Fjárlög 1994

53. fundur
Fimmtudaginn 09. desember 1993, kl. 17:44:38 (2423)


[17:44]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson gerði grein fyrir tillögu er hann flytur ásamt þremur öðrum þingmönnum á Austurlandi um að veita 2 millj. kr. til byggingar hjúkrunarheimilis á Fáskrúðsfirði. Hér er um mjög óábyrga sýndartillögu að ræða. Það liggur ekki fyrir samningur um þessa byggingu. Mikilvægast af öllu núna er að undirbúa slíkan samning. Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði að hér væri um misskilning að ræða. Aldeilis ekki. Ég er andvígur þessari tillögu af því að ég get ekki fellt mig við að bjóða fólki á Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði önnur kjör um byggingu hjúkrunarheimilis en gerist í öðrum sveitarfélögum. Vísa ég þá til sveitarfélaganna á Höfn og Eskifirði sem búa núna við alveg nýtt fyrirkomulag í sambandi við uppbyggingu sinna mannvirkja, heilsugæslustöðvar og hjúkrunarheimilis, er byggist á skuldbindandi greiðslusamningi í stað grunnastefnunnar er hann stóð fyrir hér á árum áður.