr. Hér er einnig drepið á þau mál sem ég hef verið að ræða og það bregður nú svo við að þetta er samhljóða álit landbn. Hér rita að vísu tveir fjárlaganefndarmenn undir með fyrirvara og fyrirvarinn var í því fólginn að það átti eftir að taka málið fyrir í fjárln., það var upplýst á fundum í fjárln. Að öðru leyti er álitið samhljóða og hér skrifa undir það Egill Jónsson formaður og þeir hv. þm. Gísli Einarsson, Guðni Ágústsson, Ragnar Arnalds, Eggert Haukdal og Jóhannes Geir Sigurgeirsson, allir án fyrirvara. Þetta er álit þessara hv. þm. og Árna M. Mathiesens og Einars K. Guðfinnssonar með fyrirvara, sem ég hef skýrt frá. Fyrirvarinn var í því fólginn að þeir ættu eftir að fjalla um þessi mál nánar.
    Ég lagði þá fyrirspurn fyrir hæstv. félmrh. í upphafi hvort hann sem ráðherra styddi þetta frv. Ég undirstrika þá spurningu. En það eru fleiri sem hafa verið með æfingar í kringum þetta frv. Í frv. voru tillögur um að leggja niður sýslumannsembætti hingað og þangað á landinu sem voru ekki með miklum rökstuðningi. Hér hafa hv. stjórnarliðar keppst við baki brotnu að lýsa því yfir að það væri ekki meiri hluti fyrir þessum tillögum. En tillögurnar standa enn hér við 2. umr. málsins og mér er nú spurn: Er von á því að þessar tillögur verði dregnar til baka eða er von á því að atkvæðagreiðsla gangi fram án þess að tillögurnar verði dregnar til baka? Ég veit ekki betur en hv. stjórnarliðar hafi meira að segja verið að flytja hér þingmál sem ganga í þveröfuga átt við þessi ákvæði um sýslumennina og það er bara að æra óstöðugan að rekja öll þau atriði sem búið er að breyta í sambandi við þetta frv. Ég ætla ekki að endurtaka það.
    Ég vil minnast á eitt atriði varðandi sjútvrn. sem hefur reyndar komið fram í dag í ræðu, að mig minnir, hv. 6. þm. Vestf. Það er varðandi Hafrannsóknastofnun og þær seiðarannsóknir sem þar hafa farið fram. Mér finnst alveg dæmalaust að ríkisvaldið og reyndar LÍÚ í sameiningu skuli ekki klára sig af þessu verkefni upp á rúmlega einn tug milljóna króna. Að stefna verkefninu í hættu fyrir 26 millj. kr., sem er heildarkostnaðurinn, það finnst mér alveg dæmalaust, þar sem útgerðarmenn hafa verið starfandi í þessu verkefni á móti ríkisvaldinu að það skuli ekki vera leiðir til þess að klára það.
    Fulltrúar Hafrannsóknastofnunar komu á fund fjárln. og lögðu mikla áherslu á þessar rannsóknir,

sem væru afar þýðingarmiklar í sambandi við ráðgjöfina varðandi þorskinn. Ég veit ekki hvaða mál er í raun þýðingarmeira heldur en þetta hafrannsóknarstofnunarmál. Að það skulu ekki vera möguleikar á því að leysa þetta mál finnst mér ekki vera góður vitnisburður um þau forgangsmál sem fyrir hendi eru í hv. fjárln.
    Ég vil aðeins koma að málum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem fær nú ríkisframlag í staðinn fyrir landsútsvarið. Málefni Jöfnunarsjóðsins eru í nokkurri óvissu. Í félmn. er frv. um tekjustofna sveitarfélaga og frambúðartekjustofna í stað aðstöðugjaldsins sem lagt var niður. Það er auðvitað alveg nauðsynlegt að vita hvernig Jöfnunarsjóðurinn kemur inn í þau mál, tekjustofnamál sveitarfélaga, með hvaða hætti hann vinnur eftir að það frv. tekur gildi, ef það verður samþykkt hér á Alþingi. Það er ekki sýnt hvernig þær upphæðir sem veittar eru til Jöfnunarsjóðsins í frv., sem eru hans lögbundnu framlög, endast til þeirra verkefna sem hann á að sinna. Hér kom skyndilega upp við 3. umr. fjáraukalaga aukafjárveiting upp á litlar 250 millj. til Jöfnunarsjóðsins, sem er staðhæft að eigi ekki að endurtaka sig á næsta ári, út á einhverja samninga við sveitarfélögin sem hv. þm. hafa ekki séð enn þá. Ég vil minna á þetta og minna á það við þessa umræðu að auðvitað er alveg nauðsynlegt að fá niðurstöðu í máli Jöfnunarsjóðsins sem allra fyrst og fá einhverja hugmynd um það hvernig breyttar reglur eiga að vera og breytt er löggjöf um sjóðinn, sem er boðað að séu í vinnslu.
    Í húsnæðismálum er gert ráð fyrir að Húsnæðisstofnun skeri niður starfsemi sína um 24 millj. kr. Það má segja að það sé ekki há upphæð miðað við þau umsvif sem eru í þeirri stofnun. Eigi að síður má þó ekki gleyma því að á stofnunina eru að hlaðast verkefni, og hef ég þær upplýsingar úr stofnuninni, vegna vanskila á húsnæðislánum og ráðgjafarstarfsemi varðandi vanskila á lánum. Og ég vil minna á þetta. Þetta er einn veigamesti þátturinn í því slaka efnahagsástandi sem er hjá almenningi í landinu. Það eru húsnæðislánin og hvernig gengur að standa straum af þeim. Skuldir einstaklinga hafa farið hraðvaxandi og það eru gríðarlegar upphæðir sem skuldir fjölskyldnanna í landinu eru orðnar og þess sér stað einmitt í Húsnæðisstofnun. Fólk kemur þangað með sín vandræði og er að reyna að grynna á sínum málum, reyna að fá ráðgöf, fá einhverja möguleika hvernig það getur staðið við sínar skuldbindingar og það má ekki þjarma svo að stofnuninni að hún sé ófær um að sinna þessu verkefni. Ég vil vara við því.
    Hv. formaður fjárln. vitnaði hér í innansveitarkróníku þar sem hann varaði við því að ræða mikið um tittlingaskít. Ég bið afsökunar á orðbragðinu, en þetta er úr bókmenntum. Ég veit ekki hvað hann kallar smámuni í þessu efni, en það eru nokkur atriði sem mér finnst undarlegt hvernig afgreiðslu fá. Ég ætla ekki að nefna mörg. Mér finnst t.d. alveg óskiljanlegt að ár eftir ár sé ekki hægt að leysa málefni Menntaskólans á Ísafirði með því að koma upp skíðabraut við skólann (Gripið fram í.) Framhaldsskólans á Ísafirði, koma þar upp skíðabraut. Þetta er verkefni upp á 1 millj. kr. sem ekki er hægt að leysa þrátt fyrir að hv. 6. þm. Vestf. hafi lagt á þetta mikla áherslu og þeir sem reka erindi fyrir skólann.
    Mér finnst alveg óskiljanlegt að það skuli ekki vera hægt að sérmerkja framlag til ferðamálasamtaka Íslands, að þessum ferðamálasamtökum skuli ekki treyst fyrir því að skipta fjárveitingu milli sinna aðildarfélaga. Að það skuli vera sett inn í Ferðamálaráð og þessir aðilar utan af landi þurfi að standa í stórstyrjöld og daglöngum fundum til að fá viðurkenningu á því í Ferðamálaráði að þessir peningar eigi að fara út á land. Ég held að hér sé verið að gera einfaldan hlut flókinn og það er skrýtið að landsbyggðinni skuli ekki vera treyst til að fara með sín mál, þetta þurfi að vera inni í einhverju Ferðamálaráði hér sem hefur næg verkefni á öðrum sviðum.
    Þá kem ég að máli sem hefur valdið nokkrum átökum í nefndinni en það var varðandi skiptingu stofnkostnaðar. Ég kem þá inn á vinnubrögð nefndarinnar í leiðinni. Skipting stofnkostnaðar hefur farið fram með þeim hætti að komið hafa tillögur frá ráðuneytum, undirnefndir hafa farið yfir þær, síðan hafa þeirra tillögur verið sendar til þingmannahópanna þar sem þingmannahóparnir hafa haft leyfi til þess, ég segi leyfi, og það er hefð að það hafa verið teknar til greina þeirra ábendingar um áherslur í verkefnum. Þetta hefur verið regla hér síðan ég man eftir og lengur áreiðanlega. En það eru til undantekningar og þær undantekningar voru fyrir tveimur árum þar sem tillaga okkar þingmanna Austurl. var ekki tekin til greina um skiptingu í heilbrigðismálum, þar sem við lögðum til að lítil upphæð væri lögð fram til þess að gera samning um verk á Höfn í Hornafirði. ( GunnS: Ekki allir.) Ekki allir nei, það er rétt. Og það er kannski mergurinn málsins.
    Nú gerðum við tillögu um það fjórir þingmenn og einn var því andvígur, hv. 5. þm. Austurl., að taka 1 millj. af framlagi til Hafnar í Hornafirði og 1 millj. af framlagi til Eskifjarðar og leggja það fé í undirbúning verks á Fáskrúðsfirði, hjúkrunarheimilis þar. Þetta erindi okkar var afgreitt með þeim hætti í nefndinni að við erum nauðbeygðir að flytja brtt. um málið. Erindinu var hafnað af meiri hluta nefndarinnar og við flytjum um það brtt. að þarna verði teknar inn 2 millj. til viðbótar við þennan lið þar sem fordæmin eru auðvitað fyrir hendi, þar sem framhaldsskólaliðurinn var aukinn, ramminn um 35 millj. kr., vegna þess að hann sprengdi utan af sér þau verkefni sem þar var um að ræða og við leggjum til í brtt. að þetta verkefni verði tekið inn. Það var fjárveiting í það í fyrra til hönnunar og undirbúnings. Það er forgangsverkefni hjá sveitarstjórninni á staðnum að ráðast í þetta og til þess að geta unnið að málinu áfram verður að hafa fjárveitingu að baki þó að hún sé ekki stór.

    Ég trúi ekki að það sé ekki hægt að leysa þetta mál. Og ég trúi því satt að segja ekki að ef þessi tillaga yrði dregin til baka til 3. umr., að nefndin taki ekki málið aftur til umræðu og skoði þetta. Ég vil trúa því að þarna hafi verið um augnabliksmisskilning að ræða, þó að sá misskilningur sé ansi harkalegur, því það var harkalega tekist á um þetta í nefndinni og ég skil ekki þessi vinnubrögð gagnvart þingmannahópnum. Það snertir þá kannski það sem ég ætlaði að enda á að ræða hér, vinnubrögð meiri hluta fjárln. Það þarf auðvitað að setjast yfir þessi vinnubrögð og hv. formaður fjárln. hefur haft orð um það að við munum fara í þá vinnu eftir áramótin. Og það er nauðsynlegt að gera það vegna þess að ég viðurkenni auðvitað að í fjárlögum felst pólitísk stefnumörkun ríkisstjórnar hverju sinni. Ég geri ekki kröfu til þess að blanda mér í hana, ekki pólitíska stefnumörkun þessarar ríkisstjórnar. Það er langt frá því að mig langi til þess að fara inn í slíkan ormagarð sem þar er. Hins vegar geri ég kröfu til þess að í vinnu í fjárln. sé minni hlutinn tekinn jafngildur á þann hátt að það sé ekki haft þannig að minni hlutinn sé í viðtölum vikurnar út við hina og þessa aðila sem koma til nefndarinnar. Svo þegar þessi viðtöl eru búin, þá eru einstakir þættir teknir fyrir í undirnefndum eins og stofnkostnaðarliðir, safnliðir ýmiss konar, en síðan lokar meiri hlutinn að sér og situr sólarhringana út og þar urra þeir hver á annan og skipta herfanginu. Síðan er kallað á minni hlutann þegar allir eru búnir að fá sitt og okkur er tilkynnt hvernig þessar afgreiðslur eru og það er ekki óalgengt, var a.m.k. ekki óalgengt í fyrra og ekki óalgengt núna, að heyra eitthvað á þá leið að þetta sé ákvörðun þegar er spurt. Ég geri kröfur til þess, þegar ég tala við aðila utan úr þjóðfélaginu, að vita sem best á hvaða forsendum þeirra kröfum og þeirra beiðnum hefur verið rutt út af borðinu. Og ég geri líka kröfur til þess að vita á hvaða forsendum beiðnir eru samþykktar, en mér finnst mikið á það skorta.
    Mér er ekki ljúft að fara með þetta í ræðustól á Alþingi því auðvitað er þetta hlutur sem við þurfum að gera upp í nefndinni, en því miður hafa þessi mál verið með þeim hætti að ég er nauðbeygður til þess.
    Ég vil ljúka þessu með því að leggja áherslu á það að fjárlagavinnan á að vera þannig og stefna ríkisvaldsins á að vera sú að leggja sitt af mörkum til að ýta undir bjartsýni í þjóðfélaginu og trú á það að það sé þess vert að ráðast í framkvæmdir og koma hjólum atvinnulífsins til að snúast. Ég tel að það þurfi að styðja hvers konar rannsókna- og ekki síst markaðsstarfsemi sem eru undirstöðuatriðin í því að byggja atvinnulífið upp á nýtt. Mér finnst líka stefnumörkun skorta í þetta frv.
    Ég held að hallarekstri ríkissjóðs verði ekki snúið við nema með aukinni tekjuöflun. Ég er ekki þar með að segja að það eigi að leggja aukna skatta á almenning í landinu, sú aukna tekjuöflun kemur ekki nema atvinna aukist í þjóðfélaginu og það er þaðan sem þeir auknu fjármunir eiga að koma.